Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 15:25:05 (769)

2001-10-18 15:25:05# 127. lþ. 15.5 fundur 39. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir málefnalega umræðu í þetta skipti um þetta mál, ólympíska hnefaleika. En hvers vegna við erum ekki að leyfa atvinnumannabox og það sé forsjárhyggja --- það er alveg ljóst að það er hættuleg íþrótt, mjög hættuleg íþrótt. Og það held ég að allir viti sem á það horfa og fylgjast með og hafa upplýsingar um meiðsli í þeirri grein. En eins og ég hef margrakið hér úr þessum stól eru meiðsli í íþróttum mismunandi tíð og spurningin er hvenær á að banna það og hvenær ekki. En það er alveg ljóst að ólympískt box er meðal þeirra íþróttagreina sem í eru hvað minnst meiðslin. Hvers vegna eigum við að banna það? Er það út af einhverjum gömlum málum sem eru óupplýst, og öllu ruglað saman þar sem menn voru hér með atvinnuhnefaleika?

Ég náttúrlega fagna því mjög ef konur fara að stunda þessa íþrótt. Sem betur fer, fyrir okkur karlmennina, hangir ekkert neðan beltisstaðar á konum en það er alveg ljóst að það gerir það ofan mittis.