Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 17:44:13 (6269)

2002-03-19 17:44:13# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, Frsm. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[17:44]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að hv. 1. þm. Norðurl. e., sem jafnframt er forseti í forsetastól, skuli ekki blanda sér í umræðurnar um samgöngumál. Hæstv. forseti var hæstv. samgrh. um tíma. Honum var mjög annt um að láta til sín taka á þeim vettvangi og hefur enn þá, það ég best veit, sterkar skoðanir í samgöngumálum. Þegar verið er að setja lagaramma um gerð samgönguáætlunar til lengri tíma vekur það mér furðu að hæstv. forseti og fyrrv. hæstv. samgrh. skuli ekki blanda sér í málið. Ég veit að hann hefur ýmislegt til málanna að leggja og gæti e.t.v. gefið núverandi sitjandi hæstv. samgrh. góð ráð. Þetta vil ég benda á, með leyfi forseta.

[17:45]

Virðulegi forseti. Ég verð að víkja að ákveðnum þáttum í máli hæstv. samgrh. áðan. Hann sagði að ég sem er í hv. samgn. fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð hafi ekki komið fram með á brtt. allar þær tillögur til breytinga sem gætu hafa verið til bóta hans slappa frv. og þeirri slöppu meðferð sem ég var að segja að það fékk í samgn. Ég er ekkert að rekja þá umræðu en get þó sagt hæstv. forseta frá því að ég gerði margar fleiri athugasemdir við frv. en ég hef komið fram með í brtt. Víkjum fyrst að því sem hæstv. ráðherra lagði fram í sínu frv. til laga um samgönguáætlun og þótti ástæða til að nefna það sem sérstakan lagatexta. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra verði reiðubúinn að skýra út hvers vegna hann telji nauðsynlegt að setja það inn í lög.

Lítum á: Í c-lið 2. gr. frv. til laga um samgönguáætlun stendur, og á það að verða lagatexti:

,,c. að ná fram víðtæku samspili samgöngumáta og samstarfi stofnana samgönguráðuneytisins.``

Hver hefur heyrt annað eins, að hæstv. samgrh. þurfi að setja í lagatexta að stofnanir sem heyra undir hann þurfi að vinna saman í samgöngumálum? Þarf að setja það í lagatexta, eða hvað er að? Hvað er að, virðulegi forseti, þegar hæstv. ráðherra verður að setja það í lagatexta að skylda stofnanir sem heyra undir hæstv. ráðherra til að vinna saman? Mér finnst alveg fráleitt að þetta skuli þurfa að setja í lagatexta og mér finnst að hæstv. ráðherra eigi að skýra frá því hvað sé að í þessum stofnunum þar sem að binda þarf með lögum að þær þurfi að vinna saman. Hvað er að? Ég heimta skýringar á því hvers vegna ástæða er til að setja það með svo ákveðnum hætti inn í lög. Það hlýtur eitthvað meiri háttar að vera að sem hæstv. ráðherra ber skylda til að greina þingheimi frá. Hvers vegna er ástæða til að setja í lög að skylda stofnanir á vegum samgrn. sem vinna að samgöngumálum til að vinna saman? Ég heimta skýringu á því.

Ég heimta líka skýringu á því hvað hæstv. samgrh. ætlar sjálfur að gera í tengslum við gerð samgönguáætlunar.

Í 3. gr. frv. stendur um samgönguráð, með leyfi forseta:

,,Samgönguráðherra skipar samgönguráð sem hefur yfirumsjón með gerð samgönguáætlunar.``

Samgönguráðið á að hafa yfirumsjón með gerð samgönguáætlunar. Ég hélt að það væri verkefni hæstv. samgrh. að hafa yfirumsjón með gerð samgönguáætlunar. Ætlar hæstv. ráðherra bara að vera áhorfandi? Mér finnst heldur betur vera að slappast stjórn á þessu verkefni. Hæstv. ráðherra kallar til og felur undirmönnum sínum yfirumsjón með því verkefni sem hann ber ábyrgð á. Ég er ekki viss um að hæstv. fyrrv. samgrh. hafi talið að hann þyrfti að kalla til og fela undirmönnum sínum yfirumsjón með verki sem hann bæri sjálfur ábyrgð á. Ég dreg það í hæsta máta í efa.

Mér finnst hæstv. ráðherra þurfa að skýra út hvers vegna hann getur ekki sjálfur haft yfirumsjón með gerð samgönguáætlunar. (Gripið fram í.) Ég tel, virðulegi forseti, að samgrh. ætti að axla sína ábyrgð í þessu máli þannig að samgönguáætlunin yrði unnin undir yfirumsjón hans og á hans ábyrgð en hann þyrfti ekki að fela embættismönnum yfirumsjón með þeirri vinnu. Ég tel virkilega þörf á að fyrrv. samgönguráðherrar aðstoðuðu núv. hæstv. samgrh. í því að ná áttum á því hvert hlutverk hæstv. ráðherra er í hans eigin ráðuneyti.

Um þær tillögur sem ég hef hér lagt fram og gerði grein fyrir í ræðu minni fyrr í dag um samgönguáætlun sagði hæstv. ráðherra að nægilega væri tekið á því í greinargerðinni sjálfri og að minnst væri þar á að taka skyldi tillit til umhverfismála, umferðaröryggismála, byggðamála og almenningssamgangna og það er alveg rétt að þetta er nefnt í greinargerðinni eins og hæstv. ráðherrann kom inn á. Það er einnig nefnt í greinargerðinni að ná þurfi fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla en samt þykir sérstök ástæða til þess að setja það inn í sjálfa lagagreinina. Það er líka tekið fram í texta greinargerðar frv. að stofnanir samgrn. skuli vinna saman. En það er samt sett, virðulegi forseti, inn í sjálfan lagatextann að stofnanir samgrn. skuli vinna saman. Ég tel miklu eðlilegra að inn í lagatextann, eins og ég hef lagt til, verði settur hinn stefnumarkandi rammi sem vinna ætti samgönguáætlun út frá. Og ég hef lagt til að samgönguáætlun skuli vinna og vera í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda í umhverfismálum. Við höfum gert fullt af skuldbindingum þar og stefnumörkun líka af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég spyr hæstv. ráðherra hvers vegna hann geri svona lítið með stefnumörkun og skuldbindingar í umhverfismálum. Því er ekki gefinn fullur sess í lagaatextanum sjálfum. Það er frekar lögð áhersla á að í lagatextann komi að skikka skuli stofnanir samgrn. til þess að vinna saman.

Ég hef lagt til að stefnumörkun stjórnvalda í umhverfismálum, í umferðaröryggismálum og byggðamálum og almenningssamgöngum komi inn í sjálfan lagatextann og þá er það vegvísir, vísir að því hvernig hún skuli unnin. Ef hæstv. ráðherra vill endilega hafa þetta samgönguþing sem nefnt er í 3. gr. þá verður búið að leggja upp, þ.e. ef brtt. mínar verða samþykktar, hvaða áherslur eiga að liggja fyrir og hvernig þetta samgönguþing yrði þá hugsanlega sett saman. En að sjálfsögðu mætti, og ég tek alveg heils hugar undir það, kveða skýrar á um það í lagatextanum sjálfum hvert hlutverk samgönguþings skuli vera --- á það er ekkert minnst --- eða verkefni né heldur hvernig það skuli sett saman. Ef svo óhönduglega og óheppilega vildi til að brtt. mínar verða felldar þá er frv. allt orðið miklu þrengra og þá verður staðan sú að þetta er eingöngu orðið mál embættismanna stofnana samgrn. sem eiga bara að vinna á ábyrgð samgrh. og vera honum til ráðuneytis við gerð samgönguáætlunar. Ef brtt. mínar verða ekki samþykktar þá skreppur frv. saman og verður þröngt og allt of innhverft.

Ég vil svo einnig, virðulegi forseti, víkja að því sem hæstv. ráðherra kom inn á í stuttu andsvari um strandsiglingarnar sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni þegar ég greindi frá því að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa lagt fram á Alþingi till. til þál. um strandsiglingar. Það hefði náttúrlega verið mjög æskilegt, virðulegi forseti, ef hún hefði verið til umræðu nú um leið og þessi samgönguáætlun. Ég fagna þeim orðum hæstv. samgrh. að strandsiglingar verði sérstaklega teknar til skoðunar við mótun samgönguáætlunar.

Það er svo aftur á móti ekki rétt nálgun hjá hæstv. ráðherra að segja að fyrirtæki eigi sjálf að marka eða ákveða hvers konar flutningsmáta þau vilja nota. Löggjafinn setur jú rammann. Hann setur hin ytri skilyrði, leggur á skatt, mótar áherslu í vegarlagningu og hafnargerð o.s.frv. Því er það löggjafinn sem setur hin ytri skilyrði um flutningsmátann. Og löggjafinn, við, Alþingi, framkvæmdarvaldið höfum einmitt skrifað undir skuldbindingar m.a. sem lúta að umhverfismálum, lúta að mengunarmálum, lúta að því að bæta orkunýtingu í samgöngum sem fer nú lítið fyrir í þessu frv. hér. Því hefði verið mjög gott, virðulegi forseti, ef þáltill. okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um strandsiglingar hefði verið hér til umræðu jafnframt til þess að draga fram þessar áherslur, því að samgöngumál eru ekkert markaðslögmálsmál. Stefnan í samgöngumálum ræður því hvernig við byggjum þetta land, hvernig við nýtum þetta land og hvernig við njótum þess og gæða þess. Hún á ekki að vera bara einhver hentistefna. Hún á að vera skýrt mörkuð út frá grundvallarsjónarmiðum sem eiga að liggja til grundvallar samgöngum í landinu eins og ég hef hér rakið.

Herra forseti. Ég vil í lokin lýsa yfir vonbrigðum mínum með undirtektir og viðbrögð hæstv. samgrh. í þessu máli. Annars vegar finnst mér að hæstv. ráðherrann hafi ekki fullan skilning á því hvað eigi að felast í samgönguáætlun og hverjar forsendur hennar eigi að vera. Hins vegar finnst mér hæstv. samgrh., virðulegi forseti, víkja sér undan ábyrgð sinni þegar það á að fela framkvæmdastjórum og forstjórum undirstofnana ráðuneytisins yfirumsjón með gerð samgönguáætlunar og þeir eiga að mynda eitthvert samgönguráð. Þetta eru verkefni sem hæstv. ráðherra á að láta vinna á eigin ábyrgð og skila svo til þingsins. Mér finnst líka alveg fráleitt --- ég ítreka það --- og inni hæstv. ráðherra eftir því: Hvers vegna er ástæða til að setja það í lagatexta að skylda stofnanir samgrn. til þess að starfa saman? Hvað er að?