Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 15:39:10 (468)

2001-10-15 15:39:10# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal og virðulegur forseti þingsins svaraði sér eiginlega sjálfur þegar hann gat þess að á sl. ári hafi þingið farið verulega fram úr fjárheimildum og verið þar í miklum vandræðum með að draga þar í land, þannig að hann svaraði eiginlega sjálfur, hv. þm., því sem málið snerist um.

Þingið, eins og fleiri aðilar, fór langt fram úr þeim fjárheimildum sem lög höfðu heimilað því. Ekki skal lagður dómur á hvort það hafi verið hagkvæmt fyrir þingið, en það segir okkur enn frekar hversu brýnt það er að fjáraukalög komi fram tvisvar á ári svo að virðulegur forseti þingsins, hv. þm. Halldór Blöndal, þurfi ekki að fara með þessum hætti á svig við lög eins og fleiri sem eru í þeim sporum að eyða fénu fyrr en heimildir hafa komið til þess frá Alþingi.

Ég held því að málið sé einmitt það að verklaginu verður að breyta og að fjáraukalög verði lögð fram oftar á ári, hvort sem það er hæstv. forseti sem ber ábyrgð á Alþingi, eða einstök ráðuneyti eða stofnanir sem fái samþykkið fyrir fram eins og þingið vill en heimilda sé ekki leitað eftir á.