Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 13:56:38 (7627)

2002-04-17 13:56:38# 127. lþ. 119.96 fundur 513#B Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[13:56]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Vandi Greiningarstöðvarinnar hefur verið hér til umræðu í þingsölum oft og nú í þinglok er ástæða til að fá upplýsingar um stöðu hennar og þeirra skjólstæðinga hennar sem hafa beðið þjónustu og bíða enn. Okkur hafa borist mörg bréf frá örvæntingarfullum foreldrum fatlaðra barna, m.a. skólabarna, sem beðið hafa greiningar fyrir börn sín allt upp í tvö ár. Og á meðan þau bíða eftir greiningu fá þau ekki þjónustu sem þeir ber og þeim stæði ella til boða. Eitt ár, hvað þá tvö í lífi barns, er langur og dýrmætur tími og verður að leysa mál þessara barna áður en enn eitt skólaárið hefst.

Þess vegna fagna ég þeim ummælum hæstv. ráðherra sem komu fram í svari hans í upphafi um að verið sé að vinna að úrbótum. Vonast ég til þess að þeim verði lokið fyrir haustið.

Varðandi launamál starfsmanna þá verður það að koma hér fram að um atgervisflótta hefur verið að ræða frá stöðinni. Það kom bæði fram í heimsókn félmn. og hefur komið fram oftar.

Ég vonast til þess að lausn verði fundin á málefnum Greiningarstöðvarinnar og hún verði komin í fullan gang og þjónusta þar verði veitt að fullu fyrir haustið, þannig að þau fjölmörgu börn sem bíða og hafa beðið fái greiningu og í kjölfar þess þá þjónustu sem þau eiga rétt á í skólakerfinu.