Sjálfstæði Palestínu

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 11:25:30 (6508)

2002-03-22 11:25:30# 127. lþ. 103.2 fundur 336. mál: #A sjálfstæði Palestínu# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[11:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við eins og öll heimsbyggðin fylgjumst agndofa með þeim harmleik sem á sér stað við botn Miðjarðarhafsins. Núverandi átök eiga upptök sín í ferð öfgamannsins Ariels Sharons á hina helgu musterishæð og síðan átökin hófust, þau sem nú standa og enn standa, hafa þúsundir mannslífa tapast, tugir þúsunda slasast og ómælt annað tjón orðið af þessu ástandi.

Tillagan sem hér er rædd um sjálfstæði Palestínu gengur út á að Alþingi álykti og vísar þar til Óslóarsamkomulagsins frá 1993, vísar til ályktana Sameinuðu þjóðanna og loks þess að við styðjum hugmyndir um að alþjóðlegt gæslu- og eftirlitslið verði sent á vettvang. Ég tel tímabært að Alþingi álykti á nýjan leik um málefni Palestínu, eða deilu Ísraelsmanna og Palestínumanna. Í gildi er hin merka samþykkt frá 18. maí 1989 og það sem við værum þá að gera væri að álykta í framhaldi af henni og með hliðsjón af þeim aðstæðum sem blasa við okkur í dag. Sú samþykkt var í raun og veru tímamótasamþykkt og ég held að óhætt sé að fullyrða að með henni skipaði Ísland sér þá í allra fremstu röð, a.m.k. Evrópuríkja, hvað varðaði stuðning við Palestínumenn, sjálfsákvörðunarrétt þeirra og þá nálgun að leysa yrði þessa deilu á þeim grunni að réttur beggja aðila yrði að fullu virtur. Samþykktin er svohljóðandi, með leyfi forseta, sú sem gerð var 18. maí 1989:

,,Alþingi ályktar að lýsa áhyggjum sínum yfir því ástandi sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og telur það stöðuga ógnun við heimsfriðinn.`` --- Það gildir víst enn.

,,Alþingi skorar á ísraelsk stjórnvöld að koma í veg fyrir manndráp á varnarlausum borgurum og leggur áherslu á að þau virði mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og 4. Genfarsáttmálann um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Nauðsynlegt er að báðir aðilar forðist ofbeldisverk.

Alþingi styður kröfuna um að tafarlaust verði haldin alþjóðleg friðarráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila. Nauðsynlegt er að báðir aðilar sýni raunverulegan samkomulagsvilja og viðurkenni rétt hvor annars í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 181 frá 29. nóvember 1947 sem ásamt ályktunum öryggisráðsins nr. 242 frá 1967 og nr. 338 frá 1973 eru sá grundvöllur er skapað getur varanlegan frið og öryggi í Austurlöndum nær.

Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis. Einnig ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna.

Alþingi telur að Ísland eigi að hafa vinsamleg samskipti við Frelsissamtök Palestínu, PLO.``

Ég held, herra forseti, að þessi samþykkt tali fyrir sig sjálf og það hversu framsækin hún var á sínum tíma. Mér er t.d. ekki kunnugt um að neitt annað þjóðþing á Vesturlöndum hafi, þegar þarna var komið sögu, jafnafdráttarlaust viðurkennt stöðu Frelsissamtaka Palestínu.

Þá er staðan þannig, herra forseti, að stefna Íslands er, því að sjálfsögðu er ríkisstjórn bundin af gildandi ályktun Alþingis, að viðurkenna eigi rétt beggja aðila í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna frá 1947, þ.e. þeirra sem tilvist Ísraelsríkis er byggð á, þar með talið væntanlega þau landamæri sem þá voru dregin upp.

Í öðru lagi rétt Palestínumanna til sjálfsákvörðunar, þar með talið að stofna sjálfstætt ríki.

Í þriðja lagi rétt sambærilegan tilverurétt Ísraelsríkis.

Í fjórða lagi að Ísraelsmenn skili hernumdu landi.

Í fimmta lagi grundvallarrétt flóttamanna til að snúa aftur.

Í sjötta lagi, ef við samþykktum tillögu af því tagi sem hér er rædd og flutt af þingflokki Samfylkingarinnar, að Ísland tæki afdráttarlausa afstöðu með því að alþjóðlegt gæslulið kæmi á svæðið.

Herra forseti. Þetta mætti að mínu mati setja saman í nýjan texta eða eftir atvikum vísa í eldri samþykkt og tækist um það pólitísk samstaða á Alþingi væri það sannarlega gleðilegt. Lykillinn að lausn deilumálanna eru auðvitað Bandaríkin. Þau eru það af mörgum ástæðum. Bandaríkin eru ekki einasta eina heimsveldið um þessar mundir heldur gera Bandaríkin Ísrael út. Ísraelsríki fær ekki staðist deginum lengur ef Bandaríkjamenn hætta að halda því uppi með gríðarlegum fjárframlögum og hernaðarlegum stuðningi. Hvernig sem á málið er litið verður að gera þá kröfu til Bandaríkja Norður-Ameríku að þau beiti sér til lausnar þessari deilu. Það er kaldhæðnislegt að að einhverju leyti eru þær vonir sem nú eru uppi um frið og vopnahlé bundnar við þau áform Bandaríkjamanna að ráðast inn í Írak og tilraunir þeirra til að afla sér nauðsynlegs stuðnings í arabaheiminum við þau áform. En vonandi, herra forseti, tekst að halda þessu aðgreindu og einhverjir möguleikar eru til staðar til að koma á vopnahléi og friði því að jafnvel þó að vopnahlé og skárra ástand að því leyti til á svæðinu mundi ekki fela í sér sjálfkrafa og jafnvel alls ekki mikla möguleika á pólitískri lausn deilunnar, þá bjargar það þó þeim mannslífum sem eru að tapast á hverjum einasta sólarhring á umræddu svæði.

Ég, herra forseti, og við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði styðjum það þess vegna heils hugar að utanrmn. Alþingis taki það til skoðunar að reynt verði að ná saman aftur um ályktun Alþingis sem vonandi allir flokkar og allir þingmenn geta staðið á bak við. 1998--1999 gerðist það þannig að þrír þingmenn úr þremur þingflokkum fluttu tillögu að ályktun sem utanrmn. tók til umfjöllunar og lagði síðan fram sameiginlega nýjan texta sem góð samstaða tókst um. Þetta voru þingmennirnir Hjörleifur Guttormsson úr Alþb., Kristín Einarsdóttir úr Kvennalistanum og Páll Pétursson úr Framsfl., núv. félmrh., sem einn þeirra þremenninga situr eftir á Alþingi. Í framhaldinu tókst þverpólitísk samstaða í utanrmn. um afgreiðslu merkrar ályktunar og það væri sannarlega ánægjulegt ef við næðum áður en þing lýkur störfum og helst bara á allra næstu dögum samanber það hversu brennandi ástandið er að sameinast um áherslur í þessum efnum. Það má ætla af ræðum manna og yfirlýsingum jafnt hæstv. utanrrh. sem annarra í umræðunni á undanförnum dögum að nokkuð breið og góð pólitísk samstaða sé efnislega um málin hér á þingi og þá eigum við að sjálfsögðu að nýta okkur það til þess að Alþingi láti eitthvað frá sér fara í málinu.