Milliliðalaust lýðræði

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 17:01:11 (788)

2001-10-18 17:01:11# 127. lþ. 15.13 fundur 144. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[17:01]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. var að tala um frumvörp sem Samfylkingin ætlaði að leggja fram, m.a. um það að gera landið að einu kjördæmi. Þess vegna kom ég nú með þessa fyrirspurn til hv. þm. en ég veit að hann er hér út af allt öðru máli.

Ég ætla ekki að leggja dóm á það sem hv. þm. sagði, hvort ætti að kjósa bæjarstjóra beinni kosningu og um ýmislegt annað á netinu eða hafa almennar kosningar mjög tíðar og þá á netinu. Ég er alveg sammála því að það væri vel hægt að nota netið til að afla sér vitneskju þannig að fólk geti myndað sér skoðanir á ýmsum málum sem upp koma hér hjá fulltrúum þess á Alþingi. Það mætti eflaust þróa einhverjar aðferðir til þess.

Ég get alveg séð fyrir mér, herra forseti, að það mætti auka fulltrúalýðræðið og völd þess mjög umfram það sem nú er með því að aðskilja löggjafarvald og framkvæmdarvald. Ég held að það hafi sýnt sig í gegnum árin að þegar löggjafarvaldið er svo nátengt framkvæmdarvaldinu þá er erfitt að skilja þar á milli og völd framkvæmdarvaldsins yfir þingflokkunum er ótvírætt mjög mikið. Það er kannski óæskilega mikið og torveldar mjög aðkomu þingmanna oft og tíðum að umræðum sem væru nauðsynlegar.

En ég fagna hins vegar tillögunni sem hér er til umræðu. Mér finnst það mjög gagnlegt og ánægjulegt að hún skyldi borin fram af þessum unga þingmanni.