Endurskoðun EES-samningsins

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 10:54:40 (6499)

2002-03-22 10:54:40# 127. lþ. 103.94 fundur 424#B endurskoðun EES-samningsins# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[10:54]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Þeir sem vilja kynna sér hverra kosta Ísland á völ hjá Evrópusambandinu skulu lesa Rómarsáttmálann. Hann er alveg skýr, þar fer ekkert milli mála.

Við gengum að þessum samningi EES sem var eitt mesta gæfuspor lýðveldisins, mesta og stærsta. Það hefur líka skilað sér ríkulega eins og sjá má á allri efnahagsumgjörð Íslands í dag. Ég held að segja megi að Ísland sé örugglega meðal smáþjóða heims einir mestu lukkunnar pamfílar. Við höfum okkar góðu vini í vestri, Kanadamenn og Bandaríkjamenn, eigum svo þennan samning sem auðvitað þarf að endurskoða eins og annað. Allt hefur sinn tíma.

Staða íslensks iðnaðar hefur aldrei verið sterkari en í dag. Samkeppnishæfni hans er aldrei meiri, arðsemi hans aldrei meiri. Þess vegna er það heldur leiðinlegt, herra forseti, að sumir talsmenn þessa iðnaðar skuli ekki finna sér annað til dundurs þessa dagana en að skattyrðast við Sjálfstfl.

Fyrir ekki margt löngu var það mál flestra að málefni Evrópu yrðu ekki á dagskrá næstu kosninga á Íslandi. En ef heldur fram sem horfir, þá mætti ætla að svo gæti orðið. Menn skulu vera alveg vissir að ef til þeirra slagsmála kemur, þá hlægir það mig, herra forseti. Menn skulu vera alveg vissir að Sjálfstfl. gengur til þeirrar baráttu af þeirri trúmennsku og einurð sem hann var stofnaður til að standa vörð um. Það dyljist engum.