Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 13:36:45 (7619)

2002-04-17 13:36:45# 127. lþ. 119.96 fundur 513#B Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[13:36]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. 1. mars í ár voru 31,2 störf á Greiningarstöðinni. Þau eru tveimur færri en 1. mars árið 2001, en jafnmörg og árið 2000 og 1999. Til þess að auka þjónustustig og leysa bráðavanda Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar hefur verið auglýst eftir starfsfólki. Í fyrsta lagi hefur verið auglýst eftir sálfræðingi í 100% stöðu á sviði þroskahamlana, barnalækni í 100% starf, 50% á sviði þroskahamlana og 50% á sviði einhverfu og málhamlana, talmeinafræðingi í 80% stöðu á sviði einhverfu og málhamlana, þroskaþjálfa í 100% stöðu á sviði hreyfi- og skynhamlana og sálfræðingi í 80% stöðu í afleysingar. Umsóknarfresturinn rennur út 25. apríl nk. Gert er ráð fyrir því að strax verði gengið til ráðninga á hæfum umsækjendum að loknum umsóknarfresti. Að þessum ráðningum loknum verður unnin sérstök áætlun um það hvernig staðið verður að greiningu þeirra barna sem talin eru hafa brýnustu þörfina.

Rétt er að taka fram að öll börn innan tveggja ára fá greiningu strax, þ.e. biðtími getur orðið einn mánuður, í mesta lagi þrír. Áformað er að 1. júlí verði búið að ákveða hvernig staðið verði að greiningu þeirra barna sem eru í mestri þörf.

Á vegum ráðuneytisins er nú hafin úttekt á faglegum og fjárhagslegum þáttum Greiningarstöðvar. Úttektin mun sérstaklega ná til eftirfarandi þátta, þ.e. vanda stöðvarinnar í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á greiningarviðmiðum og aukinnar ásóknar í þjónustu stöðvarinnar, innra skipulags, skilgreiningar verkefna, lágmörkunar rekstrarútgjalda að teknu tilliti til skilgreindra verkefna. Í framangreindri vinnu verða stafskjör stöðvarinnar tekin til endurskoðunar.

Fulltrúar ráðuneytisins og Greiningarstöðvarinnar hafa að undanförnu unnið sameiginlega að lausn þess fjárhagsvanda sem stöðin virðist vera í. Í kjölfar þess hef ég m.a. ákveðið að óska eftir viðbótarfjárheimild í fjáraukalögum ársins svo auka megi núverandi þjónustustig stofnunarinnar. Verði slík ósk samþykkt, er það sameiginlegt mat aðila að þannig verði hægt að vinna á bráðavanda stofnunarinnar enda verði samhliða gripið til annarra nauðsynlegra rekstraraðgerða.

Rétt er að taka fram að fjárheimildir stofnunarinnar í ár eru nú þegar 20 millj. hærri en reksturinn reyndist á síðasta ári.

Það hefur líka verið óskað eftir tilnefningum í stjórn Greiningarstöðvarinnar, en skipunartími fyrri stjórnar er runninn út. Gert er ráð fyrir því að hin nýja stjórn stöðvarinnar verði starfhæf í byrjun maí eða taki til starfa í byrjun maí nk.

Í framhaldi af þeirri úttekt sem nú er hafin er gert ráð fyrir því að fram fari heildstætt mat á þjónustu við fötluð börn og ungmenni og ábyrgð hinna ýmsu þjónustuaðila gagnvart greiningu þeirra og fötlun. Hér er átt við hlutverk Greiningarstöðvarinnar, hlutverk heilbrigðisþjónustunnar og hlutverk sveitarfélaganna. Gert er ráð fyrir því að þessi vinna hefjist í byrjun júní og verði lokið 1. september nk.

Að lokinni þessari frumúttekt á starfi Greiningarstöðvarinnar er gert ráð fyrir vinnu við valkostagreiningu þar sem reynt verður að meta framtíðarsýn og framtíðarhlutverk Greiningarstöðvarinnar í heildstæðri þjónustu við fötluð börn á Íslandi til framtíðar. Það er gert ráð fyrir að þessi vinna fari af stað 1. september og taki u.þ.b. þrjá mánuði.

Á árinu 2000 voru meðaldagvinnulaun háskólamenntaðra starfsmanna Greiningarstöðvarinnar alls ekki lakari en dagvinnulaun háskólamenntaðra starfsmanna í sambærilegum störfum hjá öðrum ríkisstofnunum samkvæmt athugun sem ráðuneytið gerði á liðnu ári.