Umferðarlög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 18:53:22 (7953)

2002-04-19 18:53:22# 127. lþ. 123.22 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[18:53]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst með ólíkindum að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson ætli að segja mér í hversu langan tíma ég nákvæmlega á og má tala um málið. Það liggur við að hann leggi mér nákvæmlega orð í munn til þess að segja mér hvernig svar mitt eigi að vera. En hann kom inn á nokkur atriði, herra forseti, m.a. það út á hvað þetta frv. gangi. Meginástæðan fyrir því að efna til eða stofna Umferðarstofu er annars vegar stjórnsýslulegs eðlis. Ég geri ráð fyrir því að hann hafi heyrt ræður mína hér fyrr í dag og ætla því ekki að endurtaka þann hluta. Síðan eru hins vegar hagkvæmnisrök og ég er líka búin að geta um þau hér í dag.

Varðandi þessi gjöld þá vil ég meina að hann hafi mjög einbeittan vilja. Á öðrum sviðum þjóðfélagsins mundum við tala um einbeittan brotavilja. En einbeittur vilji þingmannsins kemur mjög skýrlega fram í því að hann er að reyna að sjá út úr þessu það að við séum að reyna að kreista einhver gjöld, hverju nafni sem þau nefnast, umfram það sem þegar er í lögum, af hendi þeirra sem aka um götur bæjarins. Ég vil sérstaklega taka fram að frv. felur ekki í sér neina breytingu á fjárhæð gjalda eða fyrirkomulagi á innheimtu þeirra. Þau gjöld sem talin eru upp í títtnefndri 9. gr. renna nú þegar til Skráningarstofunnar hf. og Umferðarráðs.

Ég veit að hv. þm. er líka sérstaklega að hugsa um 2. mgr. 9. gr. En ef hann fer í 115. gr. núgildandi umferðarlaga þá er nokkurn veginn samhljóða setning þar. Þar er sagt:

,,Leggja skal á sérstakt umferðaröryggisgjald er renni til Umferðarráðs, að fjárhæð 200 kr., ...``

Það er ekki verið að auka gjöld á þá sem koma að umferðarmálum á einn eða annan hátt.