Þjóðhagsstofnun o.fl.

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 16:07:10 (7465)

2002-04-10 16:07:10# 127. lþ. 117.5 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[16:07]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég held ekki að svo sé. Ég held að vönduðustu vinnubrögðin séu þau að afgreiða frv. og ljúka málinu og gera það núna á þessu vorþingi.

Aðeins út af því sem þingmaðurinn sagði í upphafi um afstöðu mína til málsins, þá get ég kannski sagt honum það undir fjögur augu að ég hef löngum og mjög lengi reyndar verið þeirrar skoðunar að gera þyrfti breytingar á þeirri verkaskiptingu sem er milli þeirra stofnana sem um þessi mál hafa vélað. Ég hef mjög lengi haft þá skoðun t.d. að þjóðhagsreikningar væru betur komnir á Hagstofunni en á Þjóðhagsstofnun og ýmsar skýrslur sem þeim tengjast. Og stærstur hluti starfsliðsins á Þjóðhagsstofnun vinnur nú við slíka hluti.

En síðan hefur það einnig gerst undanfarin ár að upp eru komnir í þjóðfélaginu allir þeir aðilar sem geta unnið að þessum málum sjálfstætt. Það er ekki lengur sama þörfin fyrir þetta og svo er það sem ég gat um núna áðan að þeir eru sem betur fer liðin tíð, þeir efnahagspakkar og allt það sem þeim fylgdi, sem fylgdu stjórnarfarinu og efnahagsóreiðunni á árum áður þegar Þjóðhagsstofnun var upp á sitt besta og menn gátu ekki einu sinni myndað ríkisstjórnir í friði án þess að vera búnir að fá þriggja vikna úttekt frá Þjóðhagsstofnun fyrst um ástand mála. Þetta verkefni er horfið. Ég held að við ættum öll að fagna því að það er ekki lengur þannig umhorfs hér í efnahagsmálum að sérstök stofnun sé nauðsynleg til þess að moka þennan flór reglulega og annast þá stjórnmálamenn sem að því máli hafa komið. Það er sem betur fer liðin tíð. Efnahagsstjórnin í dag byggist á stjórn peningamála og ríkisfjármála, annars vegar Seðlabankanum og hins vegar fjmrn. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, en hlutverk Þjóðhagsstofnunar er orðið allt annað en var þegar hún var upp á sitt besta í þessum efnum.