Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 15:28:45 (1169)

2001-11-05 15:28:45# 127. lþ. 21.92 fundur 102#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), BH (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[15:28]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það er dapurlegt að sjá hæstv. landbrh. grípa til ráðs hins rökþrota manns að halda því fram að andstæðingar hans í rökræðu tali gegn betri vitund. Ég vísa alfarið á bug þessum fullyrðingum hæstv. landbrh. og hvet hann til þess að gera þingheimi frekari grein fyrir því hvað hann eigi við með þessu. Ég tel einnig mjög dapurlegt þegar hæstv. landbrh. grípur til þess að segja að lögfræðiálit séu á marga vegu og gefur í skyn að alltaf sé hægt að fá lögfræðiálit fyrir þeirri niðurstöðu sem manni hentar. Það má vel vera, herra forseti, að svo sé. En ég tel það samt sem áður vera svo og get fullyrt það hér aftur og þarf ekki að nota til þess nein fjólublá gleraugu, eins og hæstv. ráðherra er að væna mig um að ég geri, að ég tel þá lagatúlkun sem ég rakti áðan og fram kemur í svari hæstv. landbrh. við umræddri fyrirspurn vera mjög vafasama og ég tel hana vera komna mjög nálægt því að ógna þingræðinu og þeirri hefð sem talin er ríkja í stjórnskipunarrétti og venju að þingið hafi eftirlitshlutverk með framkvæmdarvaldinu. Þetta get ég endurtekið hér og þarf ekki að nota til þess fjólublá gleraugu, herra forseti. Ég tel það reyndar vera svo að sé einhver hér sem talar með fjólubláum augum, þá sé það hæstv. landbrh. Það er skoðun mín.