Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 16:20:13 (1042)

2001-11-01 16:20:13# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[16:20]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason var að minnast á afrek póstþjónustunnar á Suðurlandi. Það er mjög gott að það skuli hafa verið fundin leið í Vík í Mýrdal eins og hann nefndi. Ég verð raunar að biðja hv. þm. um að standa vörð um póstþjónustuna á Kirkjubæjarklaustri, í Þorlákshöfn. Hvernig er hún á Laugarvatni? Hvernig er hún í uppsveitum Árnessýslu, Flúðum? Ég óska eftir því að hv. þm., eins og ég veit að hann gerir, gæti að því að póstþjónustan er einn af grunnþáttum þessa samfélags. Góð póstþjónusta úti um land styrkir samkeppnishæfni byggðanna. Þess vegna er ég alveg reiðubúinn til þess að veitt sé fé á fjárlögum til þess að styrkja póstþjónustu víða um land eftir því sem nauðsyn krefur, enda kveður frv. reyndar líka á um það.