Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 15:57:11 (472)

2001-10-15 15:57:11# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[15:57]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er að venju ergilegur. Hann ergist nú mjög yfir því að halda eigi hér ráðstefnu NATO og finnst hér hafa verið of í lagt.

Það eru ein 14 ár síðan haldin var NATO-ráðstefna á Íslandi síðast, en við erum aðilar að NATO. Ég veit að hv. þm. er á móti því og hefur í sjálfu sér aldrei samþykkt þann gjörning. Þrátt fyrir allt erum við aðilar að þessu bandalagi sem allir eru sammála um, meira að segja Rússar, að sé það eina sem haldið getur uppi löggæslu eða friðargæslu í okkar heimi. Það er ekki hægt að kalla aðra til. Það að við skulum vera aðilar að því bandalagi er náttúrlega til marks um framsýni stjórnmálamanna fyrri tíðar sem sáu sér hag í að vera í því frá fyrsta degi. Mér fyndist það hálflágkúruleg afstaða ef íslensk stjórnvöld ætluðu að skorast undan því að taka þátt í og hafa ráðstefnu á 14 ára fresti, sem einn af aðilum að NATO.

Ég spyr hv. þm. hvort það sé virkilega afstaða hans að okkur sé það sæmandi að taka ekki að okkur ráðstefnu NATO á rúmlega áratugs fresti, sem fullgildir aðilar að þessum samtökum. Við treystum á þessi samtök og höfum hugsað okkur að vera í þeim þó að hv. þm. styðji ekki þá afstöðu að vera í NATO. Við sem sjálfstæð og fullvalda þjóð tökum þátt í samstarfi lýðræðisríkja.