Löggæslan í Reykjavík

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 13:31:47 (740)

2001-10-18 13:31:47# 127. lþ. 15.95 fundur 80#B löggæslan í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[13:31]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er ástæða til að vara alvarlega við þeim niðurskurði sem orðinn er í löggæslumálum, ekki síst hér í höfuðborginni, sem farinn er að ógna öryggi og þjónustu við borgarbúa þannig að í algjört óefni stefnir. Ekkert er ofsagt í því að fjöldi lögreglumanna er nú undir öryggismörkum. Hefðbundin sólarhringsvakt lögreglunnar á svæði sem nær frá Seltjarnarnesi upp í Hvalfjarðarbotn taldi áður 23--27 menn á vakt en nú eru aðeins 16 lögreglumenn á vakt. Enn fremur eru dæmi um að vaktir séu svo undirmannaðar að þær fari allt niður í 11 lögreglumenn sem ætlað er að halda uppi löggæslu á svæði þar sem búa 123 þúsund íbúar.

Það er hálfnöturlegt að á sama tíma og margar þjóðir eru að ræða um að styrkja löggæslu og öryggismál er um að ræða gífurlegan samdrátt í löggæslu hér með alvarlegum afleiðingum. Alvarlegt ofbeldi og fíkniefnaneysla hefur farið vaxandi, líkamsmeiðingar hafa tvöfaldast á 10 árum og vaxandi óöryggis gætir meðal borgarbúa sem telja sig ekki óhulta að kvöld- eða næturlagi í borginni, að ekki sé talað um hvað niðurskurðurinn ógnar umferðaröryggi og eykur slysahættu. Grafalvarlegt er líka að 75% aukning hefur orðið á milli ára á ofbeldismálum sem kærð hafa verið en ekki er hafin rannsókn á. Þau mál hlaðast upp og eru nú orðin 350, og mörg þeirra meira en ársgömul. Fjöldi lögreglumanna er hér langt undir því sem lögreglustjórinn sjálfur metur að sé lágmarksþjónustustig við borgarbúa og yfirvinna þeirra lögreglumanna sem eftir standa er skorin niður um 25%. Ég spyr ráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir auknu framlagi til löggæslunnar áður en fjárlög verða afgreidd nú frá þinginu.

Það jaðrar vissulega við að hæstv. ráðherra vanræki embættisskyldur sínar þegar hún lætur þetta ástand viðgangast og þegar hæstv. ráðherra er átalin fyrir þetta er bara hundur í ráðherranum sem vísar eigin vanrækslu og ábyrgðarleysi yfir á borgaryfirvöld. Maður verður hreinlega dolfallinn við að hlusta á að ráðherrann virðist ekki þekkja sína eigin ábyrgð sem yfirmaður lögreglunnar í landinu. Hæstv. ráðherra reynir þess í stað aftur og aftur að væna borgina um að bera ábyrgð á niðurskurði sem ráðherrann hefur sjálf staðið fyrir. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort það sé í samræmi við ábyrgð ráðherrans sem yfirmanns lögreglunnar að vísa ábyrgð á ófremdarástandi í löggæslumálum yfir á borgaryfirvöld.

Það skiptir ekki máli að 170 vínveitingastaðir fengu leyfi frá ríkisvaldinu til reksturs og 20--30 hjá borgaryfirvöldum eftir árið 1998. Það sem skiptir máli er að dómsmrh. og ríkisvaldið en ekki borgaryfirvöld bera ábyrgð á því að eftirliti með vínveitingastöðum er ábótavant. Eða ætlast hæstv. dómsmrh. til þess að borgin láti loka vínveitingastöðum af því að ríkisvaldið sinnir ekki þeim skyldum sínum að halda uppi nauðsynlegri löggæslu í borginni? Hvaða úrræði hafa borgaryfirvöld önnur en skipulagsúrræði sem þau hafa beitt til að takmarka vínveitingastaði? Vill hæstv. dómsmrh. að borgaryfirvöld gangi með óeðlilegum hætti á umráða- og eignarrétt eigenda fasteigna í höfuðborginni, jafnvel þannig að jafnræðisreglan sé ekki virt?

Fróðlegt væri að heyra viðbrögð ráðherrans við frétt í DV í gær um að takmörkun á útgáfu nýrra veitingaleyfa hjá borginni hafi hækkað verð á veitingahúsum í miðbænum. Það gengur þvert á málflutning ráðherrans. Hæstv. ráðherra á að hætta að hengja bakara fyrir smið og taka þess í stað upp samvinnu við borgaryfirvöld um lausn löggæslumála í borginni. Því hefur ráðherrann hafnað og það er ekki í þágu borgarbúa, svo mikið er víst. Það er líka jafnljóst að það er ekki lögreglunni að kenna að hún er lítt sýnileg enda eru lögreglumenn að sligast undan álagi og ræða nú um að grípa til aðgerða vegna þess að samningur sem taka átti gildi 1. október sl. með launahækkun til þeirra hefur ekki gengið eftir. Ég spyr: Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir lausn á þeim málum?

Ég spyr líka: Er ráðherrann reiðubúin, í samvinnu við borgaryfirvöld, að gangast fyrir mati á lágmarksþjónustu fyrir löggæsluna í Reykjavík, mati sem lýtur að löggæslu í miðborginni, hverfislöggæslu, eftirliti með vínveitingahúsum og umferðareftirliti? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að framfylgja ályktun landsfundar Sjálfstfl.? Þar fékk ráðherrann rækilega ofanígjöf því fundurinn ályktaði að styrkja bæri löggæslustofnanir og varaði við að of nærri réttaröryggi borgara landsins væri gengið með sparnaði á vettvangi löggæslu. Loks átel ég ráðherrann fyrir að neita að afhenda mér fjárlagatillögur lögreglustjórans fyrir næsta ár sem knýr mig til að kæra aftur til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Skýringin er sjálfsagt sú að ráðherrann skammast sín fyrir að 35 lögreglumenn og 100 millj. vantar til að halda uppi lágmarksþjónustu á sama tíma og 9 millj. koma á fjárlögum næsta árs til að bæta við tveim lögreglumönnum.

Ég hef lagt spurningar fyrir ráðherrann sem ég vænti að hún svari við þessa umræðu.