Landsvegir á hálendi Íslands

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 14:18:23 (754)

2001-10-18 14:18:23# 127. lþ. 15.7 fundur 47. mál: #A landsvegir á hálendi Íslands# þál., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[14:18]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna því markmiði sem fram kemur í þessari þáltill. Ég tel það skipta ferðaþjónustu miklu, t.d. á Norður- og Suðurlandi að vegir um Sprengisand og Kjöl séu bættir. Það þarf ekki að laga nema um 150 km af Sprengisandsleið, frá efstu bæjum í Bárðardal að góðum vegi sunnan heiða. Kjalvegur er nú þegar góður að norðan og allt að Hveravöllum.

Herra forseti. Það skiptir miklu að þessir vegir séu lagaðir. Það er mismunandi verðurfar á Norðurlandi og Suðurlandi og oft er fólk á ferð þar á milli og væri kostur, ef veður eru válynd og leiðinleg, að geta farið á stuttum tíma að norðan og suður eða að sunnan og norður. Það skiptir miklu að auðvelda fólki samgöngur milli þessara tveggja svæða. Ég tel að þessi tillaga, verði hún að veruleika, um að þessir vegir verði bættir mundi efla ferðaþjónustu og væri styrkur jafnt fyrir Suðurland sem Norðurland. Það eru ekki nema 200--300 km á milli ef þessir vegir eru notaðir en annars þarf að keyra 700--800 km á milli þessara landshluta.