Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 15:36:51 (1035)

2001-11-01 15:36:51# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[15:36]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Svar hæstv. samgrh. áðan ætti a.m.k. að tryggja að umræðan snúist ekki um sölu á fyrirtækinu og einfaldar umræðuna að mörgu leyti, því hæstv. ráðherra lýsti því yfir að ekki væri ætlunin að selja fyrirtækið, a.m.k. ekki á þessu kjörtímabili, og verður því að skilja svar hans þannig þrátt fyrir að ýmislegt í frv. geri það að verkum að verði það selt yrði allt rekstrarumhverfi þægilegra. En hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að það sé ekki á döfinni og því eðlilegt að nálgast þessa umræðu með þá yfirlýsingu að leiðarljósi.

Það eru nokkur atriði sem ég vil fara yfir. Hæstv. ráðherra gerði ágætlega grein fyrir því að í frv. sem hér liggur fyrir finnast ekki neinar veigamiklar breytingar frá þeim lögum sem nú eru í gildi.

Hæstv. ráðherra fór líka ágætlega yfir það litla sem ætlunin er að breyta og því er kannski ekki ástæða til að halda hér langar ræður um þetta tiltekna mál.

Hins vegar, virðulegi forseti, held ég að rétt sé að byrja á því sem fram kemur í frv. um tilraun til að skilgreina alþjónustu, þar sem hugtök eins og viðráðanlegt verð, grunnkröfur, sambærilegar aðstæður og án mismununar eru sett fram án frekari skýringa. Ég held að mikilvægt sé að slíkir hlutir séu sæmilega vel skýrðir en ekki skildir eftir í lausu lofti. Sá sem hér stendur á sæti í hv. samgn. og mun beita sér fyrir að þetta verði skýrt. En ég held að mjög mikilvægt sé að slíkir þættir séu sæmilega skýrir. Og þeir sem ætla að sinna póstþjónustu viti nokkurn veginn hvað í þessu kann að felast þannig að þeir geti gert áætlanir sínar í samræmi við það.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, hlýtur maður að staldra við þennan einkarétt ríkisins á því að bera út bréf. En ég er sannfærður um að frv., verði það að lögum, mun tryggja eins og núgildandi lög, að bréf muni væntanlega komast skammlaust frá A til B. Því frv. fjallar fyrst og fremst um að tryggja það að sú grunnþjónusta verði í lagi.

Ég held að nauðsynlegt sé að við veltum því fyrir okkur í mikilli alvöru: Hví er nauðsyn á einkarétti á póstþjónustu þegar bréf eru 250 g að þyngd? Af hverju þarf ríkið að hafa einkarétt á því að bera út bréf sem eru 250 g að þyngd eða léttari?

Virðulegi forseti. Hver er munurinn á 249 g bréfum og 251 g bréfum? (Gripið fram í: Tvö grömm.) Það eru tvö grömm og einkaréttur ríkisins.

Ég held, virðulegi forseti, að við þurfum að taka þá hluti til verulegrar umræðu og ekki sé hægt að segja einfaldlega sem svo: Þetta er svona í Evrópusambandinu. Vegna þess að við getum oft og tíðum tekið skref án þess að fylgja þeim í öllum atriðum og jafnvel gengið lengra. Það er ekkert sem mælir á móti því að við göngum lengra en þetta. Ég held að í sjálfu sér, eins og þróun hinna ýmsu fyrirtækja sem taka að sér að dreifa pósti hefur orðið, þá séu þau fullkomlega í stakk búin til að bera út 250 g bréf án þess að einkaréttur ríkisins sé þar hangandi yfir.

Einnig er fróðlegt að sjá þegar menn lesa frv. út frá þessu að einkarétturinn er ekki sterkari en svo að heimilt er að framselja hann. Heimilt er að framselja þann einkarétt að bera út 250 g bréf og minni. Jafnvel er það svo að auðkennið sem sérstakur einkaréttur er á, þ.e. íslenska ríkinu er einu heimilt að nota merkið póstlúður með eða án stjörnu eða örva til kynningar á póstþjónustu, þetta merki er rekstrarleyfishafa sem hugsanlega yrði þá framseldur, sá einkaréttur sem kveðið er á um í V. kafla frv. og lýtur að útgáfu frímerkja, bera út bréf, bera út ábyrgðarbréf, uppsetningu póstkassa á almannafæri og notkun á póstlúðursmerkinu. En allt er þetta framseljanlegt. Og til viðbótar því getur rekstrarleyfishafi, sem falinn hefur verið einkaréttur ríkisins, heimilað aðilum sem starfa í hans þágu að nota auðkennið póstlúður. Sem þýðir þá að rekstrarleyfishafa er síðan heimilt að framselja þetta tiltekna merki.

Þá hljóta menn að spyrja aftur sem svo: Hvers vegna er verið að halda í þennan einkarétt? Hvers vegna er verið að reyna að halda í þennan einkarétt á póstþjónustu? Því miður er í frv. ekki gerð tilraun til þess að reyna að rökstyðja það svo nokkru nemi.

Ég held því, virðulegi forseti, að við þurfum að taka þá umræðu. Og við þurfum að velta því fyrir okkur í mikilli alvöru hvort ekki sé ástæða til að ganga lengra og afnema þennan einkarétt. Því það er einu sinni þannig og kemur fram í frv., að þeir sem fá rekstrarleyfi, þeim sem verður úthlutað rekstrarleyfi, þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði. Þeir þurfa að geta borið út póst o.s.frv. Það eru mjög ákveðin skilyrði.

Ég held, virðulegi forseti, að þau skilyrði dugi ein og sér til að tryggja þá grunnþjónustu, en vera ekki með dálítið kjánalegar yfirlýsingar eða kjánaleg ákvæði í þá veru að ríkið þurfi einhvern sérstakan einkarétt á 250 g bréfum og minni. Eru það tíu handskrifuð bréf? Eða tíu handskrifaðar síður? Um leið og þær verða 11, þá dettur einkarétturinn upp fyrir?

Virðulegi forseti. Ég held að það sé dálítið kjánalegt að hafa þetta svona og mjög mikilvægt a.m.k. ef menn ætla að hafa þetta í lögum að þeir rökstyðji það og geri það vandlega. Því miður er ekki lagt í þá vegferð í frv.

Virðulegi forseti. Ég vil nefna hér annað atriði. Í frv. er kveðið á um svokallað jöfnunargjald sem á sér að einhverju leyti fyrirmynd í lögum um fjarskipti. En í þessu frv. er talað um að jöfnunargjald skuli innheimt af rekstrarleyfishöfum í hlutfalli við bókfærða veltu þeirra á sviði alþjónustu. Hér er hins vegar ekkert kveðið á um hvaða prósentustig um er að ræða. Ég held að mikilvægt sé að farið verði mjög vandlega yfir það hvort ekki þurfi að kveða skýrar á um þetta í frv. svo menn viti með vissu hvað það er sem þeir þurfi að greiða taki þeir að sér svokallaða alþjónustu á póstsviðinu.

Þá er hér í þriðja lagi það sem hæstv. ráðherra kom inn á í síðari hluta ræðu sinnar, svokölluð sértæk póstþjónusta. Það er reyndar nýmæli, eitt af fáum nýmælum í frv., en það er ekki skýrt neitt sérstaklega hvað átt er við annað en að svo virðist vera sem óski samgrh. eftir að lagt sé í framkvæmdir, með leyfi forseta, 29. gr.:

,,Óski samgönguráðherra eftir að lagt sé í framkvæmdir eða sértæka póstþjónustu sem ekki fellur undir alþjónustu en er til almenningsheilla, í öryggisskyni, af umhverfisástæðum eða samkvæmt byggðasjónarmiðum, og ætla má að skili ekki arði skal Póst- og fjarskiptastofnun falið að gera samninga þessu viðkomandi við póstrekanda í kjölfar útboðs.``

Þetta skal síðan fjármagnað úr ríkissjóði.

[15:45]

Hér er með öðrum orðum verið að fá samgrh. heimild til þess að óska eftir því að tiltekin þjónusta skuli innt af hendi og hún fjármögnuð úr ríkissjóði, fjármögnuð af skattpeningum eða skattgreiðslum almennings.

Ég tel, virðulegi forseti, ekki gott að skilja eftir í þeim lögum jafnopna heimild og þessa. Þetta býður upp á að hinir ýmsu ráðherrar, hverjir sem þeir kunna að vera, fari að dunda sér við að koma upp svona gælu- og sérverkefnum og hafa allt að því opna heimild til að fjármagna slíkar hugmyndir úr ríkissjóði. Ég held að þurfi að leggjast miklu betur yfir þessa hugmynd. Ég er sannfærður um að samgn. mun fara mjög vandlega yfir þetta.

Það er ekki einu sinni svo að tryggt sé að þessar hugmyndir samgrh., verði þær að veruleika, nái til verkefna sem rekin eru með tapi því samkvæmt frv. er einungis sett það skilyrði að ef ætla megi að viðkomandi framkvæmd eða viðkomandi aðgerðir sem byggja á þessu skili ekki arði þá megi gera sérstakan samning og fjármagna verkefnið úr ríkissjóði. Ég held, virðulegi forseti, að Alþingi geti einfaldlega ekki skilið þetta eftir með þessum hætti.

Ýmislegt annað er að finna í frv. og flest af því er nánast það sama og er í gildandi lögum, litlar sem engar breytingar. Ég veit ekki betur en að gildandi lög hafi verið ágætur grunnur til að tryggja að fólk fengi sinn póst, að fólk fái sínar sendingar. Ég er sannfærður um að verði frv. að lögum þá muni svo verða áfram.

En ég vil ítreka, virðulegi forseti, að þegar þetta frv. er lesið yfir virðist eini tilgangur þess vera sá að skapa rekstrarumhverfi sem geri það að verkum að þeir sem koma að þessari þjónustu hafi frjálsari hendur um reksturinn. Það virðist líka mega lesa úr þessum greinum, þó að hæstv. ráðherra hafi neitað því áðan, að hér sé verið að skapa betra umhverfi komi til þess að Íslandspóstur verði seldur. Hins vegar hefur hæstv. ráðherra lýst því yfir við þessa umræðu að ekki standi til að selja Íslandspóst og þetta frv. hafi því ekkert með það að gera. Ég held að ekki sé hægt annað en taka mark á þessum yfirlýsingum hæstv. ráðherra. Kannski er það svo að samstarfsflokkur Sjálfstfl., Framsfl., hafi í þessu máli viljað standa í lappirnar og ekki leyfa Sjálfstfl. að selja fyrirtækið. Mér finnst það nú líklegasta skýringin, enda kom fram hjá hæstv. ráðherra þegar hann gaf þessa yfirlýsingu, að taka yrði tillit til annarra en þess sem í sæti samgrh. situr hverju sinni. Líklega hefur ekki verið komist lengra að þessu sinni. En það er þó a.m.k. tryggt að verði fyrirtækið selt þá er lagaumhverfið, verði frv. að lögum, í betri búningi til þess en undir núgildandi lögum.

Virðulegi forseti. Hér er kannski ekki um aðrar stórvægilegar breytingar að ræða. Það hefði dugað, ef menn hefðu haft aðrar hugmyndir en að breyta rekstrarumhverfinu, að koma hér með nokkrar litlar tillögur til að breyta efninu eða einstaka hugtaki. Þessi leið varð aftur á móti fyrir valinu, að koma með ný heildarlög um póstinn, fella úr gildi lög sem ekki eru nema rúmlega fjögurra ára gömul. Það segir okkur það og getur varla þýtt nokkuð annað en að menn eru a.m.k. að opna örlítið á að komi til þess að nýir aðilar komi til samstarfs við hæstv. samgrh. þá sé möguleiki á að selja fyrirtækið.