Átak til að lengja ferðaþjónustutímann

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 18:17:48 (807)

2001-10-18 18:17:48# 127. lþ. 15.9 fundur 139. mál: #A átak til að lengja ferðaþjónustutímann# þál., Flm. KVM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[18:17]

Flm. (Karl V. Matthíasson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um markvisst átak til að lengja ferðaþjónustutímann á Íslandi. Ásamt mér flytja þessa tillögu hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson, Kristján L. Möller, Margrét Frímannsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Einar Már Sigurðarson, Björgvin G. Sigurðsson, Sigríður Jóhannesdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra í samráði við Ferðamálaráð, Byggðastofnun og Samtök ferðaþjónustunnar að hrinda af stað markvissu átaki til að lengja ferðaþjónustutímann á Íslandi svo nýting gistirýma og annarrar þjónustu við ferðamenn aukist til muna. Sérstaklega skal tekið tillit til landsbyggðarinnar í þessu máli þar sem ferðaþjónusta er mun minni yfir vetrartímann en hún gæti orðið, miðað við þá aðstöðu og möguleika sem fyrir hendi eru.``

Herra forseti. Staða ferðaþjónustunnar sem sjálfstæðrar atvinnugreinar hefur verið að styrkjast undanfarin ár. Þróun þessa atvinnuvegar hefur verið mjög jákvæð og ef við horfum nokkur ár aftur í tímann, t.d. til fyrri hluta áttunda áratugarins, þá voru mjög fáir ferðaþjónustubæir á Íslandi. En um það leyti sem sá áratugur byrjar fara menn að tala um að það gæti verið góð aukabúgrein hjá bændum að að bjóða ferðamönnum inn á sveitabæi og fylgjast með starfi þeirra sem þar búa, því starfi sem fylgdi landbúnaðinum og fylgir. Reyndar er það svo að í dag hafa mörg bændabýli aðstöðu til að bjóða ferðamönnum gistingu sem er þeim til ánægju og tekjuauka.

Þróunin hefur líka verið nokkuð ör í þessari grein og kröfurnar hafa aukist. Samfara því hefur verið lagt út í meiri aðstöðu og jafnvel miklar byggingar í kringum þetta. Þróun greinarinnar hefur líka verið sú að menn hafa jafnvel notað útihús og breytt þeim í aðstöðu fyrir ferðamenn. Í framhaldi af því hafa komið upp hótel sem hafa kostað mikla peninga. Eins og ég segi hefur ferðamennskan aukist og þau hafa nýst vel yfir sumartímann. Það hefur verið ágæt nýting í mörgum tilvikum yfir hásumarið en hið sama verður ekki sagt um vetrartímann, eða haust og vor.

Af þeim sökum hafa þessi fyrirtæki átt í nokkrum erfiðleikum, þau hafa verið skuldsett og það hafa verið erfiðleikar hjá hótelum á landsbyggðinni, t.d. vegna þess að lánasjóðir hafa heldur ekki verið nógu góðir við þessa grein, hafa ekki stutt nógu vel við ferðaþjónustuna og ferðaiðnaðinn í landinu. Erfitt er að fá lán til hótela og slíkrar starfsemi og þau eru líka til skamms tíma, miðað við þann tíma sem fjárfestingin á að nýtast. Hugsum okkur hótel sem reist er í dag. Hve mörg ár á að vera hægt að nýta það? Við svörum því í huganum: Það á að vera hægt að nýta það í áratugi.

Ég held að engin lánastofnun láni til hótelbygginga eða hótelframkvæmda í meira en 10--15 ár. Þetta er mjög alvarlegt mál, sérstaklega með tilliti til þess að þessi grein er farin að afla gífurlega mikilla gjaldeyristekna og kemur í raun og veru næst á eftir sjávarútvegi, ef við t.d. miðum við hagtölur frá árinu 2000. Þar er sjávarútvegurinn stærstur og næst kemur ferðaþjónustan sem sjálfstæð atvinnugrein, að undanskildum liðnum aðrar greinar, en þær eru fjölmargar í iðnaði og margs konar öðrum útflutningi og annarri starfsemi sem gefur gjaldeyristekjur. En tekjur af erlendum ferðamönnum hafa farið sívaxandi.

Það hefur verið ánægjulegt að sjá hvernig Reykjavíkurborg hefur blómstrað í þessu tilliti yfir vetrartímann líka með ráðstefnum og öðru. Engu að síður hefur það líka komið fram, sem bendir enn á það að við erum ekki alveg nógu vakandi í þessari atvinnugrein, að það er mikill skortur á ráðstefnuhúsnæði í höfuðborginni og menningarhúsnæði úti um land sem mundi styrkja þessa grein ferðaþjónustunnar, þ.e. að fá ýmsa hópa, félög eða fyrirtæki, til að koma hingað og halda ráðstefnur.

Það hafa verið blikur á lofti síðustu dægrin í ferðamennskunni. Við höfum séð, í framhaldi af þeim voðaverkum sem unnin voru í New York 11. sept., mikinn afturkipp í flugi. En það sem við þurfum að gæta okkar á í þessu er að fyllast ekki bölsýni og svartsýni. Við þurfum frekar að vera bjartsýn. Við þurfum að leggjast á árar og auglýsa landið okkar af miklum krafti og benda á þá möguleika sem landið okkar býður upp á. Þessa dagana er staðan þannig á hótelum víða um land þannig að á fjölda þeirra er nýtt jafnvel aðeins eitt herbergi af 20 eða 30. Þá eru bara einn, tveir gestir í þeim hótelum núna. Ég spyr: Er ekki hægt að gera eitthvað til þess að þessi nýting verði meiri og betri? Ég er fullviss um að það sé hægt. Eða hvernig stendur á því t.d. að ferðamönnum hefur fjölgað svo mjög á síðustu árum, eins og ég hef áður getið? Það er einmitt vegna þess að landið hefur verið markaðssett. Landið hefur verið auglýst, en sérstaklega hefur það verið auglýst með tilliti til fegurðar sumarsins. Hins vegar hafa ekki verið auglýstir þeir möguleikar sem veturinn býður upp á.

Ég minnist þess að ég var staddur á bæ einum í febrúar sl. þar sem starfrækt var ferðaþjónusta. Á þennan bæ komu 20 japanskir ferðamenn. Og hvað voru þessir ferðamenn að gera í febrúar á Íslandi? Þeir voru komnir hingað til þess að horfa á norðurljósin. Það var meginástæða fyrir því að þeir komu. Landið hafði verið auglýst: Komið og sjáið norðurljósin í norðrinu á Íslandi. Það þarf oft ekki mjög mikið til þess að kveikja áhugann og glæða hjá ferðafólki og að fá fólk til að koma.

Ég var á ferð um Vestfirði fyrir fáeinum dögum og gisti í Bjarnarfirði á Ströndum þar sem mjög dugmikið og jákvætt fólk hefur komið upp svokallaðri galdrasýningu. Það er komið galdrasafn í Hólmavík. Þetta hefur verið mikil lyftistöng fyrir byggðarlagið og ýtt undir ferðaþjónustu. Skemmst er að minnast hinnar miklu og ágætu samkomu hjá þeim í kringum 12. ágúst sl. þar sem Megas og hljómsveitin Sigur Rós og fleiri góðir listamenn komu fram, fjöldinn allur af fólki. En núna á þessari stundu eru mjög fáir gestir þar á hótelinu í gamla Klúkuskóla. Þetta er hægt að bæta. Það verður að gera með með auglýsingaherferð til að kynna þá möguleika sem Ísland býður.

Við gætum líka sagt: Ísland er land friðar og kyrrðar. Hversu margir mundu ekki vilja koma til okkar ágæta lands og njóta friðarins og kyrrðarinnar, eins og ég naut í Bjarnarfirði á Ströndum nú fyrir fáum dögum. Við sem þarna vorum á ferð ókum líka fram hjá ágætum ferðaþjónustubæ, Bæ í Steingrímsfirði í Kaldrananeshreppi. Þar er mjög fallegt og gott að koma og þangað er fólk líka farið að sækja. En til þess að jaðartíminn verði betur notaður þarf að láta vita af því að þar sé pláss og að fólk geti komið þangað til að eiga hér góðar stundir á okkar landi.

Auðvitað kostar þetta peninga --- miklar fjárhæðir. Í dag hafa verið lagðar fram nokkrar tillögur sem gera náttúrlega ráð fyrir ýmsum fjárútlátum. En þessi tillaga gerir ráð fyrir því að þessi fjárútlát séu fjárfesting, fjárfesting til þess að afla meiri tekna fyrir þjóðarbúið og til að efla og styrkja atvinnulífið. Þess vegna er þessi þáltill. lögð fram.

Nýlega var lögð fram skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu og hún er mjög góð. Í henni koma fram ágætar tillögur sem mætti nýta í þessu átaki. Ég og meðflutningsmenn mínir erum ekki að leggja fram þáltill. um að stofnuð verði nefnd heldur að hrint verði af stað markvissu átaki til að lengja ferðaþjónustutímann. Ég tel að miðað við þær aðstæður sem nú eru sé brýnt að taka á þessu máli.

Flugleiðir hafa staðið sig mjög vel í að markaðssetja Ísland. Þeir hafa auglýst mjög mikið og sett miklar fjárhæðir í það. Og við megum þakka fyrir það sem þar hefur verið gert enda hefur það komið allri þjóðinni til góða. En ég tel að eins og ástandið er í dag, í öllum þeim samdrætti sem orðið hefur, beri samfélaginu að koma hér að. Það mundi líka hafa áhrif til bjartsýni, til jákvæðni og eyða þeirri óvissu og þeirri neikvæðu umræðu sem gert hefur vart við sig gagnvart þessari atvinnugrein. Einnig af þeim sökum er þetta lagt hér fram.