Umferðarlög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 19:01:11 (7957)

2002-04-19 19:01:11# 127. lþ. 123.22 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[19:01]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson er skemmtilegur maður og mikill húmoristi eins og þingmönnum er kunnugt. Þessi húmor kom glöggt fram í ræðu hans áðan þegar hann talaði aftur og aftur, og aftur og aftur, um skattaflokkana og átti þá við ríkisstjórnarflokkana. Ég veit náttúrlega að hv. þm. er að grínast en vil halda því til haga, til vonar að vara, að þessir svokölluðu skattaflokkar hans hafa nú starfað saman í sjö ár og lækkað skattana aftur og aftur, síðast núna í vetur um nokkra milljarða. Ég minni hann líka á að á sama tímabili hefur hans flokkur, Samfylkingin, aftur og aftur lagt til milljarða í aukna skatta við næstum því hverja einustu fjárlagagerð. Ég man t.d. að við fjárlagagerðina 2000 lögðu þeir til aukna skatta upp á 5,5 milljarða, 5.500 millj. á skattgreiðendurna í landinu.

Ég minni hann líka á að formaður hans, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hefur gagnrýnt harðlega skattalækkanir ríkisstjórnarinnar, t.d. þegar tekjuskattur einstaklinga var lækkaður um 4% í þremur áföngum á síðasta kjörtímabili, sem er einhver mesta skattalækkun í sögu lýðveldisins og átti auðvitað stærstan þátt í því að kaupmáttur jókst hér meira en í nokkru öðru landi. Foringi hans skammaði ríkisstjórnina mánuð eftir mánuð og ár eftir ár og sagði: Það á ekki að lækka skatta í góðæri.

Ég vildi bara, herra forseti, halda því til haga að skattaflokkana er auðvitað að finna í stjórnarandstöðunni en ekki í ríkisstjórninni. Helsti skattaflokkurinn er auðvitað flokkur hv. þingmanns, Samfylkingin, og ég segi nú bara: Guð hjálpi skattgreiðendum þessarar þjóðar ef sá flokkur kemst einhvern tíma til valda.