Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 14:06:11 (7891)

2002-04-19 14:06:11# 127. lþ. 123.18 fundur 653. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (rafræn vöktun o.fl.) frv. 81/2002, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er 2. umr. um frv. til laga um breyting á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77 frá 23. maí 2000.

Við í nefndinni vorum sammála um þær breytingar sem hér eru lagðar til enda voru þær unnar fyrst og fremst af Persónuverndinni og sérfræðingum hennar. Páll Hreinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, kom til nefndarinnar og fór yfir málin mjög gaumgæfilega. Lögin um persónuvernd eru auðvitað eitt af þeim málum sem eru í stöðugri þróun. Þar er fólk ávallt á vaktinni með öll þau nýmæli og annað sem er í gangi varðandi persónuvernd, bæði varðandi skráningu og í þetta sinn er verið að ræða um rafræna vöktun.

Talsverð umræða varð um mikla fjölgun myndavéla í verslunum og öðrum stöðum. Það er spurning hvar þessi mörk eiga að liggja, hvenær í rauninni sé verið að skoða einkahagi fólks. Auðvitað varð heilmikil umræða í því sambandi um t.d. myndavélar uppi á gamla Búnaðarbankanum eða Héraðsdómi Reykjavíkur. Þær umræður voru náttúrlega gamalkunnugar frá Reykjavíkurborg á þeim tíma þegar slíkt var leyft.

Afar mikilvægt er að setja skýrar reglur um þessa vöktun í hvaða formi sem hún er þannig að ekki verði gengið of langt og líka um meðferð þessa efnis, hversu lengi eigi að geyma það, af hverju eigi að geyma það, hverjir geti notað það o.s.frv. Það er fyrst og fremst ef um lögbrot er að ræða að slíkt efni getur eitthvað nýst. Þarna er líka verið að samræma okkur við Norðurlönd hvað slíkar vaktanir varðar og vinnslu efnis úr þeim. Aðalatriðið er að öryggi borgaranna sé sem mest og að ekki sé verið að geyma upplýsingar sem gætu í rauninni verið allt að því persónunjósnir. Það urðu mjög frjóar og fínar umræður í nefndinni og við vorum náttúrlega mjög heppin að fá Pál Hreinsson, prófessor í lagadeildinni, til þess að fara yfir þetta mál með nefndinni enda átti nefndin afar farsælar umræður og samstarf við hann þegar lögin um Persónuvernd urðu að raunveruleika og þegar þau lög voru samin.

Ekki var ágreiningur um þetta mál. Við teljum þetta vera skref fram á við og allir eru sammála um það. Þannig mun það líka verða áfram, að þetta eru lög sem munu verða ávallt í ákveðinni gerjun. Eins verðum við að passa okkur á því að einstakar stofnanir séu ekki að biðja um of miklar heimildir og sértækar heimildir til þess að samkeyra upplýsingar sem gætu talist viðkvæmar. Þetta er því eitt þeirra mála sem er afar mikilvægt að Alþingi Íslendinga sé vakandi yfir.