Svæðisskipulag fyrir landið allt

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 17:37:44 (795)

2001-10-18 17:37:44# 127. lþ. 15.15 fundur 157. mál: #A svæðisskipulag fyrir landið allt# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[17:37]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við ræðum till. til þál. um gerð svæðisskipulags fyrir landið allt. Þessi tillaga er virkilega þörf. Eins og komið hefur fram í máli hv. þm. sem tekið hafa undir ræðu flutningsmanns, hv. þm. Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur, þá er þetta mál sem er ekki seinna vænna að taka á.

Vissulega er kveðið á um það í skipulags- og byggingarlögum að landið allt sé svæðisskipulagsskylt og að það eigi að vera búið að svæðisskipuleggja það fyrir, ef ég man rétt, 2008. Í skipulags- og byggingarlögum er líka kveðið á um áætlanir um landnotkun á landsvísu. Eitt nýtt mál er nú að koma inn á borð hv. umhvn. varðandi umhverfismat skipulagsáætlana þannig að alveg ljóst er að þessi mál eru í mjög mikilli deiglu.

Það hefur verið rætt á Alþingi í tengslum við fjárlög að Skipulagsstofnun hafi skort fjármagn, hafi skort fjárveitingar frá hinu opinbera til þess að standa undir því starfi við áætlanagerð sem þó er lagt á Skipulagsstofnun samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Þingmenn hafa gert athugasemdir við að þannig skuli nú haga málum að áætlanagerð skuli vera látin sitja á hakanum eins og raun ber vitni þegar fjárveitingar eru annars vegar. Því er alveg ljóst að hv. þm. Ólöf Guðný Valdimarsdóttir hittir naglann á höfuðið með þessari tillögu.

Það er sannarlega tímabært að tekið verði vel til hendinni og þessum málum verði komið í það horf að við sjáum að áætlanir verði gerðar sem hægt er að vinna eftir. Við verðum líka að bíta í það súra epli, herra forseti, að það að gera áætlanir kostar peninga. En það eru líka fjármunir sem er vel varið því hvernig eigum við að stýra svo stórum málaflokki sem skipulagsmálum ef ekki eru settir fjármunir í áætlanagerð? Framsýni tilheyrir áætlanagerð.

Ég fullyrði því, herra forseti, hér er framsýn tillaga á ferðinni, tillaga sem styður það að gerðar séu langtímaáætlanir sem er auðvitað hin skynsamlega leið til að taka á stórum málaflokkum í stjórnsýslunni. Ég lýsi því yfir, herra forseti, að þegar þessi tillaga kemur til umfjöllunar í hv. umhvn., kem ég til með að leggja henni lið og sjá til þess að hún fái skjóta umfjöllun, svo skjóta sem hv. formaður umhvn. leyfir, því að við skulum ekki geyma því, herra forseti, að það hefur verið við ramman reip að draga að koma þingmannamálum í gegnum nefndir. En hv. þm. Ólöf Guðný Valdimarsdóttir nýtur þess þó að vera í Framsfl. sem er kannski í þessu tilfelli réttur flokkur. Það vona ég.