Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 19:37:41 (556)

2001-10-15 19:37:41# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[19:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Seinna atriðið sem ég ætlaði að gera athugasemdir við í máli hv. þm. varðaði þjóðhagslegar forsendur málsins og gagnrýni hans á þau sjónarmið sem ég og fleiri höfum sett fram í umræðunni, að þau væru umdeild. Ég hygg að ekki sé hægt að orða það öðruvísi en svo að þannig sé það. Hagfræðinga hefur greint verulega á um þetta og við verðum að hafa það í huga að helstu talsmenn og stuðningsmennm málsins og þeir sem aðallega hafa annast útreikningana eru frá Landsvirkjun og stjórnvöldum, sem knýja þetta mál áfram. Gagnrýnin hefur fyrst og fremst komið frá óháðum hagfræðingum og óháðum aðilum sem hafa verið að rannsaka þetta mál. Við skulum hafa það í huga.

Áhættan er augljós. Hún er gríðarleg. Hér um að ræða 300 milljarða kr. pakka eða eitthvað nálægt því. Það er auðvitað alveg ljóst að þetta mundi auka skuldsetningu þjóðarbúsins verulega. Það hefur verið reiknað út og er ekki umdeilt að þetta muni valda aukinni verðbólgu og hækka vexti. Herkostnaður þjóðarbúsins verður því umtalsverður. Það er ekki umdeilt. Okkur greinir væntanlega á um hvort hann sé réttlætanlegur og hvort mögulegur ávinningur vegi þar upp á móti þannig að útkoman sé jákvæð eða ekki. Ég held að ekki sé hægt að halda hinu fram að málið sé ekki umdeilt.