Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 21:02:00 (7485)

2002-04-10 21:02:00# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[21:02]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um Umhverfisstofnun. Frv. er á þskj. 1170 og er 711. mál. Ég nefni hér hversu þingskjalsnúmerið er hátt vegna þess að það segir til um hversu seint þetta mál er lagt fram á þinginu, enda var því dreift hér í kvöld sem leið.

Ég vil taka undir þær raddir sem hér hafa komið fram um að þessi vinnubrögð eru aldeilis forkastanleg. Hér er mjög umdeilt mál á ferðinni og óundirbúið. Það hefur ekki verið umræða í gangi, hvorki í þjóðfélaginu né á þessum stofnunum, um breytingar í þessa átt. Þetta kemur því næstum eins og köld gusa framan í fólk. Að vísu er þessi kalda gusa tímasett þannig að ég held að fæstum þingmönnum hafi dottið í hug að úr því sem komið var og liðið á þingið að þetta frv. mundi nokkurn tíma líta dagsins ljós. En hæstv. umhvrh. var búinn að láta þau orð falla að til stæði að koma á Umhverfisstofnun og punktur, búið með það.

Nú á að eyða, eins og í öðru máli, óvissu hjá starfsmönnum. Það er hægt að eyða þeirri óvissu með því að slá þetta mál af eða gefa því lengri frest. Óvissan stafar af því að þau orð eru látin falla að það eigi að koma á Umhverfisstofnun, en það er ekki talað við starfsmennina. Þeir eru ekki hafðir með í ráðum. Þessar stofnanir sem hér um ræðir, þ.e. Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, embætti veiðistjóra og hreindýraráð sem fjallar um dýravernd, hafa ekki verið með í undirbúningi þessa frv. Fólk veit því ekkert á hverju það á von, nema einhverri Umhverfisstofnun. Í því felst óvissan.

Mér finnst að í svona stóru máli séu nú góð vinnubrögð og öllum til sóma, og hæstv. umhvrh. hefði fengið góða einkunn fyrir að viðhafa slíkt, að hafa starfsmenn og forstjóra þessarar stofnunar með í ráðum og undirbúningi að þessu starfi. En ég veit að það hafa alla vega ekki allir fengið.

Látið er að því liggja og kemur það fram í frv. að tilgangur þess sé að styrkja stofnunina, styrkja markmið á borði hæstv. umhvrh. En þá vil ég spyrja: Hvers vegna í ósköpunum hafa þessar stofnanir verið fjársveltar hver og ein um lengri tíma? Það er alveg ljóst að bæði Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofurnar hafa verið í miklu fjársvelti. Ef tilgangur frv. er að styrkja þessar stofnanir og ná fram einni sterkri umhverfisstofnun, hvers vegna í ósköpunum eigum við að trúa því að ein umhverfisstofnun fái hærra fjárframlag úr ríkissjóði eða verði betur studd með ríkisframlögum og héðan af þingi en hver og ein þessara stofnana fær í stuðning í dag?

Hvað varðar áframhaldandi vinnu vil ég segja að úr því að frv. er komið hér inn á borð og er til umræðu þá tel ég algjört lágmark að það verði núna sent út til umsagnar og sumarið notað til þess að vinna þessum hugmyndum brautargengi. Þörf er á ítarlegum umsögnum og tíma fyrir þingmenn til að skoða hvað þetta getur þýtt fyrir þessar stofnanir og hvort við teljum að þessi leið sé heppileg til þess að styrkja umhverfisvernd í landinu.

Ég tek undir þau sjónarmið að afar óheppilegt sé að gera veiðistjóraembættið að einhvers konar útibúi. Það sama má segja um náttúrustofurnar sem eru í dag útibú frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þær hefði að mínu mati átt að styrkja og efla þær hverja og eina á sínum forsendum og gera þær enn sjálfstæðari í vinnubrögðum sínum en er í dag. Þar væri komið til móts við sjálfstæði og frumkvæði hjá starfsmönnum og þessi stofnun styrkt inni í fjórðungunum með þeim staðbundnu verkefnum sem náttúrustofurnar hafa. Það væri mikil byggðastyrking að efla náttúrustofurnar og gera þær sem sjálfstæðastar. Það á ekki að draga enn frekar úr sjálfstæði þeirra með því að setja þær undir Umhverfisstofnun þangað sem öllu verður steypt.

Herra forseti. Mér finnst ákvæði um ráðningu forstjóra umhugsunarverð bæði hvað varðar lýsingu á menntun og eins því að forstjóri skuli eiga að móta þessa stofnun. Ef svo langt er í land í hugmyndafræðinni við koma á þessari Umhverfisstofnun að forstöðumaðurinn skuli byrja á að vinna að mótun starfsins þá tel ég rétt að vinna málið áfram og hafa þá hugmyndafræðina og rekstur þessarar stofnunar ljósari en virðist vera í dag og vinna málið betur.

Í ákv. til brb. segir, með leyfi forseta:

,,1. Starfsmenn stofnana sem sinnt hafa þeim verkefnum sem munu heyra undir Umhverfisstofnun samkvæmt lögum þessum skulu eiga forgangsrétt til starfa þar á fyrsta starfsári stofnunarinnar.``

Hvað þýðir þetta? Er gert ráð fyrir því að hægt verði að losna við óæskilega starfsmenn? Á þetta að vera einhvers konar hreinsun út úr þeim stofnunum sem nú eru starfandi? Þannig mundi ég líta á það, herra forseti, ef ég starfaði á einhverri þessara stofnana. Ég mundi ekki líta á það sem neitt starfsöryggi að ráða mig til nýrrar Umhverfisstofnunar ef það mætti svo hreinsa út og það væri alfarið forstjórans að ákveða það eftir fyrsta starfsárið. Ég hefði talið að annað hvort yrði það starfsfólk sem nú er starfandi ráðið að nýrri stofnun og þar við sæti. Það mundi sanna sig í nýrri stofnun eins og í núverandi stofnun. Ef fólk er óhæft í starfi þá er því sagt upp. En að hafa þetta eins konar hreinsunartímabil eftir eitt ár finnst mér ekki vera góður tónn til þeirra starfsmanna sem mundu flytja sig þarna á milli.

Ég skil hæstv. umhvrh. vel að því leytinu til að vilja efla og styrkja umhverfisvernd og starf núverandi stofnana í landinu. Ég hefði viljað að sagan hefði borið hæstv. ráðherra betra vitni um störf hennar fram til þessa en því miður verður hægt að segja í þó nokkrum stórum málum, þó að margt gott hafi verið gert og dreg ég ekkert úr því. En stór högg hafa verið reidd sem verða ekki aftur tekin, sem mér hefur ekki fundist vera í anda þess sem við teljum góða umhverfisvernd og umhyggju fyrir náttúrunni. Núverandi stofnanir hafa fyrst og fremst þurft að glíma við peningalegar áhyggjur. Verkefnin eru næg. Ég hefði viljað sjá þá þróun að þessar stofnanir yrðu styrktar hver á sínu sviði þar sem verkefnin falla til, en ekki svona miðlægt eins og hér er lagt til. Alltaf fellur til ákveðinn kostnaður bara við það að hafa svona miðlægar stofnanir þegar verkefnin eru úti um allt land. Einn þeirra þátta sem við þurfum að hugsa varðandi styrkingu byggðar er að skapa störf sem hafa verið kölluð störf fyrir vel menntað fólk. Hver og ein þessara stofnana hefur yfir að ráða slíkum starfskröftum og það er m.a. á þeirri forsendu sem ég tel að við ættum að skoða þetta miklu betur, en afgreiða þetta ekki nú á þessu þingi. Það finnst mér alveg hreint forkastanlegt.