Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 11:30:14 (6687)

2002-03-26 11:30:14# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[11:30]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir ræðuna. Hún er byggð upp með svipuðum hætti og undanfarin tvö ár eða svo. Hún byggir á ákveðnu meginþema, meginviðfangsefni. Það tel ég vera ágætt. Að þessu sinni er það hugtakið ,,sjálfbær þróun`` sem hæstv. ráðherra leggur út af. Eitt og sér gæfi það í sjálfu sér tilefni til áhugaverðra skoðanaskipta. Mér finnst virðingarvert að taka þetta hugtak fyrir og ég þakka fyrir það.

Hitt hlýt ég að segja, herra forseti, að auðvitað vildi maður gjarnan sjá þess stað í ríkari mæli í löggjöf okkar og framkvæmd að þetta hugtak hefði fest sig í sessi. Ég nefni í framhjáhlaupi þrjú svið þar sem mér finnst að hugsunin um sjálfbæra þróun og grunnreglurnar mætti koma miklu sterkar fram. Þar á ég við sjávarútveginn, þróunina þar. Því miður hefur sáralítið verið tekið á málum út frá þessu sjónarmiði í sjávarútvegsstefnunni og sumpart þróast hlutirnir þar í algjörlega öfuga átt. Við erum að stórauka orkunotkun í flotanum en ekki að draga úr henni. Við ívilnum ekki á nokkurn hátt vistvænum veiðum eða veiðarfærum eins og Ríó-sáttmálinn gerir ráð fyrir og útgerðarhættirnir eru sumpart að þróast þannig að ekki er hægt að halda því fram að það sé æskilegt út frá umhverfissjónarmiði. Ég nefni sem dæmi stóraukinn flutning vinnslunnar á haf út þar sem tekið er til við að frysta afurðir með innfluttu jarðefnaeldsneyti, framleiða orku um borð í skipunum með innfluttu jarðefnaeldsneyti í staðinn fyrir að nýta orkuna á landi.

Í öðru lagi vil ég nefna stóriðju- og virkjanamál. Þar fyndist manni að stjórnvöld mættu vera uppteknari af því dag frá degi að móta löggjöf okkar og framkvæmd út frá sjónarhóli sjálfbærrar þróunar.

Ég nefni í þriðja lagi þá þróun sem er í gangi í flutningum og flutningakerfi í landinu þar sem flutningar hafa færst af sjó upp á vegina og eru að mestu leyti komnir þangað með tilheyrandi margföldun á orkunotkun. Þessi margfalda orkunotkun er staðreynd og mengun meiri. Ekki eru þessir þættir að þróast þannig í samfélagi okkar að hægt sé að segja að það sé jákvætt.

Í öðru lagi finnst mér á köflum gæta þeirrar tilhneigingar hjá hæstv. utanrrh. að endurskilgreina svolítið hugtök. Ég hef ekki áður séð það sett á prent að með sjálfbærri þróun séum við að leita leiða til að hámarka efnahagslega og félagslega velferð. Það er nýtt fyrir mér ef það er orðið eitt af meginmarkmiðum sjálfbærrar þróunar að hámarka efnahagslega velferð, hvernig sem við nú skilgreinum hana. Þvert á móti gengur það eins og rauður þráður í gegnum t.d. upphaflegu Brundtland-skýrsluna og fleiri slíka pappíra að setja verði neysluhyggjunni og græðginni, hinum taumlausa vexti t.d. auðlindanýtingar á Vesturlöndum, einhverjar skorður, eigi að takast að ná tökum á þessum hlutum og jafna lífskjörin. Öðruvísi gengur þetta auðvitað aldrei upp. En nóg um það, herra forseti.

Í kaflanum um alþjóðasamskipti í ræðu ráðherra er sömuleiðis lagt út af sjálfbærri þróun. Þar finnst mér skorta á að glímt væri við spurninguna um það sem ég áðan nefndi, jöfnun lífskjara, skuldir þróunarríkjanna og neikvæða þætti svonefndrar hnattvæðingar. Ég veit ekki hvort hæstv. utanrrh. hefur horft á sjónvarpsþátt, sem menn geta vissulega deilt um hversu sanngjarn var, þar sem farið var ansi hörðum orðum um sumt sem gerist og flokkað er undir hatt þess sem kallað er hnattvæðing. Þar var fjallað um framgöngu heimsstórfyrirtækjanna, t.d. sums staðar í þriðja heiminum þar sem gert er út á barnaþrælkun og ódýrt vinnuafl, boðið upp á algjörlega óviðunandi starfsskilyrði og varan framleidd fyrir brotabrot af því verði sem hún er síðan seld á þegar hún kemur til Vesturlanda. Mörg af þekktustu stórfyrirtækjum í fatagerð, framleiðslu íþróttavöru og slíkra hluta ástunda þessa iðju í stórum stíl. Það er vitað að þau gera út á þrælabúðir barna eða fátæklinga í þriðjaheimslöndum og raka saman óhemjugróða í gegnum að margfalda verð vörunnar og líma á hana þekkt merki þegar hún er komin til Vesturlanda. Það eru miklar skuggahliðar á þessum málum, herra forseti, sem þarf að takast á við.

Þá að Evrópumálunum. Í skýrslunni er kafli um þau en að öðru leyti var hæstv. ráðherra fáorður um þá hluti og er það nokkur tilbreyting. Oft hefur mikill tími farið í það hjá hæstv. utanrrh. að ræða þá hluti. Í skýrslunni er að mínu mati fjallað mjög eðlilega um praktísk viðfangsefni og úrlausnarefni í þessum samskiptum þegar kemur að Evrópumálum nákvæmlega eins og ég tel að eigi að gera. Ég tel að hvorki eigi að dramatísera það um of eða að umræðan eigi að vera táradalur þar sem allt sé svo erfitt og illviðráðanlegt. Mér hefur stundum fundist hæstv. utanrrh. allt of beygður, þegar hann kemur heim úr Evrópuleiðöngrum sínum nánast gráti nær yfir hve þetta sé allt saman óskaplega erfitt og snúið, svo maður minnist nú ekki á formann Samfylkingarinnar sem á stundum enn erfiðari daga yfir því hvað þetta er allt saman dapurt.

Í skýrslunni finnst mér betur fjallað um þetta, þ.e. án þess beinlínis að draga upp óskaplega dökka mynd. Þetta eru ósköp einfaldlega pólitísk og praktísk úrlausnarefni í alþjóðasamskiptum sem alltaf eru uppi. Hvenær verður það, herra forseti, ekki viðfangsefnið sem takast þarf á við lengur? Þar þarf ekki Evrópusamband eða EES-samning til. Allt alþjóðasamstarf er þannig að það er stöðugt viðfangsefni að leysa þar mál sem upp koma og takast þarf á við. Það er í raun ekkert meira eða merkilegra um það að segja.

Formaður Samfylkingarinnar gerði grein fyrir viðhorfum sínum og hefur verið að feta sig að lokatakmarkinu, að gefa sig út sem afdráttarlausan stuðningsmann þess að við göngum í Evrópusambandið. Og það er gott. Mikið óskaplega er ég feginn fyrir hönd hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar yfir að það sé að komast botn í þetta hjá honum, ég verð að segja það. Hann á að vísu eftir að láta kjósa um þetta í eigin flokki og það er kannski eitthvað eftir í þeim efnum. En mikið hlýtur manninum að líða betur, að vera kominn að niðurstöðu. Bíddu við, en er það ekki hið sama og ýmsir aðrir hafa gert? Hvað er svona merkilegt við það? Til hvers erum við í stjórnmálum? Er það ekki til þess að hafa skoðun, komast að niðurstöðu og hafa stefnu? Það eina sem mér líkar ekki í málflutningi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar er þegar hann reynir að gera það að óskaplega merkilegu máli, einhverju nýju undir sólinni, að Samfylkingin sé með það í vinnslu að komast að niðurstöðu í Evrópumálum. Þó fyrr hefði verið, segi ég nú bara. Það þýðir ekki, herra forseti, að við sem höfum þegar tekið afstöðu og höfum stefnu þurfum að taka þátt í sálarangist formanns Samfylkingarinnar og flokksystkina hans. Við erum búin að því sem Samfylkingin á eftir og þar með er það klárt, er það ekki?

Ég verð að segja eins og er, að mér finnst ótrúlegt að bera það á borð í stjórnmálaumræðu að flokkar sem hafa stefnu í máli séu ekki gjaldgengir í umræðu um þau, þeir einu sem megi ræða um Evrópumál séu þeir sem ekki hafa komist að niðurstöðu. Þetta er auðvitað mjög merkilegt, herra forseti.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lagði mikla vinnu í það á stofnunarskeiði sínu, á haustmánuðum 1998 og fram eftir ári 1999, m.a. að móta áherslur sínar í utanríkismálum. Tvo málaflokka tókum við sérstaklega fyrir og lögðum mikla vinnu í, utanríkismál og sjávarútvegsmál. Við vissum að báðir málaflokkar væru brýnir og brennandi. Í stefnuyfirlýsingu okkar og okkar málefnahandbók er ítarlegur kafli um Evrópumál. Í framhaldinu höfum við flutt tillögu á þingi með ítarlegri greinargerð um stefnumótun í alþjóðasamskiptum, þar sem er ítarleg greinargerð upp á margar blaðsíður þar sem farið er yfir rök með og á móti aðild að Evrópusambandinu. Okkar niðurstaða var skýr og er það enn í dag: Það er ekki fýsilegt fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. Þýðir það að við viljum ekki ræða málin þó við höfum stefnu í þeim? Nei, auðvitað ekki. Ég held að hv. þm. Össur Skarphéðinsson styrktist í þessum málflutningi ef hann sleppti þessari einu klisjukenndu setningu úr ræðum sínum, að það sé eitthvað nýtt undir sólinni og stórmerkilegt að Samfylkingin sé að vinna í þessum málum. (ÖS: Við höfum aldrei haldið því fram.) Það hafa allir flokkar gert. Það kom fram síðast í ræðu hv. þm. hér áðan að Samfylkingin ein flokka hefði sett þessi máli í ákvarðanatökufarveg. Ha? Bíddu, erum við ekki búin að þessu? Ég held að hv. þm. Össur Skarphéðinsson ætti þá frekar að segja í hálfgerðum afsökunartón: Við eigum svolitla vinnu eftir. Við mundum öll hafa samúð með því og skilning á því að þeir væru ekki enn búnir að koma þessu í verk en þetta væri nú allt í góðum gangi. Svipað mætti segja um þetta hjá Framsfl. en ég læt þetta duga, pars pro toto, sem ég hef sagt um Samfylkinguna.

Um Evrópumálin að öðru leyti, herra forseti, vil ég segja þetta: Ég sé engin sérstök vandamál í stöðu Íslands eins og hún er í dag. Okkur hefur vegnað prýðilega þessi rúm 50 ár sem við höfum verið sjálfstætt lýðveldi og haft fullt forræði, fullan sjálfsákvörðunarrétt og fullan samningsrétt í málum okkar. Sagan er öll til marks um hve dýrmætur sjálfsákvörðunarréttur og samningsréttur hefur verið okkur. Á grundvelli hans færðum við út landhelgina. Á grundvelli hans höfum við samið um lausn deilumála við aðrar þjóðir og gætt hagsmuna okkar, ekki síst á sviði sjávarútvegs. Menn kunna lítið í Íslandssögu síðustu áratuga ef þeir átta sig ekki á því að kannski er stærsta einstaka skýringin á því velmegunarsamfélagi sem við höfum náð að byggja upp þeir áfangar sem við höfum tekið í að stýra sjálf nýtingu auðlinda okkar og virkja í okkar þágu. Ég á þá auðvitað og ekki síst við sjávarútveginn.

Það er rangt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að þessi sjálfsákvörðunarréttur og samningsréttur hafi ekki gildi fyrir sjávarútveginn í dag og til framtíðar litið.

Það er rangt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að Ísland eigi ekki marga sameiginlega fiskstofna með nágrannaríkjunum. Þeir eru þvert á móti flestallir sameiginlegir, þeir sem mikilvægastir eru, nema þá kannski þorskurinn, ef við komust þá upp með það að skilgreina hann sem hreinan séríslenskan stofn. Hann gengur stundum til Grænlands og kemur aftur. Hann fer út úr íslensku lögsögunni. Loðnan, er hún ekki sameiginleg með þremur ríkjum og gengur að auki út í síldarsmuguna? Norsk-íslenski síldarstofninn, deilistofn; kolmunninn, deilistofn; rækjan á Dohrn-banka, deilistofn; grálúðan milli Íslands og Grænlands, deilistofn. Karfinn á Reykjaneshrygg, deilistofn; karfinn milli Íslands og Grænlands, deilistofn; stofnar milli íslensku og færeysku lögsögunnar, deilistofnar og svo koma miklir flökkustofnar og farstofnar.

Þetta er þvert á móti öfugt. Meiri hluti stofna á Íslandsmiðum flokkast sem deilistofnar eða farstofnar. Það mun reynast okkur mjög erfitt að fá það viðurkennt að við séum með ,,séríslenska`` stofna þarna sem öðrum þjóðum komi ekki við hvernig samið verður um ef við gerðumst aðilar að sameiginlegri fiskveiðistefnu.

Hvernig gekk þetta hjá Möltu sem vildi færa út landhelgina í 25 mílur? Það gekk nú ekki mikið. Þeir mega ráða möskvastærðinni. Þeir mega beita tilteknum friðunaraðgerðum. En þeir fengu afdráttarlausa synjun um að vera undanþegnir sameiginlegu fiskveiðistefnunni út að 25 mílum. Það liggur fyrir.

Hvernig gekk hjá Norðmönnum? Þeir fengu þriggja ára aðlögunartíma fyrir svæðin norðan við 62. gráðu. Auðvitað felldi norska þjóðin þann samning. Er það stutt dómi reynslunnar að það sé líklegt að við fengjum forræði, varanlegar undanþágur eða sértæka beitingu sjávarútvegsstefnunnar milli 12 og 200 mílna? Svarið er nei. Hver einasti kommissar Evrópusambandsins sem spurður hefur verið að þessu hefur sagt nei. Reynsla Norðmanna segir nei. Reynsla Möltu segir nei.

Við höfum engin sérstök efnisleg rök við að styðja þær hugmyndir að við kæmumst upp með annað en að undirgangast sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna og hún er hættuleg. Þó svo að hingað sigldu ekki flotar strax frá fyrsta degi er ljóst að kröfur gætu komið upp í tengslum við lausn óskyldra deilumála og þær lausnir kostuðu að við gæfum eftir veiðirétt. Við missum sjálfstæðan samningsrétt. Við missum sjálfsákvörðunarrétt. Ákvarðanir um heildarveiðikvóta færast til Brussel. Því mælir enginn maður á móti. Þó okkur tækist hugsanlega að fá eitthvað meira sjálfstæði gagnvart nýtingu þess sem fengist viðurkennt sem séríslenskir stofnar er augljóslega borin von að við fengjum það gagnvart deilistofnum og flökkustofnum.

Hvernig ættu Evrópusambandsþjóðirnar, sem sjálfar eiga hagsmuna að gæta í nýtingu margra þeirra stofna, loðnunnar, norsk-íslenska síldarstofnsins, kolmunnans, rækjunnar og fleiri tegunda, að fallast á slíkt? Ég held að það sé borin von.

Ég ætla svo í síðari ræðu minni, herra forseti, að koma aðeins inn á evruna og spurningar sem að henni lúta, ekki síst þann furðulega málflutning, sem hér var uppi áðan, að það sé algerlega útlátalaust og án nokkurra fórna að henda sjálfstæðum gjaldmiðli, vaxtaákvörðunum og peningastjórnunartækjum og taka upp evru, það sé bara ókeypis ferðalag á fyrsta farrými. Það er ekki svo, herra forseti. Ætli þurfi ekki að hafa áhyggjur, m.a. af atvinnuöryggi, stöðugleika á vinnumarkaði og afkomu útflutningsgreina þegar sveiflur ganga yfir í hagkerfinu ef öll þessi stjórntæki væru farin úr landi og við sættum vaxtaákvörðunum og gengisskráningu hagkerfa sem lúta gjörólíkum lögmálum?