Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 15:37:05 (6724)

2002-03-26 15:37:05# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson talar yfirleitt manna skýrast í þessum sölum. Ég á yfirleitt aldrei erfitt með að átta mig á því hvað hv. þm. er að fara þegar hann talar hér um hin ýmsu málefni, nema þegar kemur að Evrópu. Þá finnst mér eins og hv. þm. líði eins og fanga í gildum fjötri og geti sig hvergi hrært. Þegar hann talar um Evrópumálin, herra forseti, á ég mjög erfitt með að skilja hvað hann er að fara.

Ég lít t.d. alltaf á hv. þm. Vilhjálm Egilsson sem eitt af hinum leiðandi ljósum hagfræðilegrar hugsunar í þessum sölum. Ég verð hins vegar að segja, herra forseti, að þegar hv. þm. reynir að bregða einhverjum hagfræðilegum fjöðrum á loft til að blaka burtu þeim hugsunum um Evrópusambandið sem greinilega eru mjög áleitnar í huga hans þá hætti ég að skilja. Ég hætti að skilja, herra forseti, þegar hann reynir að halda því fram að það sé eitthvert sérstakt misræmi í sveiflum í hagkerfi Svíþjóðar og Bretlands sem geri það að verkum að þjóðirnar hafi ákveðið að utan hins sameiginlega gjaldmiðils. Því ráða aðrir hlutir. Það vill svo til, herra forseti, að nákvæmlega sem við tölum þessi orð blasir við að sennilega er skammt til þess að þessar þjóðir taki ákvörðun um að gerast aðilar að hinu sameiginlega myntbandalagi.

Hv. þm. sagði að jafnvel þó að við tækjum upp evruna, þá væri enn um töluverða gengisáhættu að ræða, ekki nema 40% af útflutningi okkar væri til evrusvæðanna. Hann sagði í fyrri ræðu sinni að skjótt gætu veður skipast í lofti. Við sjáum hvað er að gerast í Bretlandi. Við sjáum hvað er að gerast í Svíþjóð þar sem Persson fer með himinskautum í könnunum, er með 45% fylgi meðal þjóðarinnar, og talar í vaxandi mæli opið um að taka evruna upp.

Herra forseti. Ef það gerðist og Danir fylgdu eftir þá værum við komin með 65% af okkar útflutningi á evrusvæðinu. Þess vegna segi ég: Þurfum við ekki að búa okkur undir að þetta geti gerst? Verðum við ekki að vinna heimavinnuna okkar með þeim hætti að við gætum sótt um aðild að Evrópusambandinu með tiltölulega skömmum fyrirvara ef veður skipuðust með þeim hætti sem mátti lesa út úr máli hv. þm. í hinni fyrri ræðu? Þurfum við ekki að vinna heimavinnuna betur en við höfum gert?