Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 13:35:32 (1013)

2001-11-01 13:35:32# 127. lþ. 19.3 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[13:35]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um leigubifreiðar sem er að hluta til endurflutningur á frv. sem var flutt á síðasta vetri og var þá til umfjöllunar bæði á þingi og í samgn. en varð ekki afgreitt. Frv. hefur tekið allnokkrum breytingum frá því að það var lagt fram á síðasta þingi og er þar margt til bóta.

Ég vil í upphafi leggja áherslu á að mín skoðun er sú að leigubílaakstur og leigubílaþjónusta sé afar mikilvægur þáttur í almenningssamgöngum og almannaþjónustu. Því er mikilvægt að þessi þjónusta sé bæði örugg og góð og á það ber að leggja alveg sérstaka áherslu en jafnframt að þeir sem þessa atvinnugrein stunda fái búið við eðlilegt og gott starfsumhverfi og einnig persónulegan rétt.

Það sem ég vildi helst draga fram er að ég tek undir þær breytingar sem hér eru lagðar til um að gæði þjónustunnar séu styrkt með heimild um að setja megi gæðastaðla fyrir bíla, útbúnað þeirra og þjónustu. Ég tel það vera ágætt spor.

Það sem ég geri helst athugasemdir við er í fyrsta lagi, herra forseti, að mjög víða í greinum frv. er bara tæpt á atriðum og sagt að síðan skuli nánar kveðið á um þau í reglugerð. Mjög víða er mjög opin heimild til reglugerðarsetninga. Þetta á t.d. við um þennan gagnabanka og gagnaupplýsingar sem Vegagerðin heldur utan um. Hvaða gögn þar skuli vera og hvernig með þau skuli farið er mjög rúmt orðað í lögunum sjálfum enda gert ráð fyrir því að reglugerð kveði nánar á um það. Ég tel að þessi heimild sé nokkuð rúm.

Þá vil ég líka vekja athygli á að leigubílaakstur og leigubílaþjónusta er mikilvægur þáttur í almannasamgöngum í viðkomandi byggðum, viðkomandi sveitarfélögum.

Opnað er á þann möguleika í frv. að Vegagerðin geti framselt umsjón með þessari þjónustu til einstakra sveitarfélaga. Mér hefði fundist, herra forseti, að kanna mætti hvort þessi heimild mætti ekki vera rýmri og ákveðnari þannig að sveitarfélögin hefðu meiri forgang til þess að taka að sér umsjón með þessari þjónustu þannig að Vegagerðin beri hana ekki alfarið eins og frv. kveður á um.

Í frv. er kveðið á um gjaldtöku. Vil ég leyfa mér að varpa fram athugasemdum um gjaldtöku sem þar er lögð til. Í 12. gr. frv. stendur, með leyfi forseta:

,,Greiða skal 13.000 kr. árlegt gjald fyrir hvert atvinnuleyfi sem í gildi er.``

Eins og ég skil þetta ber hverjum leigubílstjóra með atvinnuleyfi að greiða þetta árlega, að þetta sé árlegt gjald. Svo segir í sömu grein, með leyfi forseta:

,,1. Fyrir útgáfu atvinnuskírteina 2.500 kr.

2. Fyrir tímabundna innlögn leyfis 1.000 kr.

3. Fyrir úttekt leyfis 1.000 kr.

4. Fyrir vottorð um gilt atvinnuleyfi vegna bifreiðakaupa 1.000 kr.

5. Fyrir færslu á milli stöðva 1.000 kr.``

Ef allar atvinnugreinar og öll störf eiga að búa við umgjörð sem þessa erum við komin í eitt allsherjarskattheimtukerfi, nýtt kerfi. Að vísu er þetta í auknum mæli að færast í þá átt að innheimta slík leyfisgjöld, en mér finnst hér nokkuð langt seilst og dreg í efa að þessi gjaldtaka sé í samræmi við jafnræði sem atvinnugreinar ættu að búa við. Ríkinu eða hinu opinbera ber að marka ákveðna umgjörð allra atvinnugreina og veita þeim ákveðna grunnþjónustu, enda greiða þær skatta og skyldur til ríkisins. Þess vegna er afar mikilvægt að beinni gjaldtöku af atvinnurekstrinum sjálfum og atvinnugreininni sjálfri sé stillt í hóf.

Því leyfi ég mér, herra forseti, að draga í efa að þarna sé farið fram á jafnræðisgrundvelli við að innheimta slík gjöld af þessum atvinnurekstri og mun óska eftir því í samgn. þar sem ég sit að færður verði meiri rökstuðningur fyrir þessari gjaldtöku. Ég dreg í efa að hún sé eðlileg.

Þá vil ég líka leggja áherslu á, herra forseti, að um persónubundin réttindi eins og orlof, veikindarétt og önnur slík réttindi, lífeyrismál, sé líka þannig búið að þeir sem þennan atvinnuveg stunda búi þar við jafnan rétt og aðrir þjóðfélagsþegnar. Það er ekki komið beint inn á þessi réttindi í frv., aðeins fjallað um hvernig taka megi á undanþágum og hvernig taka skuli á afleysingum í þessari grein, en ég tel einnig mikilvægt að hinn persónulegi réttur þeirra sem vinna þessi störf liggi ljós fyrir.

Herra forseti. Þetta eru þau atriði sem ég vil koma á framfæri við 1. umr. frv. til laga um leigubifreiðar. Frv. fer til meðhöndlunar í samgn. og þar gefst tækifæri til þess að fara ítarlega yfir þau atriði sem frv. kveður á um og fá umsögn og ábendingar frá þeim sem málið snertir. Ég legg áherslu á að leigubílaakstur er afar mikilvægur þáttur í almannaþjónustunni, í almenningssamgöngum. Þess vegna er mikilvægt að þessi þjónusta sé skipulögð með annarri almenningsamgönguþjónustu í landinu.