Átak til að lengja ferðaþjónustutímann

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 18:32:52 (808)

2001-10-18 18:32:52# 127. lþ. 15.9 fundur 139. mál: #A átak til að lengja ferðaþjónustutímann# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[18:32]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætlaði bara með nokkrum orðum að taka undir þessa merku tillögu, sem ég er reyndar meðflutningsmaður að, og vekja athygli á því að hér er auðvitað verið að fjalla um mjög mikilvægt mál, ekki síst um þessar mundir.

Það er nú svo að á undanförnum árum hefur heilmikið verið gert til að laða ferðamenn til Íslands á svokölluðum jaðartímum, og það hefur borið nokkurn árangur. Undanfarin ár höfum við a.m.k. séð hér í Reykjavík mikinn fjölda af ferðamönnum, t.d. frá Ameríku og Norðurlöndunum, sem hafa jafnvel verið hérna á Austurvellinum og í kringum Alþingishúsið alveg fram undir jól. Þetta fólk hefur verslað mikið t.d. í tískuvöruverslunum í Reykjavík. Ég talaði við ágæta konu sem rekur tískuvöruverslun hér í bænum og hún sagði mér að þessi viðskipti hefðu verið mjög vaxandi undanfarin ár, fólk hefði komið hingað sérstaklega frá Norðurlöndunum til að kaupa tískuvörur, komið hingað eina helgi, og þetta kom mér alveg gjörsamlega á óvart. Hún sagði hins vegar því miður að frá 11. september hefði þetta gjörsamlega fallið niður, fólk sæist varla lengur.

Ég held að við, sem höfum starfa okkar vegna verið á ferð með flugvélunum í haust, sjáum merki þessa. Það er náttúrlega ekki mikið af þessari traffík núna en vonandi bætir aftur í þótt ég sé ansi hrædd um að það verði ekki á þessum vetri. Ef við höfum einhvern tímann þurft að vinna markvisst er það akkúrat núna, til þess að reyna að fá hingað fólk, sérstaklega á jaðartímanum, vegna þess að um er að ræða fólk sem skreppur oft í stuttar ferðir, fjóra, fimm daga kannski, og þessum ferðum er hægt að fresta. Öðru máli gegnir væntanlega um sumarleyfisferðir sem búið er að skipuleggja árið áður kannski og panta ferð fyrir húsbílinn með ferjunni og allt það.

Reyndar liggur fyrir tillaga sem ég rak augun í í öllum bunkanum um að athugað verði með að hafa ferjusiglingar til landsins allt árið. Ef það er unnt held ég að þar sé komin leið til að fá hingað stöðugan straum af túristum sem ferðast á eigin bílum og stoppa þá lengur en þeir ferðamenn sem ég tæpti á áðan.

Svo er annað með haust- og jaðartímaferðirnar. Því miður hefur gengið mjög illa að fá þessa ferðamenn til að fara eitthvað út fyrir Reykjavíkursvæðið. Þeir koma hingað mikið til að eiga skemmtilega helgi í Reykjavík, og það helsta sem þeir geta hugsað sér að fara er kannski að skreppa tvo, þrjá tíma að Gullfossi og Geysi og búið. Annars eru þeir yfirleitt bara hérna á veitingastöðunum og í tískuvöruverslununum eins og ég tók fram áðan. Það þarf náttúrlega að gera sérstakt átak í því að auglýsa þá afþreyingu sem er í boði þannig að fólk komi hingað gagngert til að taka þá framhaldsflug til Húsavíkur eða á einhvern annan stað úti á landi þar sem eitthvað sérstakt og eftirsóknarvert er í boði. Það er t.d. eftirsóknarvert fyrir marga að fá að skjóta fugla þótt það sé náttúrlega ekki hægt að hleypa mörg þúsund manns í það. Og það er eftirsóknarvert að komast á hvers konar veiðar, t.d. sjóstangaveiði. Af þeim erlendu ferðamönnum sem ég hef haft þá ánægju af að fylgja um landið er fátt sem þeir hafa haft jafnmikla ánægju af eins og að komast í sjóstangaveiði. Yfirleitt hafa þeir aldrei upplifað neitt þessu líkt og þykir það alveg óhemju spennandi. Þetta mættum við kannski auglýsa miklu betur og stunda lengur en bara í júlímánuði.

Ég veit að það er vandamál víða um land að ferðamannatíminn er búinn 20. ágúst, eftir það sést varla ferðamaður. Það er auðvitað mjög slæmt mál þegar búið er að leggja mikið fé í mannvirki til að taka á móti ferðamönnum ef þau á bara að nota í kannski einn og hálfan mánuð á ári. Það getur náttúrlega ekki gengið.

Ég verð að segja að ég tel að með því að samþykkja þessa tillögu sem Karl Matthíasson og við fleiri úr Samfylkingunni leggjum hér fram verði hægt að bæta stöðu þessara mála mikið.

Og ég vil minna á það í lokin að það er ekkert svo fráleitt --- ef mesti hrollurinn fer nú úr fólki út af þessum hryðjuverkum --- að hægt verði að fljúga beint til einhverra staða úti á landi eins og t.d. Egilsstaða, bara beint frá t.d. Hamborg eða Dublin, og bjóða upp á einhverja sérstaka afþreyingu tengda ferðaþjónustu. Þá lít ég ekki síst til þessarar menningartengdu ferðaþjónustu sem ég bind miklar vonir við að geti orðið til þess að hjálpa okkur að lengja ferðamannatímann.