Sjálfstæði Palestínu

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 12:03:54 (6516)

2002-03-22 12:03:54# 127. lþ. 103.2 fundur 336. mál: #A sjálfstæði Palestínu# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[12:03]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ekki verður fundin varanleg lausn sem stöðvað getur átökin, manndrápin og hörmungarnar sem geisað hafa milli Ísraela og Palestínumanna fyrr en palestínsku þjóðinni verða búnir þeir kostir að geta lifað sem frjáls þjóð í eigin landi. Ástandið sem verið hefur undanfarna daga og vikur er óþolandi með öllu og hörmungar almennra borgara, barna sem fullorðinna, með þeim ósköpum að enginn veit hver verður á líkbörum að morgni.

Alþjóðasamfélagið verður að leggjast á eitt með því að þvinga fram vopnahlé og stöðva ofbeldið, hryðjuverkin og brot á mannréttindum. Sendimaður Bandaríkjanna virðist hafa náð fram vopnahléi með viðræðum við Ísraelsmenn og vonandi hefur sá þrýstingur varanleg áhrif á friðarferlið. Ferðabanni Ísraela gegn Arafat þarf að aflétta sem lið í friðarferlinu sem fyrst.

Íslendingar geta beitt sér í málinu og eiga að leita stuðnings við það hjá norrænum þjóðum að á alþjóðavettvangi verði þrýst á Ísraelsmenn til þess að þeir dragi herlið sitt heim frá hernumdum svæðum í Palestínu. Taka ber málið upp á vettvangi Sameinuðu þjóðanna með stuðningi annarra Norðurlandaþjóða. Þó að við séum lítil þjóð þá hafa ákvarðanir okkar og stuðningur einnig áhrif á alþjóðavettvangi eins og dæmin sanna. Má þar nefna áhrif okkar á hafréttarmál á sínum tíma og viðurkenningu okkar á sjálfstæði Eystrasaltsþjóða. Við getum lagt okkar af mörkum í þá veru að stuðla að friði milli Ísraelsmanna og Palestínumanna.

Með Óslóarviðræðunum var samið um að af stað skyldi fara ákveðið ferli og að því að Palestínumenn gætu þróað með sér samfélag sem frjáls þjóð sem gæti smám saman veitt þegnum sínum þjónustu sem bráðnauðsynleg er, t.d. heilbrigðisþjónustu og aukna menntun. Allt þjónustukerfið er nú meira og minna í molum. Friður fyrir botni Miðjarðarhafs getur ekki komist á nema því aðeins að Palestínumenn fái að byggja upp sitt samfélag. Til þess kemur ekki með öðrum aðferðum en að koma sem fyrst á friði.

Til þess kann að þurfa alþjóðlegt gæslulið en eitt er víst að blóðbaðið verður að stöðva varanlega. Geti þessi tillaga orðið lóð á þá vogarskál er betur af stað farið en heima setið og um þáltill. ættu því allir þingmenn að geta orðið sammála.