Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 18:40:21 (6287)

2002-03-19 18:40:21# 127. lþ. 99.11 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[18:40]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Um leið og þáltill. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi er hleypt úr hlaði fyrir árið 2001 --- ja 2002 náttúrlega vegna þess að 2001 er liðið, en auðvitað átti skýrslan að ná yfir það tímabil, þá vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. annars vegar út í það hvenær skýrsla fyrir síðasta ár verði flutt þinginu um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar miðað við gömlu áætlunina og enn fremur það sem ég hef því miður ekki haft tök á að spyrjast fyrir um eða réttara sagt ekki spurt nógu marga, en í lokin er fjallað um að samhliða tillögunni verði alþingismönnum afhent umrædd skýrsla starfshópsins um umferðaröryggisáætlun 2002 til 2012 --- Ísland verði fyrirmyndarland í umferðinni fyrir árið 2012.

Ég var að grennslast um það hjá starfsmönnum þingsins --- nú kann það stundum að vera svo og ég ætla ekki að þvertaka fyrir það að á borð okkar þingmanna hafi þessi skýrsla komið. Ég hef hins vegar ekki fundið hana og vil því spyrjast fyrir um það hjá hæstv. dómsmrh. hvort þeirri tillögu sem getið er um í þessari þáltill. hafi verið dreift til okkar til að ræða samhliða þessari þáltill. sem hér hefur verið fylgt úr hlaði.