Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 17:05:06 (6748)

2002-03-26 17:05:06# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[17:05]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það. Ég forgangsraða atvinnuþátttökunni framarlega og vil að allir þegnar þessa lands hafi sín tækifæri og möguleika á að lifa með reisn og vera gildir þegnar í samfélaginu. Ég forgangsraða því mjög framarlega.

Um þjóðaratkvæði vil ég segja að þegar EES-samningurinn var gerður og lögfestur á Alþingi þá var það skoðað mjög vel og fengin lögfræðileg álit um að hann bryti ekki í bága við stjórnarskrá, hann gæfi ekki tilefni til þjóðaratkvæðagreiðslu. Strax í þeirri umræðu var sagt að ef aðild að Evrópusambandinu yrði skoðuð þá væri óumdeilt að um það mundi fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Hvort við mundum hugsanlega í dag, eftir þá umræðu sem hefur orðið almennt um framsal og fullveldi, samt hafa viðhaft þjóðaratkvæðagreiðslu, veit ég ekki.

En það er óumdeilt að verði það ofan á hjá einhverri ríkisstjórn á komandi árum að skoða aðildina að Evrópusambandinu þá verður það borið undir þjóðaratkvæði. Ég ber mjög mikla virðingu fyrir því og ég treysti þjóðinni. Ég treysti þjóðinni og vil lúta niðurstöðu hennar, á hvorn veg sem yrði. Þannig eigum við að fara að í lýðræðisríki. Það er það sem er svo mikilvægt. Þess vegna er mér algjörlega fyrirmunað að skilja af hverju menn eru svona ofboðslega hræddir við umræðuna, af hverju menn ríghalda í einhver fá atriði og berja þau fram í hvert einasta skipti sem einhver umræða verður í þessum sal, af hverju menn reyna ekki saman að leita svara við þessum áleitnu spurningum og fáist niðurstaða, þá skoði þeir stöðuna.