Ávísanir á ávanabindandi lyf

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 10:45:53 (7848)

2002-04-19 10:45:53# 127. lþ. 123.96 fundur 528#B ávísanir á ávanabindandi lyf# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[10:45]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Neysla sterkra fíkniefna hefur stöðugt verið að aukast hér á landi og hefur í raun fylgt þróun fíkniefnaneyslu í nágrannalöndum okkar. Sem betur fer er neysla heróíns þó ekki orðin landlæg og verður það vonandi aldrei en við getum aðeins lifað í voninni því markaðurinn ræður.

Hér er tekið á mjög viðkvæmu máli, herra forseti, en það er staðreynd að á hverju ári látast hér á landi ungmenni eða ungt fólk af ofneyslu fíkniefna og þeim fjölgar eftir því sem fíkniefnamarkaðurinn styrkist og efnin verða harðari. Samkvæmt upplýsingum SÁÁ eru um 100 skjólstæðingar sjúkrahússins morfínfíklar. Þessir fíklar virðast margir hverjir hafa aðgang að læknum sem skrifa út lyfseðla á ávanabindandi lyf án þess að gera neitt frekar í þeim tilgangi að koma fíklunum úr neyslu.

Landlæknisembættið fer með eftirlit þessara mála í samráði við Lyfjastofnun en í ljós hefur komið að nokkrar vikur líða frá útgáfu lyfseðils þar til upplýsingar berast til viðkomandi embætta. Það hlýtur því að teljast eðlileg krafa að tekið verði hart á slíkum brotum og að einnig verði brugðist við breyttu neyslumunstri eiturlyfjaneytenda með nýjum meðferðarúrræðum og eftirliti með ávísunum á ávanabindandi lyf.

Herra forseti. Eitt þeirra efna sem fíklar í mikilli neyslu hafa komist upp á lag með að nota eru morfíntöflur, sterk verkjalyf sem eru nauðsynleg fyrir marga sjúklinga svo að þeir geti lifað daglegu lífi án stöðugra verkja. Þetta á t.d. við um marga krabbameinssjúklinga. Því verður að gera mikinn greinarmun á notkun þessara sterku verkjalyfja vegna sjúkdóma eða til fíkniefnaneyslu.

Umræða um ávanabindingu sterkra verkjalyfja má aldrei verða til þess að sjúklingar veigri sér við að taka slík lyf við miklum verkjum.