Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 19:35:45 (555)

2001-10-15 19:35:45# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[19:35]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrðist á hv. þm. að við séum býsna sammála um skoðanakannanir og það er nú vel. Við höfum báðir gefið yfirlýsingar um að við notum ekki skoðanakannanir til að móta skoðanir okkar á málum. Við höfum aðrar aðferðir til þess. Ég held að ég hafi gert skilmerkilega grein fyrir ástæðum þess að ég fór yfir tölur úr þessari skoðanakönnun, þ.e. hvernig sumir hv. þm. töluðu um þær. Ég skildi það svo að sumir væru jafnvel að réttlæta ákveðnar skoðanir með slíku.

Ég tek undir það með hv. þm. að sú skoðanakönnun sem ég nefndi, ég hefði alveg eins getað tekið aðra sem Gallup gerði örlitlu fyrr, sýnir auðvitað fyrst og fremst að það eru skiptar skoðanir um málið meðal þjóðarinnar. Það er ekkert launungarmál. Þannig hefur það verið. Sú skipting virðist ná um samfélagið allt. Það virðast ekki vera neinir hreinir ,,trúarhópar`` í málinu, það er ekki þannig. Um málið eru gífurlega skiptar skoðanir og má segja að það sé eðlilegt. Málið er í ákveðnu ferli. Það er til umfjöllunar víða og ekkert að því að menn hafi á því misjafnar skoðanir.

Ég verð hins vegar að leyfa mér að vona að þegar öll kurl eru komin til grafar þá verði ekki jafnmikill ágreiningur í málinu, þá verði meiri samstaða. Það er ósk mín í þessu máli, að við náum sem allra mestri samstöðu um málið. Ég er sannfærður um það, eins og ég hef sagt hér áður, að þetta muni bæta hag þjóðarinnar og skapa okkur möguleika á alveg nýrri sókn í byggðamálum. Ég vona að við hv. þm., allir sem hér erum í salnum, séum sammála um að á því sé þörf. Ef einhvern tíma hefur verið þörf þá er það nú.