Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 12:46:38 (6701)

2002-03-26 12:46:38# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[12:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir af okkar hálfu að við stöndum við þann fyrirvara sem við höfum gert. Hins vegar er ljóst að ákveðið starf er í gangi innan Alþjóðahvalveiðiráðsins um endurmat stofna og vísindalega ráðgjöf og við munum jafnframt taka þátt í því starfi til framtíðar.

Ég endurtek það hér að engin ákvörðun hefur verið tekin um veiðar og við göngum ekki í Alþjóðahvalveiðiráðið fyrst og fremst í þeim tilgangi að hefja veiðar heldur að taka á nýjan leik þátt í starfi ráðsins og þeirri starfsemi sem þar á sér stað þrátt fyrir að við höfum af því mjög slæma reynslu. Við erum hins vegar að gera okkur vonir um að þetta muni breytast. Við væntum þess að þær breytingar geti leitt til þess að við getum starfað þar með eðlilegum hætti og eðlileg og skynsamleg nýting hvalastofna hér við land geti hafist í bærilegum friði við þjóðir heims. Það er okkur nauðsynlegt að þeir stofnar verði nýttir með sjálfbærum hætti og það er okkur jafnframt þýðingarmikið að standa að þeirri nýtingu í þokkalegu samstarfi við aðrar þjóðir sem eiga aðild að samtökunum.