Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 11:20:59 (723)

2001-10-18 11:20:59# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[11:20]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mikla nauðsyn á að fram fari skilgreining á því og fagleg umræða innan heilbrigðisþjónustunnar hvaða störf eiga að vera inni á sjúkrahúsum og hvaða störf eiga að vera utan þeirra. Ég hef orðið var við áhuga á því að slík umræða fari fram og slíkar skilgreiningar og ég vil stuðla að meiru í þeim dúr.

Varðandi svo greinargerðina og það sem í henni er að finna varðandi fjölbreytta starfsemi inni á sjúkrahúsum, þá hef ég líka orðið var við umræðu um hana og háskólahlutverk sjúkrahúsanna. Þær skoðanir eru uppi í heilbrigðisþjónustunni að fjölbreytt starfsemi þurfi að fara fram inni á sjúkrahúsum vegna kennsluhlutverksins. En svo eru aðrir sem eru þeirrar skoðunar að hægt sé að sinna því kennsluhlutverki annars staðar. Um þetta þarf að fara fram mjög fagleg umræða og ég vil stuðla að því að sú umræða fari fram. Það er mitt svar varðandi þetta.

En frv. í sjálfu sér felur ekki í sér neina ákvörðun um það frá minni hendi að fara að breyta þessu. Hins vegar verður þessi umræða um hlutverk sjúkrahúsanna að fara fram. Hvað á að vera inni á sjúkrahúsum? Á allt sem er þar inni núna að vera þar inni? Ég er alveg tilbúinn til að stuðla að faglegri umræðu um þetta mál.