Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 15:11:37 (1160)

2001-11-05 15:11:37# 127. lþ. 21.92 fundur 102#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Meginrök hæstv. ráðherra fyrir því að svara ekki þessari fyrirspurn eru þau að það sé ákveðnum takmörkunum háð hver upplýsingaréttur almennings sé.

Herra forseti. Ég tel þá lagatúlkun sem hæstv. ráðherra notar, og kemur fram í svari hæstv. ráðherra við þessari fyrirspurn, vera mjög vafasama og ég tel hana vægast sagt geta stefnt þingræðinu í hættu þegar það gerist hér æ ofan í æ að líkt er saman upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum annars vegar og upplýsingarétti þingmanna sem telja sig vera að rækja þingskyldu sína um eftirlitshlutverk með framkvæmdarvaldinu hins vegar.

Upplýsingalögin sem snerta upplýsingarétt almennings ná ekki til þingsins og það er, eftir því sem mér sýnist best, af þeim ástæðum að stjórnarskrárvarinn réttur þingmanna til upplýsinga í krafti stöðu sinnar í þinginu er talinn vera fyrir hendi. Þess vegna tel ég mjög vafasamt að líkja þessu tvennu saman og tel það reyndar mjög varasamt þegar sú staða er komin upp trekk í trekk að hv. þm. njóta betri stöðu sem almennir borgarar gagnvart upplýsingalögunum vegna þess að þar hafa þeir þó ákveðið kæruferli, þar hafa þeir ákveðinn rétt og hann er skýr og klár, en upplýsingaréttur þingmanna sem er þó talinn vera stjórnarskrárvarinn réttur þeirra er alls ekki lengur skýr.

Herra forseti. Hæstv. landbrh. vísar til verndar upplýsinga um einkamálefni og er þá væntanlega að tala um hluta af fyrirspurnunum --- en hafi ekki verið unnt að upplýsa um það hverjir keyptu, hvað er þá til fyrirstöðu, herra forseti, að því sé svarað á hvaða verði jarðirnar voru seldar? Ég get ómögulega séð að það sé eitthvað sem varði einkamálefni ef um er að ræða nafnlausar upplýsingar þannig að mér finnst ansi margt hæpið í þessu svari, herra forseti. Ég held, og hef reyndar nefnt það hér áður úr þessum ræðustóli og jafnframt komið þeirri ósk á framfæri með forseta þingsins að það sé kominn tími til að forsn. Alþingis taki upp þessar reglur um upplýsingarétt þingmanna og skoði hvert þær eiga að þróast.