Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 15:27:33 (466)

2001-10-15 15:27:33# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Fyrst vil ég nefna aðeins umræðuna um fjárreiður Alþingis, meðferð á fjármunum þess, fjármunum til reksturs, kaupa og byggingar og fasteigna þess. Eins og hér hefur komið fram er skýrsla sem Ríkisendurskoðun vann um fjárreiður Alþingis hvað þetta varðar og hér hefur verið til umræðu, til umfjöllunar í fjárln. og var það síðari hluta fyrravetrar. Þeirri umfjöllun er ekki lokið. En að mínu viti er alveg ljóst, herra forseti, að taka þarf verulega á í fjármálastjórn Alþingis eins og það hefur birst okkur m.a. í þessari úttekt sem var kynnt í fjárln. Hún hefur reyndar ekki verið afgreidd úr nefndinni þannig að ég vil ekki ræða það í einstökum atriðum. Eins og hæstv. forseti og hv. þm. Halldór Blöndal hefur gert hér grein fyrir þá axlar hann persónulega ábyrgð á þessu máli sem mér finnst nú ekki heldur vera embættislega rétt. Hv. þm. er forseti þingsins og á að koma fram sem slíkur á vegum forsn. Ef það þarf aukinn stuðning við stjórn þingsins þá er kannski hægt að athuga það að formenn þingflokka komi þar líka að, þ.e. ef styrkja þarf enn betur stjórn þingsins.

[15:30]

Mjög erfitt er að fallast á að það sé góð fjármálastjórn að taka á leigu rándýrt húsnæði hér í grenndinni og síðan fjármagnar Alþingi allar innréttingar og innanstokksmuni án þess að á því fylgi nokkur eignarréttur eða slíkt. Ég nefni þetta hér, herra forseti, en að öðru leyti er skýrslan til umfjöllunar í fjárln. og verður væntanlega afgreidd þaðan.

Varðandi fjáraukalögin almennt, þá vil ég, herra forseti, enn og aftur benda á lögin um fjárreiður ríkisins. Mér hefur fundist í umræðunni um skyldur framkvæmdarvaldsins að menn hafi mjög einblínt á skyldur forstöðumanna einstakra stofnana, að þeir virði ekki fjárlagaheimildir og annað því um líkt sem þeim beri, og að menn hafi verið að setja reglur og jafnvel viðurlög um hvernig með skuli fara gagnvart forstöðumönnum stofnana hinna ýmsu ráðuneyta. Mér finnst, herra forseti, að þar sé byrjað á röngum enda. Fyrst eigi að fara í ráðuneytin sjálf og þar verði að vera bæði sú fjármálaumsýsla og sú ábyrgð fyrir hendi sem lögin kveða á um, Alþingi er þar ekki undanskilið, og að þar eigi að byrja að taka á málunum. Meginhluti þeirra tillagna og fjárbeiðna sem liggja fyrir í frv. til fjáraukalaga eru með þeim hætti að annaðhvort er það búið að skuldbinda sig til greiða þær eða inna þær greiðslur af hendi áður en leitað er heimildanna og það er ekki samkvæmt fjárreiðulögum. Það eru bara undantekningartilvik sem heimila að hægt sé að samþykkja greiðslur án þess að Alþingi sé búið að samþykkja þær, þ.e. að framkvæmdarvaldið geti reitt af hendi greiðslur án þess að Alþingi samþykki, en þá beri þegar í stað að bera það undir Alþingi. Farið er allt of frjálslega með fjárreiðulögin, ekki síst af ráðuneytunum. Ég minntist á forsrn. og utanrrn. og svona getum við áfram talið þar sem um tugi milljóna króna er að ræða og verið er að sækja um til reksturs á fjáraukalögum og jafnvel búið að inna þær greiðslur af hendi án þess að heimildir séu fyrir.

En ég vildi spyrja um eitt atriði, herra forseti. Það er eitt sem mér þykir vanta og við hefðum viljað sjá fjallað um í fjáraukalögunum, það er um stöðu framhaldsskólanna í landinu. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár benti ég ítrekað á að ekki væri tryggt nægilegt fjármagn til reksturs framhaldsskólanna í landinu og auk þess væri ekki tekið á þeim skuldum sem hefðu hlaðist upp hjá framhaldsskólunum og þeir látnir bera áfram án þess að úr verði greitt. Við horfum sérstaklega upp á þá skóla, herra forseti, sem eru með verknám eða heimavistir sem verða illa úti í meðferð ráðuneytisins og í meðferð Alþingis á fjárlögum til þessara stofnana.

Ég er með undir höndum gögn sem sýna að stór hópur framhaldsskóla hefur verið rekinn með halla og safnað upp skuldum á síðustu árum og eru enn með slíkar skuldir og er þeim til verulegs tjóns, trafala og takmörkunar í öllu starfi. Og þetta eru skólar sem eru reknir á ábyrgð ríkisins, bæði hvað varðar fjármagn og líka verkefni, verkefni sem þessu skólum eru falin og trúað fyrir að sinna. Þetta birtist þannig í starfi þeirra að þeir verða stöðugt að skera og skera niður námsframboð og eðlilegar nýjungar í starfi sínu og eins og ég nefndi áðan bitnar þetta harðast á verknámsskólunum, þeim sem eru með starfsmenntun, þetta bitnar harðast á þeim. Í fjáraukalagafrv., þrátt fyrir að fyrir liggi vísbendingar um skuldir þessara skóla og stofnana, er ekki lagt til að tekið sé á þessum vanda, en þetta liggur allt fyrir skjalfest. Þetta finnst mér ekki ábyrg vinnubrögð, herra forseti, og vildi óska eftir því við hæstv. forseta að hann kæmi því á framfæri við menntmrn. að þarna sé ekki staðið að af ábyrgð. Ég óska eftir svari frá fjmrh. um það hvernig ætlunin er að taka á þessum skuldum og þeim fjárhagsvanda framhaldsskólanna sem þeir standa frammi fyrir nú, bæði vegna yfirstandandi árs og fyrri ára.

Að lokum, herra forseti, er það skoðun mín og ég hef lagt fram tillögur til breytinga á lögum um fjárreiður ríkisins sem miða að því að fjáraukalög komi fram oftar en einu sinni á ári. Það er í hæsta máta eðlilegt að forsendur fjárlaga geti breyst með ýmsum hætti frá því að þau eru samþykkt fyrir jól og þangað til að hausti árið eftir. Það getur gerst með ýmsu móti og þess vegna geta einstakar framkvæmdir orðið með þeim hætti að eðlilegt sé og hagkvæmt að til þeirra sé veitt meira fé á árinu varðandi ýmis rekstrarviðfangsefni o.s.frv. Alþingi getur samþykkt ný lög á vorþingi sem hafa í sér fjárskuldbindingar. Það er í hæsta máta eðlilegt og þá kveða lögin svo á um að setja á lögin fyrir fram um greiðsluheimildir. Þess vegna tel ég eðlilegt að frv. til fjáraukalaga verði lagt fram að vori í þinglok, að fjárln. starfi líka eftir áramót að fjármálunum, komi að undirbúningi fjárlaga fyrir næsta ár og einnig að athuga hvaða breytingar þarf að gera á yfirstandandi fjárlögum fyrir fram til að full og eðlileg samfella verði í fjármálaumsjón ríkisins.

Í ljósi umræðunnar í dag tel ég þetta enn brýnna. Það er afar brýnt að fjáraukalög séu gefin út ekki sjaldnar en tvisvar á ári, t.d. að vori og svo aftur að hausti, þannig að þinginu gefist möguleiki á að farið sé að lögum varðandi fjárreiður ríkisins og jafnframt þá líka að koma að nauðsynlegum ábendingum og leiðréttingum á yfirstandandi fjárlögum.