Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 13:54:41 (6706)

2002-03-26 13:54:41# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[13:54]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessar upplýsingar. Það er hins vegar rangt sem hann heldur fram að öll ríki heims leggist á sveifina með Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í þessu efni, síður en svo. Mikil átök eru um það á hvaða forsendum hinn ríki hluti heimsins eigi að koma til móts við hinn snauðari.

Staðreyndin er sú að fjárstreymið frá hinum fátæku til hinna ríku hefur ekki breyst á undangengnum áratugum. Meira fjárstreymi er frá hinum snauðu til hinna ríku en öfugt þrátt fyrir prógrömm af þessu tagi.

Mér finnst gott að fá þessar upplýsingar en það sem ég vildi fá nánari skýringu á frá hæstv. ráðherra er hvaða skilyrði eru sett fyrir þeim lánveitingum. Er það gert að skilyrði að þau einkavæði almannaþjónustuna eins og verið hefur á liðnum árum og hefur valdið því að þau hafa verið mjög treg til þess að ganga inn í slíkt prógramm?

Ferlið hefur verið það að fátækar þjóðir hafa tekið lán í bönkum á Vesturlöndum. Þær hafa ekki risið undir slíkum skuldbindingum. Þá hafa Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn komið inn og reynt að aðstoða þær við að taka til í sínu húsi eins og það er kallað. Skilyrðin sem þessar stofnanir hafa sett eru síðan að grundvallarbreytingar séu gerðar á grunnþjónustunni, þar á meðal að almannaþjónustan og stoðþjónustan í þjóðfélögunum sé sett á markað.

Hverjir eru það sem taka við þeim eignum? Það eru bankarnir, það eru lánveitendurnir. Þeir hafa þá aðstöðu til að fá þær eignir í sínar hendur. Þannig hafa þær hafnað hjá nokkrum fjölþjóðlegum risum sem ráða yfir vatninu, orkugeiranum, samgöngunum og þar fram eftir götunum.