Stofnun þjóðgarðs um Heklu og nágrenni

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 18:09:30 (805)

2001-10-18 18:09:30# 127. lþ. 15.16 fundur 158. mál: #A stofnun þjóðgarðs um Heklu og nágrenni# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[18:09]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Já, mönnum hitnar í hamsi og þeir fara með ljóð þegar landsvæði sem fólk tengist tilfinningalegum böndum er til umfjöllunar á háu Alþingi og það ber að skilja og bera virðingu fyrir því.

Hins vegar er ég ekki viss um að ég þori að hæla eða mæra þá tillögu sem hér liggur fyrir, þar sem hún er því miður flutt, herra forseti, af framsóknarþingmanni. En ég ætla samt að leyfa mér það. Ég verð þá bara að taka við skothríð frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni á eftir ef svo ber undir.

Um þessa tillögu sem er svo sannarlega af hinu góða vil ég segja, herra forseti, að ég hugleiddi þegar ég las hana hvort hér væri ekki bara hugsað full smátt, minnug þeirrar umræðu sem hefur farið fram um svokallaða sýnishornanáttúruvernd. Nú eigum við mörg friðlönd. Við vitum öll sem hér erum í sal hversu erfiðlega hefur gengið að halda þeim úti og reka þau svo sómi sé að. Í því máli höfum við verið að beita okkur hér einhver í öllu falli, við að reyna að fá úrbætur. Hér hefur líka verið fjallað á undanförnum tveimur árum talsvert um þjóðgarða og sú sem hér stendur hefur tvisvar sinnum flutt tillögu úr þessum stóli varðandi þjóðgarð og í bæði skiptin var sú tillaga að sjálfsögðu svæfð í nefnd.

En varðandi það að hugsa stórt þá held ég að það sé fyllilega tímabært að skoða möguleikann á umtalsverðum þjóðgörðum á hálendi Íslands. Í því sambandi langar mig til að minna á tillögu sem var lögð fram hér af hv. fyrrv. þm. Hjörleifi Guttormssyni á 122. löggjafarþingi, og gott ef ekki endurflutt síðar, á 123. löggjafarþingi, þar sem lagt var til að stofnaðir yrðu nokkrir þjóðgarðar á hálendi Íslands (Gripið fram í: Fjórir.) Já, nánar tiltekið fjórir þjóðgarðar, sem mundu þá hafa innan sinna marka helstu jökla og aðliggjandi landsvæði. Það má til sanns vegar færa að þessi tillaga sem hv. fyrrv. þm. Hjörleifur Guttormsson flutti hafi í raun endað í þeirri tillögu sem samþykkt var á Alþingi, að stofna Vatnajökulsþjóðgarðs. Við vitum öll að við stöndum frammi fyrir því að það verður gert að öllum líkindum og vonandi á næsta ári.

En það þýðir ekki að láta deigan síga og hér við sitja því baráttan fyrir stórum þjóðgörðum á miðhálendi Íslands er þess virði að við heyjum hana af afli.

Ég hef efasemdir um að Hekla sem eitt lítið fjall í þessu samhengi virki sem sá öflugi þjóðgarður sem ég held að við höfum þörf fyrir á hálendinu. Vil ég þess vegna koma hér með tilvitnun í greinargerð við þá tillögu sem ég nefndi áðan þar sem fjallað er um Mýrdalsjökul og möguleikann á þjóðgarði í kringum Mýrdalsjökul, þar sem hugmyndin var og er að setja Heklu inn í þau mörk. Hv. fyrrv. þm. Hjörleifur Guttormsson orðaði þetta svo í sinni greinargerð, með leyfi herra forseta:

,,Mýrdalsjökulsþjóðgarður. Stærð Mýrdalsjökulsþjóðgarðs er áætluð um 3.100 ferkílómetrar. Innan hans lægju Mýrdalsjökull með skriðjöklum, svo og Eyjafjallajökull, Torfajökull og Tindfjallajökull. Eðlilegt væri að Friðland að Fjallabaki yrði innan þjóðgarðsins. Þá er gert ráð fyrir að náttúruverndarsvæði við Heklu, svo og Emstrur og Fjallabak, yrðu hluti af þjóðgarðinum, sem og Þórsmörk og Eldgjá sunnan Fjallabaksvegar nyrðri.``

Hér er hugsað á nótum sem mér falla betur en í þeirri tillögu sem nú liggur fyrir. Ég vil því hvetja til þess í þessari umræðu og þeirri umræðu sem á eftir að fara fram vonandi í hv. umhvn. um þessa tillögu, að við víkkum út mörkin, að við tökum stærra skref, tökum skrefið til fulls og stofnum Mýrdalsjökulsþjóðgarð, 3.100 ferkílómetra þjóðgarð sem yrði einn af fjórum stórum þjóðgörðum á hálendi Íslands. Ég held að fullt tilefni sé til þess. Ég held reyndar að það liggi á. Ég held að það bráðliggi á, því ef við skoðum allar þær framkvæmdahugmyndir sem virðast vera í farvatni framkvæmdaglaðra fyrirtækja og stofnana, þá eru þær geysilega miklar, ekki bara í vatnsaflinu sem við þekkjum hér öll og þarf ekki að hafa um fleiri orð um heldur ekki síður í jarðhitanum. Viðkvæm jarðhitasvæði, háhitasvæði á borð við Torfajökulssvæðið, kunna að vera í hættu ef við lokum ekki þessum svæðum fyrir hugmyndum framkvæmdamanna og stofnum öfluga, risastóra þjóðgarða, sem yrðu þjóðgarðar á heimsmælikvarða sem við gætum öll verið stolt af og gætu fleytt okkur inn í framtíðina, bæði tilfinningalega, sem hamingjusamri þjóð og líka ekki síður efnahagslega því efnahagslegt gildi þjóðgarða er orðið óumdeilt.