Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:08:03 (498)

2001-10-15 17:08:03# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:08]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að það væri erfitt að skilja þetta verkefni, erfitt væri að reyna að skilja það. Ég er alveg sammála því. Það er nákvæmlega þess vegna sem ég kem hér upp og spyr t.d.: Hvað þýðir þetta ,,á forsendum íbúanna sjálfra``? Hvað þýðir það? Hvað með önnur byggðalög? Þrjú ár o.s.frv. Þau eru nú fljót að líða.

Það kom reyndar líka fram hér þegar hv. þm. mælti fyrir tillögunni að þetta væri ekki til þess að bjarga þeim fyrirtækjum sem eru á svæðinu, þetta væri bara til nýsköpunar. Í hverju er þessi nýsköpun fólgin?

Hv. þm. gerði lítið úr Byggðastofnun, að Byggðastofnun væri að henda peningum í einhver fyrirtæki sem stæðu illa o.s.frv.

Ég sé og skynja að þetta er afar flókið verkefni og ég bið hv. þm. að reyna að skýra það út, um hvað hv. þm. er í raun og veru að tala í þessum tillögum sínum?