Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 21:15:17 (7486)

2002-04-10 21:15:17# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[21:15]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðurnar sem hafa orðið um þetta mál. Nokkrum spurningum hefur verið beint til mín sem ég ætla að reyna að gera skil í þessari ræðu.

Í fyrsta lagi hafa nokkrir þingmenn komið inn á að þetta mál geti skapað nýja vídd, þ.e. að ég hafi sagt það. Og ég tel að svo sé, ég tel að með því að sameina þessar stofnanir sem hér um ræðir skapist ný vídd í umhverfismálunum, meiri heildarsýn náist á málaflokkinn og ég held að allir sem starfa í þessum málaflokki sjái að tengslin á milli mengunar og náttúruverndar verða æ sýnilegri þannig að það er eðlilegt að menn skoði málin í einni stofnun. Sú stofnun hefði þá meiri heildaryfirsýn á þessi mál og horfði á allt sviðið í einu.

Það er líka alveg ljóst, eins og fram kemur í greinargerð með frv., að með þessum hætti verður stjórnsýslan einfaldari og jafnframt skilvirkari, öflugri og faglegri þannig að mörg mikilvæg og þung rök mæla með því að við stígum þetta skref.

Nokkuð hefur verið rætt um að ráðherra hafi skapað óvissu. Ég tel að sameining stofnana skapi óhjákvæmilega óvissu. En ég held að betra sé að sameina þær tiltölulega hratt en að gera það á afar löngum tíma. Ég tel ekki eðlilegt að starfsfólkið búi lengi við óvissu. Ég hef einmitt rætt þessi mál, m.a. við forstöðumenn viðkomandi stofnana, og heyri þau rök að betra sé að afgreiða svona mál tiltölulega hratt þegar menn fara af stað með þau en að hafa þau yfir sér í langan tíma.

Líka hefur verið rætt um skipuritið sem verður á þessari stofnun, og talað um að það hefði átt að vinna með einhverjum öðrum hætti en gert er ráð fyrir í frv. Í frv. er sagt að núverandi forstjórar ásamt fulltrúa úr umhvrn., ásamt nýjum forstjóra eftir að búið er að ráða hann, eigi að vinna upp nýtt skipurit og ég tel að það sé mjög eðlilegt. Það er auðvitað ljóst að sömu skyldur hvíla á þessari stofnun eins og núverandi stofnunum en skipuritið mun trúlega breytast. Núna er ekki hægt að segja fyrir um hvernig það muni verða. Það er samt mjög mikilvægt að forstjórarnir, sem eru þeir sem hafa bestu yfirsýn yfir það í dag, komi að þessari vinnu með nýjum forstjóra.

Mikið veður hefur verið gert út af því að ráða eigi nýjan forstjóra 1. ágúst. Það hefur verið tortryggt hérna á ýmsa kanta. Fyrst þegar við skoðuðum þetta frv. töldum við best að skipa nýjan forstjóra frá og með 1. okt. en við fengum ábendingu á starfsmannafundi hjá Náttúruvernd ríkisins um að betra væri að skipa forstjóra fyrr þannig að menn fengju fyrr sýn forstjóra inn í þetta mál. Við tókum tillit til þeirrar ábendingar og færðum dagsetninguna fram til 1. ágúst. Við finnum fyrir þeim vilja að betra sé að fara tiltölulega hratt í að setja upp þessa nýju stofnun en ekki gera það á of löngum tíma. Samt er hér ekki verið að rasa um ráð fram, alls ekki, eins og hér hefur verið gefið í skyn.

Jafnframt hefur verið spurt um frjáls félagasamtök. Við áttum fund með þeim til að ræða þetta mál og kynna fyrir þeim að hugur okkar stæði til þessa, og þar kom þá m.a. fram að fulltrúi frá einum samtökum taldi að þetta væri brýnt mál og að fyrir löngu hefði átt að vera búið að þessu. Ég var að vonum mjög ánægð að heyra að menn telja að sameina þurfi þessar stofnanir, sem eru tiltölulega litlar, í eina öflugri stofnun.

Hér hefur verið rætt svolítið um alþjóðasamninga og tengsl þeirra við Náttúrufræðistofnun Íslands. Hún er vísindastofnun, rannsóknastofnun, ekki stjórnsýslustofnun þannig að við teljum eðlilegt að nýja Umhverfisstofnunin, sem verður stjórnsýslustofnun, fari með alþjóðasamninga.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hélt ræðu áðan sem var samfelldur reiðilestur, heyrðist mér, og tók meira að segja upp það ráð mér til virðingar að breyta röddinni til að líkja eftir mér. Ég hef ekki lent í því áður en alltaf lendir maður í einhverju nýju í þessu starfi. Hv. þm. spurði m.a. hvað það væri í rekstraráætlun Náttúruverndar ríkisins sem verðskuldaði það að hún yrði sameinuð. Svarið er: Það er ekkert. Það er ekki verið að sameina Náttúruvernd ríkisins við aðrar stofnanir út af einhverri rekstraráætlun hennar, alls ekki, það tengist bara ekki neitt. Við erum að sameina þessar stofnanir til að sækja fram á þessu sviði af því að við teljum rétt að einfalda stjórnsýsluna og gera hana öflugri.

Hv. þm. ræddi líka um skrauthúfu, að komandi forstjóri ætti að vera einhver skrauthúfa, og að í því fælist einhver ný sýn. Forstjórinn einn mun ekki valda því að hér verði um einhverja nýja sýn að ræða. Það er miklu meira. Þessi nýja stofnun mun stuðla að því. Að mínu mati er alls ekki hægt að ræða þessi mál á þessum nótum eins og hér hefur verið gert.

Hv. þm. kom enn fremur inn á það í lestri sínum að umhvrh. hefði ekki talað máli þessara stofnana við fjárveitingavaldið. Ég mótmæli þessum málflutningi. Það hefur einmitt verið gert. Ég hef látið fletta hér upp tölum vegna þeirra orða sem féllu. Árið 1999 voru fjárveitingar til Hollustuverndar ríkisins, miðað við þær tölur sem við tíndum saman áðan, 165 millj., á yfirstandandi ári 247 millj. Hollustuverndin hefur sem sagt fengið 50% hækkun á valdatíma núverandi ríkisstjórnar.

Náttúruvernd ríkisins fer úr 72 millj. 1999 í 140 millj. á yfirstandandi ári, þ.e. fær 100% hækkun. Það er aldeilis búið að tala máli þessara stofnana við fjárveitingavaldið. Auðvitað viljum við gjarnan fá meira fé. Og við munum vinna að því áfram að tala fyrir því að þessar stofnanir fái aukið fé.

Hér var spurt: Hvernig var unnið að þessu máli? Það hefur verið mjög lengi í umræðunni. Það hefur meira að segja verið í umræðunni frá því að aðrir ráðherrar voru í umhvrn. þannig að þetta er engin ný bóla sem kemur upp núna, alls ekki. Það er búið að tala um þetta afar lengi í ráðuneytinu en mesta vinnan hefur farið fram undanfarið ár. Ég ræddi þennan vilja og þessa sýn mína á fundi sem ég átti með forstöðumönnunum sameiginlega í Viðey á síðasta ári og þá kom m.a. fram hjá einum forstöðumanni, reyndar ekki forstöðumanni á viðkomandi stofnunum heldur öðrum sem heyrir undir umhvrn., að þetta væri gamall draumur hans. Ég hef rætt við forstöðumennina sem tengjast þessu máli og ég heyri ekki betur en að þeir sjái sóknarfæri í þessari aðgerð. Ég er reyndar mjög ánægð með að heyra það af því að forstöðumennirnir horfa þá ekki einangrað á eigin stöðu sem breytist við þetta heldur horfa þeir til framtíðar. Mér finnst það mikið þroskamerki og ég er mjög ánægð með það af því að það er alltaf mannlegt að horfa á allt út frá stöðu sjálfs sín.

Hér hefur líka verið spurt: Af hverju er verið að gera þetta yfirleitt? Er tímabært að endurskoða þetta núna? Já, ég tel þetta fyllilega tímabært. Umhvrn. hefur starfað í um tólf ár og við fengum stofnanir undir ráðuneytið frá öðrum ráðuneytum á sínum tíma og miklar breytingar hafa orðið í þessum málaflokki. Þetta er í reynd nýr málaflokkur. Það er alveg rétt að menn hafa talað um þessi mál lengi en þetta eru ný mál ef maður horfir á stjórnsýsluna, og þetta er nýjasta ráðuneytið. Það er því eðlilegt að við förum yfir þetta og skoðum alla málaflokkana.

Við höfum hins vegar bara skoðað það sem fellur undir umhvrn. Við höfum ekki skoðað Landgræðsluna eins og kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Það er ekki stofnun sem fellur undir okkur. Enginn veit hvað verður í framtíðinni en við skoðuðum okkar málaflokka varðandi yfirsýnina núna.

Hér hefur svolítið verið talað um að á fyrsta starfsári hafi starfsmennirnir forgang. Hvað þýðir það? Ég hef fundið að í umræðunni gætir einhvers misskilnings út af því. Þetta þýðir ekki að fyrst eigi að ráða alla inn og svo eigi að reyna að ýta einhverjum út á fyrsta ári, alls ekki. Þetta þýðir að frá og með því að stofnunin tekur til starfa 1. jan. nk., ef þetta frv. verður að lögum sem ég vona svo sannarlega, fara menn að ráða þetta fólk sem hefur þá forgang og við væntum þess að það verði gert strax í upphafi. Vera má að það dragist með einhverja, ég skal ekki segja, þannig að það svigrúm er eitt ár. Það er alls ekki eins og það eigi að ýta út einhverju fólki á þessu ári eða eftir að það er liðið. Það er alveg fráleitt að halda því fram.

Hér hefur líka verið spurt: Hvað þýðir þetta fyrir landsbyggðina, hvað með veiðistjóraembættið og hreindýramálin fyrir austan og er þetta ekki bara miðstýring? Ég tel einmitt að í þessu séu mikil sóknarfæri fyrir landsbyggðina. Núna verður starfsemi Umhverfisstofnunar á Norðurlandi --- á Akureyri --- og á Austurlandi mun víðtækari en í dag. Við sjáum fyrir okkur að þau mál sem veiðistjóraembættið hefur haft á Akureyri verði þar áfram, og einnig svo með hreindýramálin fyrir austan, en við bætast nýju verkefnin sem Náttúruvernd ríkisins og Hollustuvernd ríkisins hafa í dag þannig að það skapast svigrúm til að efla starfsemina úti á landsbyggðinni við þetta, og sóknarfæri.

Varðandi stöðu forstjóranna í dag er ljóst að þeir verða ekki, allir þrír, forstjórar í nýrri stofnun. Ráðinn verður einn nýr forstjóri. Vel má vera að þeir sæki allir um eða hluti þeirra eða enginn, ég skal ekki segja, en staða þeirra breytist.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tók til máls, og satt best að segja varð ég svolítið svekkt fyrir hönd embættismanna minna þegar hann réðst að þeim --- þeir geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér í þessum ræðustóli --- og sagði að það væri ámælisvert hvernig þeir hefðu sett fram greinargerðina. Hv. þm. kaus að ráðast á þá hér. (Gripið fram í.) Ég tel að hér hafi verið látin falla orð sem ekki eiga við rök að styðjast. Það sem hv. þm. las upp, og stendur með réttu í greinargerðinni, að ,,stofnanaskipting ráðuneytisins byggist að verulegu leyti á gömlum grunni``, er bara staðreynd. Það er margoft búið að gera breytingar á lögunum, efnisbreytingar, en hér er verið að skoða þessa stofnanaskiptingu ráðuneytisins. Náttúruvernd ríkisins byggir á gamla Náttúruverndarráðinu. Við erum reyndar með nýjar stofnanir eins og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar en það er hárrétt sem stendur í greinargerðinni.

Hv. þm. ýjaði líka að því að búið væri fyrir fram að ráða einhvern forstjóra. Það er ekki búið að því, alls ekki. Og það er ekki verið að sauma inn einhverjar menntunarkröfur sem passa fyrir einhvern einstakling, alls ekki, ég vísa því algjörlega á bug. Þær kröfur sem við setjum fram í frv. eru eðlilegar. Það er eðlilegt að forstjóri hafi háskólapróf og þekkingu á sviði þessara stofnana og stjórnunarreynslu.

Hv. þm. spurði líka um landsbyggðina og ég hef reynt að svara því. Hér eru sóknarfæri fyrir landsbyggðina en alls ekki það að draga eigi eitthvað úr starfseminni þar.

Hv. þm. kaus líka að draga hér inn Náttúruverndarráð og ég sé ástæðu til að minna á það aftur, ég hef reyndar gert það hér áður, að vinstri grænir, allir nema einn, samþykktu að leggja niður Náttúruverndarráð enda erum við að losa þar fé sem má nýta miklu betur fyrir náttúruverndina í landinu. Það var einn þingmaður sem samþykkti þetta ekki enda var hann fjarstaddur.

Hv. þm. Þuríður Backman spurði af hverju þessar stofnanir væru fjársveltar. Það er ekki hægt að segja að þær séu það, og ég er búin að lýsa því hér hversu mikið aukið fé þær hafa fengið. Hins vegar eru þar verkefni sem þarf að fjármagna í framtíðinni. Það má taka fram hér að til Hollustuverndar ríkisins og Náttúruverndar ríkisins og í minna mæli til veiðistjóraembættisins koma aukin verkefni sem þarf að fjármagna.

Virðulegur forseti. Ég bind vonir við að hv. þingmenn sjái að hér er um framfaraskref að ræða. Sjái þeir það ekki núna vona ég að þeir sjái það síðar þegar þetta er um garð gengið. Ég veit að það er alltaf erfitt að gera breytingar og það er erfitt að fara í gegnum óvissu. En ég tel að þetta sé það brýnt og gott mál að við eigum að taka af skarið núna og sameina þessar stofnanir í eina nýja Umhverfisstofnun til að sækja fram í málaflokknum.