Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 12:55:29 (1011)

2001-11-01 12:55:29# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[12:55]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið vegna þeirra frv. sem hér eru á dagskrá. Umræðan hefur aðallega snúist um tvennt, að því er virðist. Í fyrsta lagi: Til hvers erum við yfirleitt að flytja frv.? Hvaða forsendur liggja þar að baki? Eru forsendurnar þær að við ætlum að styrkja náttúruverndina í landinu til framtíðar? Eða eru einhverjar duldar ástæður að baki frv., eins og stjórnarandstaðan hefur svolítið verið að ýja að?

Hér hafa bæði Sjálfstfl. og Framsfl. dregið mjög skýrt fram að forsendurnar eru þær að það á að styrkja náttúruverndina í landinu með þessu frv. verði það að lögum.

Í öðru lagi hefur umræðan snúist um fjármögnun frjálsra félagasamtaka. Hvernig er henni háttað? Er hún eðlileg? Má bæta hana? Er verið að veita fé til frjálsra félagasamtaka á einhverjum annarlegum forsendum, er t.d. fremur veitt fé til samtaka sem eru stjórnvöldum þóknanlegri en önnur?

Ég ætla aðeins að fara yfir þessar tvær megináherslur sem hafa komið fram í umræðunni.

Varðandi forsendur frv. almennt og til hvers við erum að flytja það vil ég í fyrsta lagi segja að það er ekki flutt til þess að stjórnvöld fái minni gagnrýni og að mínu mati er eiginlega ómögulegt að lesa það út úr frv.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson kom inn á það hér að hann teldi stjórnvöld hafa verið hörundsár vegna umræðunnar. Ég mótmæli því og ég kannast ekki við það. Mér finnst umræðan um umhverfismál og náttúruvernd hafa verið mjög eðlileg á undanförnum missirum. Hún hefur verið beitt en hennar var þörf. Ég held að allir sem áhuga hafa á þessum málum hafi haft gott af því að fara í gegnum þessa umræðu. Hv. þm. spurði hvort hið nýja fyrirkomulag sem felst í frv. mundi valda því að hér yrði einhvers konar lognmolluástand. Svo mun ekki verða vegna þess að við ætlum að veita fjármagninu í annan farveg, þ.e. ekki halda uppi Náttúruverndarráði, sem að okkar mati er barn síns tíma og óþarft, heldur ætlum við að nota meginhlutann af þessum 8 milljónum í að styrkja frjáls félagasamtök sem vinna að umhverfismálum.

Það er löngu kominn tími til að taka skrefið sem tekið er með þessu frv. Eiginlega hefði átt að taka þetta skref miklu fyrr. Forsagan er sú að áður fyrr var Náttúruverndarráð mjög mikilvægt og það hélt utan um umræðuna um náttúruvernd í landinu. Þá var það bráðnauðsynlegt. Náttúruverndarráðið gamla er fyrirrennari Náttúruverndar ríkisins. Náttúruvernd ríkisins var eiginlega stofnuð á grunni gamla Náttúruverndarráðsins. Það var bara eðlileg þróun. Við sáum að í þessu samfélagi eins og annars staðar þurfti að vera umfangsmikil stofnun sem sinnti náttúruvernd á Íslandi.

Þegar Náttúruvernd ríkisins var stofnuð þá hefðum við betur lagt niður Náttúruverndarráð hið nýja, sem þá varð til. Náttúruvernd ríkisins hefur það hlutverk að vera stjórnvöldum til ráðgjafar, þ.e. sama hlutverk og Náttúruverndarráð hefur í dag. En Náttúruvernd ríkisins hefur miklu betri aðstöðu til þess enda er sú stofnun orðin umfangsmikil ríkisstofnun. Sem dæmi má taka að við veittum 65,1 millj. kr. af ríkisfé árið 1997 til Náttúruverndar ríkisins, en í ár 124 millj. kr., hvort sem það er í ár eða í fjárlögum næsta árs. Framlag ríkisins til Náttúruverndar ríkisins sem sinnir þessari ráðgjöf fyrir okkur hefur sem sagt næstum verið tvöfaldað. Þannig erum við komin í algjörlega nýtt umhverfi.

[13:00]

Einnig er búið að setja ný lög um náttúruvernd sem ekki voru til hérna áður fyrr. Og það eru komin ný lög um umhverfismat og við höfum fengið sterkari frjáls félagasamtök. Það er því löngu kominn tími til að leggja niður Náttúruverndarráðið, sem er níu manna ráð og á að vera ráðherra til ráðgjafar, vegna þess að við fáum ráðgjöfina annars staðar frá.

Ég hef ekki heyrt hér í umræðunni nógu sterk rök frá stjórnarandstöðunni um það af hverju við ættum að viðhalda Náttúruverndarráði í dag. Af hverju ættum við að gera það? Af hverju eigum við ekki að beina fjármagni í annan og betri farveg sem nýtist betur náttúruvernd í landinu?

Mér finnst að stjórnarandstaðan hafi eiginlega meira og minna talað gegn styrkingunni sem við sjáum fyrir okkur með frv. og þeirri yfirlýsingu sem hér kom úr ræðustóli frá ráðherra um að féð muni að meginhluta til fara til frjálsra félagasamtaka og þykir mér að stjórnarandstaðan hafi ekki skynjað að frv. feli í sér styrkingu á náttúruvernd í landinu.

Hér hefur verið dregið inn í umræðuna að verið sé að bregðast við gagnrýni á Náttúruverndarráð með frv. og það sé meginástæða þess að við viljum leggja ráðið niður, eins og hv. þm. Jón Bjarnason orðaði það. Það er ekki rétt að það sé meginástæðan fyrir því að leggja ráðið niður. Við erum að styrkja náttúruverndina, það er meginástæðan. Hins vegar er innstæða fyrir þeirri gagnrýni sem hér hefur komið fram hjá sumum þingmönnum stjórnarliða. Náttúruverndarráð á að veita ráðherra og Náttúruvernd ríkisins ráðgjöf þó að Náttúruvernd ríkisins sé miklu öflugri stofnun til þess að veita ráðgjöfina sjálf beint til ráðherra.

Ég get nefnt sem dæmi af hverju innstæða er fyrir gagnrýni sem hefur komið fram hjá stjórnarliðum. Ráðgjöfin sem Náttúruverndarráð hefur átt að beina til umhvrh. hefur t.d. borist til ráðherra í gegnum fjölmiðla, það eru til dæmi um það. Náttúruverndarráð ályktar og kallar það ráðgjöf í sumum tilvikum og það er síðan sent til fjölmiðla og svo getur ráðherrann bara hlustað á fjölmiðlana. Þetta er auðvitað ekki eðlilegt að ráðgjöfin sé veitt á þennan hátt. Slík vinnubrögð hafa lagast hjá ráðinu í seinni tíð sem betur fer.

Hér hefur líka verið dregið fram að með þessu sé verið að sýna að við viljum hafa einhver þóknanleg ráð. Það er ekki. Við fáum þessi ráð frá öðrum. Og ég vil nefna það að Náttúruvernd ríkisins mun veita umhvrh. áfram ráðgjöf. Stundum er tekið tillit til þeirrar ráðgjafar, stundum ekki. Ég get nefnt sem dæmi að Náttúruvernd ríkisins veitti okkur ákveðna ráðgjöf varðandi umhverfismat á laxeldi og varðandi kísilgúrnám í Mývatni sem við fórum ekki eftir. Af hverju eigum við að halda uppi ráði þar sem við fáum sömu ráðgjöfina hvort eð er? Það er að mínu mati peningaeyðsla.

Það er því alls ekki þannig að við séum að forðast einhverja gagnrýni, enda blasir við þegar menn skoða það, að með því að styrkja frjáls félagasamtök, þá muni þau fá betri aðstæður til að veita stjórnvöldum aðhald. Heldur einhver að Umhverfisverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Íslands, Landvernd og öll hin minni samtökin muni ekki veita stjórnvöldum áfram aðhald? Ég held að þau geti veitt stjórnvöldum betra aðhald ef þau verða sterkari eins og við ætlum að undirbyggja með þessu frv. Ef eitthvað er, þá verður gagnrýnin háværari í kjölfar frv. vegna þess að þau samtök sem hafa veitt stjórnvöldum aðhald í gegnum að gagnrýna sem er eðlilegt munu hafa meiri grunn að starfa á.

Það er eiginlega fráleitt að halda því fram að þetta frv. eigi að leiða til þess að stjórnvöld fái minni gagnrýni. Það er þveröfugt. Frumvarpið og hin pólitíska yfirlýsing sem hér hefur komið um að við styrkjum frjáls félagasamtök mun leiða til þess að stjórnvöld munu fá beittari og faglegri gagnrýni og meira aðhald.

Varðandi fjármögnunina, þá kom fram áðan hjá hv. þm. Þuríði Backman að Náttúruverndarráð sé nokkurs konar samnefnari frjálsra félagasamtaka. Það er kannski ekki alveg þannig og menn geta lesið það í lögunum að í Náttúruverndarráði eru sumir sem koma frá frjálsum félagasamtökum í gegnum náttúruverndarþingið og eru kosnir þar, en aðrir koma frá stofnunum í landinu og öðrum félagasamtökum sem eru ekki með umhverfisvernd að meginmarkmiði.

Með því að styrkja frjáls félagasamtök á grunni samkomulagsins sem við höfum gert við þau erum við miklu nær því að styrkja einhverja sem eru samnefnarar fyrir frjáls félagasamtök heldur en með því að nota peningana í Náttúruverndarráð sem er annars eðlis.

Ég held það væri mjög þarft fyrir umhvn. þegar hún fer yfir málið hér í framhaldinu að skoða vel samstarfsyfirlýsinguna milli umhvrn. og frjálsra félagasamtaka. Þar kemur skilgreining á því hvað eru frjáls félagasamtök. Þar segir, með leyfi forseta:

,,... er með frjálsum félagasamtökum átt við öll þau samtök sem láta umhverfisvernd til sín taka óháð því hvort umhverfisvernd sé meginviðfangsefni samtakanna.`` Einnig segir: ,,Umhverfissamtök eru þau frjálsu félagasamtök sem hafa umhverfisvernd sem meginviðfangsefni og starfa á landsvísu eða eru svæðisbundin.``

Þarna er verið að skera á milli þess hvað eru frjáls félagasamtök og hvað eru umhverfisverndarsamtök. Það er ekki það sama. Það er munur á því tvennu hér.

Undir liðnum ,,Stuðningur við umhverfissamtök`` segir varðandi fjárhagslegan stuðning, með leyfi forseta:

,,Fjárframlög verða einungis veitt þeim félögum sem eru opin fyrir almennri aðild, starfa ekki í hagnaðarskyni, hafa opið og endurskoðað reikningshald og taka saman ársskýrslur. Slíkir styrkir komi til viðbótar við eigin fjáröflun sem standa skal undir meginhluta starfseminnar.``

Þessi umhverfisverndarsamtök voru með okkur í að útbúa þessa samstarfsyfirlýsingu. Þau vilja ekki fá fjármagn, þannig að þetta séu svona ríkisfélög. Þau vilja vera með megininnkomuna í gegnum aðra fjáröflun en frá ríkinu.

Og hér stendur líka:

,,Umhverfisráðuneytið mun auk þess veita fjármagni til faglegrar uppbyggingar umhverfissamtaka, og frjálsra félagasamtaka sem láta umhverfismál til sín taka, með því að styrkja tiltekin verkefni í samræmi við heimildir fjárlaga hverju sinni.``

Hér er því opið að fjármagn geti farið til einstakra verkefna, bæði til svokallaðra umhverfissamtaka og til frjálsra félagasamtaka, sem eru ekki með umhverfismál sem meginverkefni. Og hér hafa verið dregin inn ýmis ferðamálasamtök og önnur samtök. Þetta er því opin leið fyrir fjölmörg félagasamtök til að komast að samstarfi um verkefni og fá fjármagn fyrir það.

Að sjálfsögðu verður að vera ákveðið mat á því hvernig við veljum þessi verkefni úr. Í þessari yfirlýsingu stendur einnig, með leyfi forseta:

,,Umhverfisráðuneytið mun setja nánari reglur um þennan stuðning í samráði við aðila að samstarfsyfirlýsingunni.``

Það er ekki þannig að umhvrn. ætli að gera þetta bara einhvern veginn. Þetta verður gert í samráði við þessi samtök og það verða gagnsæjar reglur sem menn munu fara eftir. Í dag erum við að fara eftir mjög gagnsæjum reglum varðandi styrkjaveitingar. Það er ekki svo að við séum að velja út samtök sem séu okkur þóknanleg eða ekki. Það eru hin þrjú stóru samtök sem fá mest, það eru Landvernd, Umhverfisverndarsamtök Íslands og Náttúruverndarsamtök Íslands. Hin fá minna. Þau fá þrefalt minna en þessi stóru. Þetta er algjörlega gagnsætt.

Hins vegar hefur ráðherra lið sem heitir Ráðstöfunarfé ráðherra, sem hægt er að veita í alls konar verkefni. Við höfum verið að veita í verkefni eins og GATT-verkefnið, Vistvernd í verki, sem Landvernd er með og annað verkefni sem Landvernd er með í skólum og heitir Græna flaggið. Það er bæði faglegt og pólitískt mat sem kemur að því hvaða verkefni við viljum styrkja og hvaða verkefni við viljum ekki styrkja.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum ítreka að frv. sem við flytjum, þessi tvö sem fylgjast hér að, munu verða til þess að náttúruvernd styrkist í landinu. Umhverfisþingið verður haldið, það verður breiðara og höfðar til breiðari umfjöllunar en náttúruverndarþing, þannig að það er til bóta. Við leggjum niður Náttúruverndarráð og spörum þannig 8 milljónir sem munu fara í annað náttúruverndarstarf. Við erum líka að skoða hvernig við getum styrkt t.d. vernd Breiðafjarðar, hugsanlega er hægt að nota hluta af þeim peningum í það. Alla vega munu allar 8 milljónirnar fara í náttúruvernd, það mun ekkert gufa upp. Við viljum á þennan hátt nýta skattfé borgaranna skynsamar en við höfum áður gert.

Ég vona svo sannarlega að góð umfjöllun verði í umhvn. og menn sameinist um að afgreiða frv.