Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 22:15:28 (7502)

2002-04-10 22:15:28# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[22:15]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek eftir því í máli hv. þm. Steingríms Jóhanns Sigfússonar að fjarvera mín úr ræðustóli hefur mjög svipt hann innri ró. Þar sem allt bendir til, miðað við það sem hv. þm. segir, að skammt sé til þess að hann, og við e.t.v. fleiri, gangi til náða finnst mér ekki rétt að raska næturró hans með því að hann viti ekki nákvæmlega hver afstaða mín er. Ég mæli því nokkur orð í tilefni af ræðu hans.

Herra forseti. Afstaða mín til þessa máls mótast af því að þegar ég var ráðherra umhverfismála taldi ég nauðsynlegt að reyna með einhverjum hætti að sameina þær dreifðu rannsókna- og eftirlitsstofnanir sem undir ráðuneytið heyrðu. Ég var þeirrar skoðunar árið 1994, ef mig misminnir ekki um ártalið, að rétt væri að stefna að stofnun umhverfisstofnunar, og horfði þá til fyrirmyndar í öðrum löndum. Þessi stofnun átti að taka til ýmissa þeirra stofnana sem hér eru undir, þó ekki þeirra allra. Þegar við ræddum þetta var til að mynda ekki búið að færa ýmsa starfsemi undir ráðuneytið sem er þar nú. Það var gert síðast í ráðherratíð minni. En ég vildi reyndar gera meira en það, herra forseti, ég taldi að það ætti að riðla þeirri hefðbundnu skiptingu sem er milli ráðuneyta og ég vildi líka taka inn í þessa uppstokkun stofnanir eins og Landgræðsluna, Skógrækt ríkisins og enn fremur Veiðimálastofnun. Ég var þeirrar skoðunar að það kæmi til mála að taka eftirlit og rannsóknir á auðlindum hafsins undir stofnanir umhvrn. en hins vegar að ákvarðanir um nýtingu væru skyldar í annað ráðuneyti. Ég er því þeirrar skoðunar að það sem hér er á ferðinni sé spor í rétta átt. Ýmislegt af því sem hér liggur undir er ég kannski óhress með en það eru smærri atriði. Hin stærri mynd er sú að við þurfum að sameina þessar dreifðu stofnanir. Það þarf hins vegar að undirbyggja mun nákvæmar, og má vel vera að það hefði mátt taka lengri tíma af hálfu hæstv. ráðherra.