Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 16:00:33 (7461)

2002-04-10 16:00:33# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[16:00]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Svarið við þessu er auðvitað nei. Það verður ekki helmingi dýrara. En það fellur á þetta verk ákveðinn upphafskostnaður sem ekki er hægt að meta til fulls á þessu stigi vegna þess að ógerningur er að átta sig á því hversu mikill biðlaunakostnaður gæti orðið til. Það fer eftir viðbrögðum starfsfólks og því hversu margir þeirra hætta störfum og nýta sér slíkan rétt sem ég vænti að hv. þm. vilji ekki frá þeim taka.

Hitt er síðan ekki að fullu upp gert hvernig þeim kostnaði sem fylgt hefur Þjóðhagsstofnun til þessa verður endanlega skipt milli þeirra aðila sem hérna eiga hlut að máli. Talið er núna að þessu verði skipt í þeim hlutföllum sem þingmaðurinn nefndi. Það má vera að hægt verði að hnika því eitthvað til, t.d. ef upp kemur að einstök ráðuneyti vilji styrkja sig á þessu sviði, þá getur vel verið að hægt væri að gera það innan þess ramma sem þarna er um að ræða. Þetta eru útfærslumál sem ekki er búið að ganga frá. En aðalatriðið er að við teljum að til lengdar verði þarna bæði sparnaður, hagræðing og betri nýting á því vinnuafli sem um er að tefla, þessu góða og hæfa starfsfólki sem við þetta vinnur og sömuleiðis að verkaskiptingin eins og hún verður, bætt verkaskipting muni í sjálfu sér þýða hagræðingu og betri útkomu, betri nýtingu fjármuna og starfsfólks en nú hefur verið og það á kannski ekki síst við á Hagstofunni þar sem skyldir hlutir falla saman, hagskýrslugerðin verði komin á eina hendi og auðséð að með því móti megi hagræða og innan þess ramma e.t.v. taka að sér að gera nýja hluti.