Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 19:31:00 (552)

2001-10-15 19:31:00# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[19:31]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson lætur að því liggja að ég hafi fordóma gagnvart þessu máli. Það kann vel að vera. Ég fullyrði samt, herra forseti, að ég hef lagt mig fram um að skoða þetta mál frá öllum sjónarhornum. Ég tel mig nokkuð vel að mér í því. Eftir mjög nána skoðun hefur álit mitt styrkst á því að hér sé um mjög áhættusama fjárfestingu að ræða fyrir íslenskt þjóðarbú.

Af því að hv. þm. talaði um útreikninga Þjóðhagsstofnunar máli sínu til stuðnings, þegar hann talaði um þjóðhagslegan ábata, þá verð ég að minna hv. þm. á að það hefur vakið deilur að sá maður sem fer fyrir stóriðjunefnd ríkisstjórnarinnar og er formaður í samninganefnd ríkisstjórnarinnar í viðræðunni um Noral-verkefnið er einmitt forstjóri Þjóðhagsstofnunar. Er ekki hægt að vefengja þá reikninga sem frá Þjóðhagsstofnun koma þegar um svo augljós hagsmunatengsl er að ræða?