Löggæslan í Reykjavík

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 13:46:43 (744)

2001-10-18 13:46:43# 127. lþ. 15.95 fundur 80#B löggæslan í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[13:46]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Það verður að segjast eins og er að það er allt að því grátbroslegt að fylgjast með þeirri pólitísku orðræðu sem hefur átt sér stað að undanförnu um löggæslumál í Reykjavík, ekki síst með dómsmrh. í broddi fylkingar. Sjálfstæðismenn eru greinilega slegnir algerri blindu og gera ekki greinarmun á hagsmunum borgarbúa og eigin pólitísku hagsmunum sem felast í því að koma höggi á Reykjavíkurlistann. Er það virkilega svo að hæstv. dómsmrh. vilji gera allt sem í hennar valdi stendur til að þurfa ekki að bera ábyrgð á löggæslumálum í Reykjavík? Hvað skyldu lögin segja og hvar er nú öryggi borgaranna sem ályktað er um á hátíðarstundum? Það á að vera í fyrirrúmi, alveg óháð pólitík.

Það hefur meira að segja gengið svo langt að hæstv. dómsmrh. telur að Reykjavíkurborg eigi sjálf að kosta til viðbótarlöggæslu vegna fjölgunar vínveitingahúsa í borginni. Reykjavíkurborg eigi sjálf að axla ábyrgð á eigin samþykktum. Er þá hæstv. dómsmrh. að lýsa sig samþykka tillögum sjálfstæðismanna sem fyrst komu fram í nóvember 1994 í borgarstjórn og síðan aftur nú frá meiri hlutanum um að staðbundin löggæsla eigi að fara yfir til sveitarfélagsins? Þetta er kannski leið ráðherra til að lýsa þeirri skoðun sinni. Gott ef satt er.

Er sama viðhorf gagnvart Akureyri þar sem fjölgun vínveitingahúsa hefur verið talsverð? Á Akureyrarbær líka að kosta viðbótarlöggæslu og axla sína ábyrgð? Það væri mjög gott að fá svör við því frá hæstv. ráðherra. Ekki veit ég til þess að sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur hafi bókað eða greitt atkvæði gegn nýjum vínveitingastöðum í borginni. Aldrei. Það væri þá saga til næsta bæjar ef sjálfstæðismenn ætluðu að leggja stein í götu einkaframtaksins. Það væri algerlega ný pólitík. Ég hef ekki orðið vör við að þeir hafi verið með sérstaka stefnumörkun í málefnum vínveitingahúsa Reykjavíkur nema að það er bannað að vera fullur á Austurvelli. Það er það eina sem ég hef heyrt.

Líka mætti athuga hvernig úrskurðarnefndin hefur unnið í þessum málum. Ég man aðeins eftir einu dæmi þar sem hún hefur ekki staðið með vínveitingamönnum gegn Reykjavíkurborg og íbúum hennar um að staðir fái ekki leyfi þannig að það er spurning hvort ekki eigi að fara fram einhver önnur skýr stefnumörkun.