Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 14:50:34 (757)

2001-10-18 14:50:34# 127. lþ. 15.5 fundur 39. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af orðum hv. þm. vil ég segja þetta: Það er einsdæmi hér á landi svo að ég viti til að það sé bannað að keppa í ólympískri grein. Við erum þátttakendur í Alþjóðaólympíusambandinu og ég veit ekki til að við bönnum aðrar greinar sem eru stundaðar á Ólympíuleikum.

Svo er þetta sem maður heyrir um að ofbeldi muni aukast í miðbæ Reykjavíkur. Eru menn hér að fara að stunda íþróttir til að læra að slást í miðbæ Reykjavíkur? Þetta er alveg ótrúlegur málflutningur. Ég hugsa að ofbeldið hér í Reykjavík gæti frekar minnkað með tilkomu þessarar íþróttar. Ég sé bara engan mun á því. Það eru hundruð einstaklinga sem stunda þessa íþrótt í dag. Eru þeir að fara að berja menn niðri í miðbæ? Ég hef ekki orðið var við það. Menn sem stunda þessar sjálfsvarnaríþróttir eru ekki í því að fara niður í bæ og lemja náungann. Þetta er alveg ótrúlegt. Það er líka alveg ljóst að fólk hér í miðbæ Reykjavíkur mun ekki hætta að slást en það er ekki hægt að klína því á það að ólympískir hnefaleikarar séu þar á ferðinni eða þeir sem stunda karate eða taekwondo eða hvað þetta heitir allt saman. Ég held að svona sé ekki hægt að alhæfa þannig að ég vísa þessu alveg heim til föðurhúsanna.

Ég fullyrði að það er algjört einsdæmi að hér sé sérstaklega bönnuð ólympísk keppnisíþrótt. Ég vona að við berum gæfu til þess á þingi að leiða þetta mál til lykta og leyfa ólympíska hnefaleika og fara úr forsjárhyggjunni yfir í eðlilega hugsun.