Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:25:19 (505)

2001-10-15 17:25:19# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Meginástæða þess að við leggjumst gegn þeim stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi, virkjunum og álverksmiðju, sem verið hafa uppi á borðum ráðamanna undanfarin ár er sú að við teljum að þeim fylgi óréttlætanleg náttúruspjöll, neikvæð umhverfisáhrif þessara framkvæmda séu svo mikil að þær séu ekki verjandi. Við erum sammála embætti skipulagsstjóra ríkisins í þeim efnum.

Þegar svo við bætist að mjög er deilt um þjóðhagslegt gagn þessara framkvæmda og ljóst er að þeim fylgir mikil áhætta og hvert einasta starf er óheyrilega dýrt er greinilega að mörgu að hyggja í þessum efnum. Skoðanakannanir hafa sýnt að um 20% Austfirðinga og helmingur þjóðarinnar er sammála okkur í því að ekki sé hyggilegt að ráðast í þessar framkvæmdir. Fyrir liggja nokkuð vandaðar vísbendingar um að um það bil svona sé þetta, að þjóðin sé nokkurn veginn klofin til helminga í afstöðu sinni til þessa máls og að umtalsverð andstaða sé við þessi áform á Austurlandi.

Er þá mjög málefnalegt, herra forseti, að koma í ræðustól eins og sérstaklega þingmenn Framsfl. og hæstv. ráðherrar hafa gert og láta eins og það sé þvílík fásinna og svo fráleit sjónarmið sem við höfum staðið fyrir í þessum efnum, og stöndum enn, að engu tali taki? Eru innistæður fyrir orðbragði af því tagi sem hér var uppi haft af hæstv. ráðherra og aðstoðarmönnum hæstv. ráðherra í því að reyna að finna þessari tillögu allt til foráttu?

Hver var neikvæður núna? Hverjir höfðu allt á hornum sér? Hverjir voru á móti? Það voru þingmenn Framsfl. Er það þá vegna þess, herra forseti, að þeir séu ánægðir með ástandið í byggðamálum? Er það þess vegna? Er það vegna þess að þeir séu í alvöru að reyna að segja okkur að hinn hrikalegi byggðavandi sem nánast öll landsbyggðin glímir nú við muni leysast með einu álveri á einum stað á landinu? Er það virkilega það sem verið er að bera hér á borð? Það getur ekki verið. Jafnvel þótt við ræddum um staðbundin áhrif álvers á stóriðju á Austurlandi, og þó að við yrðum þess vegna sammála um að þau yrðu nokkur á því svæði, er algjörlega borin von að halda því fram að þetta verkefni sé eitthvert innlegg í hinn almenna atvinnu- og byggðavanda landsbyggðarinnar. Það má hins vegar segja um þessa tillögu. Hún er róttæk vegna þess að hún tekur sem útgangspunkt þá aðferðafræði sem gefist hefur best í þeim löndum nálægum okkur sem hafa náð miklum árangri í að glíma við neikvæða byggðaþróun á afmörkuðum svæðum. Hafa menn leyst byggðavandann á skosku eyjunum með álverum? Nei. Hafa menn náð aukinni fólksfjölgun í skosku hálöndunum með álverum? Nei. Hefur fólki fjölgað á nýjan leik á vesturströnd Írlands af því að þar hafi risið álver? Nei. Eða í Finnmörku? Nei.

Það sem fyrst og fremst hefur skilað mönnum vænlegum og góðum árangri er einmitt ný nálgun af því tagi að styðja heimamenn til þeirra verkefna sem þeir vilja ráðast í. Er það móðgun við Austfirðinga, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason sagði sem auðvitað er farinn á dyr þegar hann er búinn að ausa hér úr sér skömmunum, að leggja til að veittur sé myndarlegur stuðningur til atvinnuþróunar og nýsköpunar á Austurlandi? Svarið er nei. Það er nákvæmlega það sem allir þeir sem af miklum vanefnum eru að glíma við atvinnuþróun á landsbyggðinni biðja um vegna þess að það eru hreinir smáaurar sem menn hafa í höndunum til þeirra verkefna í dag. Mergurinn málsins er sá að ekki vantar tækifæri og það vantar ekki möguleika. Ég hef farið vítt um land, setið marga fundi og ráðstefnur, t.d. bæði á Vestfjörðum og á norðausturhorninu um sl. páska þar sem einhverjir fleiri voru af þeim sem hér eru í salnum. Voru menn hugmyndalausir á Þórshöfn, á fundinum um atvinnumál í norðaustursýslunni? Var það skortur á möguleikum og tækifærum sem háði mönnum? Nei. Þá vantaði stuðning við þau verkefni sem þeir vilja reyna að koma áfram. Þröskuldarnir eru of margir vegna þess að aðstöðumunurinn er svo mikill landsbyggðinni í óhag. Svo koma hér þingmenn Framsfl. væntanlega ánægðir með ástandið, eins og þeir tala, í staðinn fyrir að skammast sín fyrir frammistöðu ríkisstjórnar sinnar í þessum efnum sem er sú versta í sögunni. 1.300 manns eru farnir af landsbyggðinni það sem af er þessu ári. Er það ekki nóg fyrir Framsókn? Hefur hún þá ekkert annað til málanna að leggja en að koma hér og gera lítið úr tillöguflutningi annarra, bara af því að hann gengur ekki út á þetta álver? Er það frambærilegt?

[17:30]

Hvað mörg þúsund manns hefur landsbyggðin tapað síðan Framsókn settist í ríkisstjórn? Milli sex og átta þúsund manns eru flutt af landsbyggðinni umfram þá sem þangað hafa farið á þessum tíma. Er Framsókn ánægð með þá frammistöðu sína? Telur hæstv. núv. ráðherra byggðamála að ráðherra hafi af miklu að státa í því embætti það sem af er? Sennilega hefur einhver flottasta flétta í stjórnmálum síðari ára verið sú þegar Sjálfstfl. kom af sér vandamálinu og hausverknum mikla, byggðamálum, yfir á Framsfl. og Framsókn tók við því eins og öðru, enda í því öfundsverða hlutskipti eins og kunnugt er í þessu hjónabandi með Sjálfstfl. að taka á sig skammirnar og vammirnar.

Síðan verð ég að segja, herra forseti, út frá því líka sem ég vitnaði hér til um viðhorf til þessara mála, til umhverfismálanna og stóriðjumálanna, að þegar það liggur nú fyrir að hálf þjóðin er andvíg þessum framkvæmdum og telur þau umhverfisspjöll sem þeim yrðu samfara ekki réttlætanleg, er það þá frambærilegt út frá venjum um umburðarlyndi gagnvart mismunandi skoðunum að ræða hlutina á þeim nótum sem þingmenn Framsfl. gerðu hér með hæstv. ráðherra í broddi fylkingar? Ég verð að vísu að segja að ónotin í ráðherra komu mér ekki á óvart. Og það er athyglivert hversu illa hæstv. iðnrh., sem fer með byggðamál, hefur tekið öllum hugmyndum sem komið hafa um aðgerðir á því sviði. Ég minnist þess hvernig hæstv. ráðherra tók hér í hugmyndir sem jafnframt liggja fyrir þessu þingi um sérstakt byggðaþing og hefðu nú sennilega ýmsir talið að ráðherrann ætti að fagna því að áhugi væri á byggðamálum og stuðningur við að eitthvað væri gert í þessum efnum. Hér er verið að bjóða fram stuðning við að leggja aukna fjármuni til byggðaaðgerða í landinu. Hvernig bregst hæstv. ráðherra við? Með útúrsnúningi og skætingi eins og hæstv. ráðherra er einum lagið.

Svo koma hér þingmenn, eins og hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, nú í forsetastóli, og segja hundasúrubrandarann. (HBl: Hann er nú líka góður.) Þetta er mjög góður brandari um hundasúru. Og nú er búið að bæta hreindýramosa við fjallagrösin og hundasúrurnar sem hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason er í raun búinn að gera að einkennisjurt Framsfl. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að ég hafði ekki áttað mig á því fyrr að grænu flygsurnar í flokksmerki Framsfl. væru hundasúrur fyrr en hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason gerði þær að einkennisjurt flokksins í eldhúsdagsumræðum á liðnu vori.

Nei, herra forseti, ég tel að menn dæmi sig sjálfa út af borðinu með slíkum málflutningi,. Með slíkum frösum gera þeir það. Ef málefnafátækt Framsfl. er svo svakaleg í umræðum um atvinnu- og byggðamál að menn þurfi að grípa til slíkra hluta þá er best að þeir eigi um það við sjálfa sig.

En að lokum, herra forseti, er það eitthvað til þess að skammast sín fyrir (Forseti hringir.) að gera verðmæti úr íslenskum jurtum? Er lyfjaiðnaðurinn, snyrtivöruiðnaðurinn sem er farinn að velta hundruðum milljóna og skapa miklar (Forseti hringir.) útflutningstekjur, til þess að hafa hann hér í flimtingum með þessum hætti? Telur Framsfl. það sérstaklega sér til framdráttar?