Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:56:47 (986)

2001-11-01 11:56:47# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:56]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég skil enn ekki hvað fyrir hv. 5. þm. Austurl., Þuríði Backman, vakir. Hún ræðir um það sem kost við Náttúruverndarráð og þing þess að þar sé breiður hópur hæfra manna. Er eitthvað að því að sá hópur sé breiðari? Hvað er að því? Ég sé ekki að neitt sé að því.

Þegar verið er að tala um það og gera lítið úr því í rauninni með því að segja að tímarnir hafi breyst, að sá starfsandi og sá sjálfsagi sem Eysteinn Jónsson tileinkaði sér sé orðinn úreltur af því tímar hafi breyst, sjónarmið séu önnur eins og hann hafi ekki fylgt nýjum tímum á stjórnmálaferli sínum, þá má auðvitað segja ,,þá var öldin önnur er Gaukur bjó á Stöng``. Það má auðvitað gera lítið úr því.

Aðalatriðið í þessu máli er auðvitað að umhvrh. er með þessum hætti að nýta þá peninga betur sem fara til náttúruverndarstarfa. Því eiga þingmenn að fagna.

Þingmenn eiga í öðru lagi að fagna því að þeir skuli hafa rétt til að sitja slík þing. Þegar talað er um lýðræði, er þá t.d. eðlilegt að sjálfstæðismenn eigi bara rétt á einum fulltrúa á náttúruverndarþingi en vinstri grænir einum einnig? Er það eðlileg niðurstaða? Þangað fer einn af fimm þingmönnum Vinstri grænna. Frjálslyndir fá einn, fyrir tvo, annan þeirra. En Sjálfstfl. með 26 þingmenn fær einn fulltrúa líka. Er þetta eðlilegt þegar verið er að tala um náttúruverndarmál, að loka þannig munninum á stærsta flokki landsins þegar verið er að tala um þessi viðkvæmu og viðurhlutamiklu mál?