Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 18:28:06 (1198)

2001-11-05 18:28:06# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[18:28]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er e.t.v. afstaða sem er hægt að skilja en erfitt er að vera sáttur við, sérstaklega við þær aðstæður sem núna eru uppi. Hverjar eru þær?

Gervöll stjórnarandstaðan er reiðubúin til að fara leið sem hv. þm. studdi á síðasta vori. Það blasir líka við að hv. þm. er ekki eini stjórnarliðinn sem er reiðubúinn að kanna þá leið. Það eru fjölmargir aðrir sem hafa gefið sig út fyrir það og e.t.v. nokkur vonarlömb önnur, eins og hv. þm. veit. Við þessar aðstæður ber hv. þm., ef hann vill verða sáttur við kjósendur sína eða sáttur við sannfæringu sína og sjálfan sig, að láta reyna á málið, reyna til þrautar.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þm. að það er kannski síst við hann að sakast. Það hefur komið fram áður að hann hefur með margvíslegum hætti reynt að breyta þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir í frv. sem hér er til umræðu.

Hann upplýsti líka áðan að varðandi þá vinnu sem fram fór í tengslum við endurskoðunina sjálfa innan kvótanefndarinnar ræddi hann við hæstv. sjútvrh. og reyndi að beita sér fyrir tiltekinni lausn sem líklegast hefði verið hægt að ná sátt um þá. En hann ræddi líka við hæstv. utanrrh., formann Framsfl., um slíkt hið sama. Þeir daufheyrðust við þessum bónum.

Það var því ekki við hv. þm. að sakast heldur forustu ríkisstjórnarinnar. Það var bersýnilega ákveðið að ná ekki sátt í málinu. Það finnst mér hið mikilvægasta sem komið hefur fram í dag, að hv. þm., formaður þingflokks Framsfl., hefur upplýst að það var meðvituð ákvörðun formanns Framsfl. og hæstv. sjútvrh. að ná ekki þeirri sátt sem lá á borðinu í þessu erfiða deilumáli.