Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 11:34:48 (7870)

2002-04-19 11:34:48# 127. lþ. 123.8 fundur 716. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (fjárfestingar hlutafélagsins) frv. 75/2002, GE
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[11:34]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Það liggur við að andsvarsformið hefði nægt í þessu máli. Ég tel að þetta frv. sé nauðsynlegt til þess að auka möguleika til frekari uppbyggingar og atvinnusköpunar hér á landi, m.a. til þess að framleiða úr áli og einnig til að fyrirtækið sem þarna um ræðir geti tekið þátt í uppbyggingu annars konar atvinnustarfsemi.

Virðulegur forseti. Ég þekki til stóriðju. Ég hef unnið við hana. Ég þekki til framþróunar í vörnum gegn mengun, framþróunar í tækni, aukinnar þjálfunar og tækni til að spara mannafl, tækniframfara sem krefjast aukinnar þjálfunar og menntunar. Ég þekki einnig áhrif stóriðju á sveitarfélög á stóru svæði hérlendis og erlendis.

Stóriðjufyrirtækin, svo maður tali nú um þau bæði, á Grundartanga hafa skapað ný viðhorf, aukið menningar- og menntunarkröfur, lagt uppgræðslu- og umhverfissjónarmiðum lið, skapað iðnaði nýja og betri stöðu allt frá Suðurnesjum til Stykkishólms. Á þessu nefnda svæði hafa nefnilega fyrirtæki í byggingar- og stáliðnaði og þar að auki í rafiðnaði notið þeirra framkvæmda sem þarna hafa verið og hafa notið þess síðan að veita þjónustu að lokinni uppbyggingu eins og raun ber vitni.

Öllum hlýtur að vera ljós skoðun mín almennt á stóriðjumálum eftir þessi orð vegna þess að ég sé ekki að á næstu 10--15 árum gefist betri möguleikar til öruggari uppbyggingar í atvinnumálum en með virkjun og stóriðju og finnst alveg sjálfsagt að veita þessum fyrirtækjum heimild til að fjárfesta og stofna hlutafélag eða dótturfyrirtæki í skyldum iðnaði eða þeim fyrirtækjum sem þeim lýst vel á að fjárfesta í.

Virðulegur forseti. Bara til þess að árétta það þá tel ég að ég sé ekki minni umhverfissinni en hver annar hér á þingi eða almennt í samfélaginu. Ég er að hluta til alinn upp í sveit, hef stundað sjómennsku og störf í stóriðju. Ef til vill er það kannski meira en segja má um marga þá sem hafa verið að fjalla um þessi mál. En á grundvelli lífsreynslu minnar og þekkingar styð ég þetta mál sem fram er lagt.