Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 18:31:11 (1199)

2001-11-05 18:31:11# 127. lþ. 21.2 fundur 191. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókabátar) frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[18:31]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um stjórn fiskveiða á þskj. 202, 191. máli.

Hér hefur átt sér stað löng umræða um mál sem snýr að nákvæmlega sama efni. Ég mun því reyna að stytta mál mitt um efni þessa frv. en verð þó auðvitað að víkja að nokkrum atriðum sem rætt hefur verið um fyrr í dag, sérstaklega þeim sem eru verulega frábrugðin frv. sem sjútvrh. mælti fyrir og við höfum hér rætt bæði á föstudag og í dag.

Af því sem er öðruvísi í frv. okkar hv. þingmanna, Karls V. Matthíassonar og Árna Steinars Jóhannssonar, sem eru meðflutningsmenn að þessu frv. ásamt mér, ber fyrst að nefna að við leggjum til að horfið verði frá lagasetningunni sem tók gildi 1. september og að aftur verði tekið upp þorskaflahámark sem varanleg stýringaraðferð á veiðar svokallaðra krókabáta. Þar af leiðandi leggjum við til að krókaaflahlutdeildin verði felld niður og í stað þess að í frv. ráðherrans er gert ráð fyrir þremur veiðileyfum gerum við ráð fyrir fjórum. Við gerum sem sagt ráð fyrir veiðileyfi með aflamarki, kvótakerfinu svokallaða, sem við erum ekki beint að ræða hér heldur eingöngu veiðar smábátanna. Við leggjum hins vegar einnig til að veiðileyfin verði: veiðileyfi krókabáta á sóknardögum; veiðileyfi krókabáta á sóknardögum með þorskaflahámarki, þ.e. 40 dagar og 30 tonna þorskaflahámark; og hins vegar veiðileyfi krókabáta á þorskaflahámarki eins og verið hefur.

Það er alveg rétt sem komið hefur fram í máli margra manna um frv. sjútvrh., að sá kafli laganna sem varðar smábátana sérstaklega er orðinn mjög flókinn í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða. Það er búið að margbreyta þessum ákvæðum um stjórn fiskveiða og margsetja inn ýmis bráðabirgðaákvæði í gegnum tíðina út og suður varðandi það sem snýr að veiðum þessa flota.

Frv. sem ég mæli hér fyrir er hins vegar þannig byggt upp að því er skipt í þrjár greinar, sem yrðu þá 6. gr., þ.e. 6. gr. a og 6. gr. b.

Í a-lið frv., sem við leggjum hérna til, er gert ráð fyrir þorskaflahámarksbátunum og gerð grein fyrir því við hvaða aðferðir þeir ættu að búa. Ég vek sérstaka athygli á því að við leggjum til að það verði ekki kvótasetning á þorskaflahámarksbátana í öðrum tegundum en þegar hefur verið gert, sem var þorskurinn fyrir 1. september. Þær tegundir sem við bættust, ýsa, ufsi og steinbítur, verði aftur teknar út úr kvótakerfi þorskaflahámarksbátanna.

Í staðinn leggjum við til að inn í þorskaflahámarkskerfið komi takmörkun á línulengd á hverjum sólarhring, þ.e. 24 balar með 500 krókum, sem hver bátur megi róa með. Við setjum inn sóknartakmörkun í þorskaflahámarkskerfið í þeim tilgangi auðvitað að það virki sóknarhamlandi og takmarki afla þeirra. Við teljum að m.a. með þessari útfærslu megi hafa áhrif á það að ýsuaflinn haldi ekki áfram að aukast ár frá ári. Við erum alveg sammála um að það sé mun eðlilegra, sjálfsagðara og miklu einfaldara að útfæra sóknartakmarkanir í veiðikerfi aflahámarksbátanna og hafa þannig áhrif á afkastagetu en menn hafi áfram það frelsi sem þeir höfðu í þorskaflahámarkskerfinu. Við teljum að með þeirri aðferð muni tryggt að áfram verði þróun í þessu kerfi. Það mun þjóna hagsmunum byggðanna eins og reyndar hefur verið á undanförnum árum. Það sést best á því að t.d. á Vestfjörðum, þar sem þorskafli hefur minnkað nánast um helming í stóra kerfinu hafa sjómenn náð fótfestu með því að eignast smærri báta í þorskaflahámarkskerfinu og í sóknardagakerfum smábátaflotans. Það hefur í raun bjargað atvinnuástandi í byggðunum og veitt fólki að nýju dálitla öryggiskennd og trú á að byggðirnar geti haldið velli.

Ég tel að frv. ráðherrans, eins og það hefur verið kynnt hér og við höfum rætt í tvo daga, nái ekki þessum tilgangi. Þess vegna leggjum við í stjórnarandstöðunni þetta fram.

Við gerum jafnframt ráð fyrir að í 6. gr. verði ýmis ákvæði um úreldingu og annað sem var inni í lögunum fyrir 1. september. Við höldum því inni og við höldum inni því hlutfalli sem dregið var frá í afla þorskaflahámarksbátanna, þ.e. 3.000 tonn af ýsu, 3.000 tonn af steinbít og 1.000 tonn af ufsa, sem yrðu dregin frá áður en til úthlutunar kæmi og áður en til veiðileyfa kæmi í aflakerfi smábáta undir sex tonnum. Annar afli yrði ekki dreginn frá í aflamarkskerfinu og mundi þar af leiðandi ekki minnka afla í aflamarkskerfi aflamarksbátanna heldur aðeins þau tonn sem við hér höfum talið upp, öfugt við það sem er í frv. ráðherrans þar sem viðbótin er tekin úr aflamarkskerfinu að hluta.

Síðan er það b-liður 6. gr. sem tekur á öllum atriðum sem taka þarf á varðandi 23 daga bátana. Þar er sagt til um hvaða hlutdeild eigi að vera í þessu kerfi miðað við lágmarkið, 21.000 tonn, eins og það var sett í lög nr. 83/1995, og gerir ráð fyrir veiðileyfi sem heitir veiðileyfi krókabáta, með 23 dögum.

Það er líka nýmæli sem við setjum inn í þessa grein, varðandi dagabátana, að mæla skuli sóknardag eða hluta úr sóknardegi frá því að skip heldur úr höfn og þangað til það kemur aftur í höfn. Við teljum það réttlætismál að slíkt fyrirkomulag verði í dagakerfinu og að sóknin mælist í klukkustundum. Þetta getur auðvitað þýtt að þessir 23 dagar sem menn eiga til að veiða verði til þess að þeir fari ekki 23 róðra, eins og lengstum hefur verið í þessu kerfi. Róðrarnir gætu allt eins orðið lengri, menn kysu kannski að teygja úr þessum tíma upp í 30 tíma eða eitthvað slíkt eða einn og hálfan sólarhring. Það gæti líka verið að menn kysu að vera aðeins 12 eða 14 tíma á sjó og gætu jafnvel farið fleiri róðra en 23. Við vekjum hins vegar athygli á því að eftir því sem ferðunum fjölgar fer meiri tími hjá þessum bátum í siglingu að og frá landi. Mér finnst því oft ofgert þegar rætt er um að ef tekin væri upp tímamæling þá þýddi það aukna sóknargetu. Ég er alls ekki sammála þeirri túlkun vegna þess að ég held að mikill hluti tímans færi þá í að sigla að og frá landi og það telst þá sjósókn sem ekki er varið til veiða. Þar fyrir utan vita allir að í þessu 23 daga kerfi hafa menn notað allar aðferðir sem þeim hafa hugkvæmst til að halda sig innan sólarhringsins í stað þess að með svona útfærslu skipti ekki máli hvort róðurinn yrði 24 tímar, 25 eða 26. Þar mundi mælingin gilda og þar af leiðandi gæti vinnulag í þessu kerfi batnað. Að öðru leyti eru ákvæðin óbreytt frá því sem þau voru áður sett inn í lög.

Í c-lið frv. er fjallað um veiðileyfi þeirra báta sem hafa róið í 40 daga og verið með 30 tonna þorskaflahámark. Þar setjum við líka inn takmörkun á bala við 24 bala, og höfum það til samræmis við það sem lagt er til sóknartakmörkunar varðandi aflahámarksbátana, að ef tveir menn eru þar á bát megi þeir róa með 24 bala en ef einn maður er á bát þá rói hann með 12 bala. Þarna eru síðan sömu margföldunarstuðlar og áður, þ.e. dögunum getur fækkað niður í 32 ef bæði er róið með línu og handfæri.

Þarna eru jafnframt ýmis ákvæði um að fella niður orðið ,,krókaaflamark`` í hinum ýmsu greinum, í 6. gr., 7. gr., í 11. gr. og í 12. gr. laganna. Eins er gert ráð fyrir því að niður falli bráðabirgðaákvæði í 7. gr. laganna.

Þar með hef ég í fljótheitum farið yfir efni greinanna og ætla aðeins að víkja að greinargerðinni sem fylgir með.

Frumvarpið er byggt á þeirri framkvæmd sem gilt hefur um veiðar krókabáta undanfarin þrjú ár og þar af leiðandi fellur krókaaflahlutdeild eða krókaaflamark niður samkvæmt frumvarpinu. Nokkrar breytingar eru þó lagðar til sem ég hef áður farið yfir og ætla ekki að orðlengja um þær frekar.

Miklar deilur hafa staðið um veiðar krókabáta hér á landi í nokkur ár enda er þeim settur mun þrengri rammi hér á landi en víða annars staðar. Ófriður hefur ríkt um veiðikerfi smábátanna en undanfarin ár hafa stjórnvöld gengið erinda stórútgerðarmanna gegn hagsmunum smábátasjómanna og fólks í hinum dreifðu sjávarbyggðum landsins.

Eitt helsta viðfangsefni fiskveiðistjórnar er að setja reglur sem takmarkað geta stærð fiskiskipaflotans. Flest ef ekki öll ríki þar sem fiskveiðar eru stundaðar hafa reglur sem takmarka stærð fiskiskipaflotans og skipta flotanum í aðgreinda útgerðarflokka án þess að það hafi verið talið brot á stjórnarskrá þeirra. Enda er takmörkun á stærð fiskiskipa ein helsta aðferðin við að takmarka fiskveiðar, auk reglna um veiðisvæði og gerð og stærð veiðarfæris sem fiskveiðiríkin heimila að beita innan lögsögu sinnar.

Í grannríkjum okkar Færeyjum og Noregi er fiskveiðiflotanum skipt eftir stærð skipa í útgerðarflokka og einnig eftir því hvaða veiðiaðferð er notuð við fiskveiðarnar, þ.e. togveiðar, netaveiðar, línuveiðar eða handfæraveiðar o.s.frv.

Yfirleitt er það svo að veiðar með kyrrstæðum veiðarfærum, sem notuð eru af hinum minni skipum fiskveiðiflotans, njóta mest frjálsræðis í veiðum. Þetta á einkum við á grunnslóð þar sem veiðum smærri skipa er oft markaður forgangur, t.d. innan 6--12 sjómílna frá strönd.

Í íslenskum lögum hafa veiðar með kyrrstæðum veiðarfærum einnig haft forgang en stærð fiskiskipa sem veiða næst ströndinni er ekki takmörkuð, nema þegar um togveiðar er að ræða en þeim er skipað með lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997. Í greinargerðinni er því lýst hvernig sú takmörkun er, í stuttu máli.

Færeyingar hafa tekið mjög harða afstöðu til veiðarfærastýringar við fiskveiðar í lögsögu sinni og bönnuðu veiðar á þorski, ýsu og ufsa í net þegar árið 1975, auk svo til allra veiða með dragnót.

Hérlendis hefur dragnótin hins vegar verið notuð mjög víða, allt upp að fjöruborði af öllum stærðum skipa, en frá 1997 eru aðeins skipum undir 42 m heimilaðar slíkar veiðar. Dragnótaveiðar hafa hin síðari ár breyst mjög, þ.e. stærð og gerð veiðarfæra, sem vafalítið mun leiða til þess að yfirferð um botninn verður líkari því sem fiskitrollið gefur möguleika á. Eins og áður sagði er veiðum upp við ströndina og á grunnslóð ekki stýrt hér eftir stærð skipa, þótt erlendis hafi smábátar víða forgang á veiðisvæðum með línu og handfærum eftir stærðarflokkum.

Síðan er vikið svolítið að veiðum með dragnót, hvaða heimildir hafa staðið til þess í íslenskri löggjöf og hvaða stærðartakmarkanir hafa verið settar þar inn.

[18:45]

Flutningsmenn telja óeðlilegt að kvótasetja smábátaflotann, enda hníga ekki rök til að það þjóni hagsmunum þjóðarinnar að hefta veiðar hans. Miklu heldur ykjust verðmæti af auðlindinni ef smábáta- og strandveiðiflotinn fengi að veiða meira af ýsu, ufsa og steinbít. Sumar þessar fisktegundir ekki verið fullnýttar af stórútgerðinni á undanförnum árum, samanber tegundartilfærslu liðinna ára. Þar hefur smábátaflotinn bjargað á land milljörðum króna í afla- og útflutningsverðmætum sem ella hefði ekki verið aflað. Það sanna tölur um veiðar á steinbít, ýsu og fleiri tegundum.

Ég tel mig hafa farið nokkuð yfir efni þessa máls og sé ekki ástæðu til þess að rekja það meira. Hér hafa farið fram langar umræður um hvaða áhrif veiðikerfi smábátanna hefur á byggðirnar. Aðeins í lokin ætla ég svo að víkja að því sem oft hefur verið nefnt í umræðunni, en það er hin raunverulega veiði okkar á hinum almennu botnfiskstegundum.

Ég held að rétt sé að vitna til þess hvernig það hefur verið. Ég hef tekið það upp úr skýrslum Hafrannsóknastofnunar. Sannleikurinn er sá að í 50 ár vorum við að veiða að meðaltali 371 þús. tonn af þorski, þ.e. frá 1950 og fram undir 2000, að meðaltali í 50 ár. En á þessu ári erum við að veiða 190 þús. tonn eða megum veiða 190 þús. tonn.

Í ýsu á sl. 50 árum höfum við veitt að meðaltali 60 þús. tonn en erum á þessu ári að veiða 30 þús. tonn. Í ufsa höfum við í hálfa öld, frá 1950, veitt um 70 þús. tonn á ári, en erum á þessu ári að veiða 30 þús. tonn, eða höfum heimild til þess. Í karfa höfum við verið að veiða 92 þús. tonn að meðaltali í 50 ár á hverju ári, en erum í dag að veiða 65 þús. tonn. Í steinbít höfum við að meðaltali veitt 15 þús. tonn í hálfa öld en erum núna að veiða 13 þús. tonn. Í grálúðu höfum við veitt 29 þús. tonn í 30 ár --- við hófum þær veiðar eins og menn vita á áttunda áratugnum --- en erum núna að veiða 20 þús. tonn. Á skarkolaaflann vantar 7 þús. tonn.

Ef þetta er tekið saman kemur í ljós að heildarafli Íslendinga á 50 ára tímabili á síðustu öld var 644 þús. tonn að meðaltali af þessum almennu botnfiskstegundum. Ef við hins vegar skoðum hvað við höfum heimild til að gera á þessu fiskveiðiári þá megum við veiða af þessum sömu botnfiskstegundum 348 þús. tonn. Mismunurinn er hvorki meira né minna en 296 þús. tonn sem vantar inn í heildaraflann.

Ég gerði Hafrannsóknastofnun sérstaka grein fyrir þessu á árinu 1998 þegar ég var starfandi í Farmanna- og fiskimannasambandinu og sendi þeim sérstaka greinargerð um þessar fisktegundir og benti þeim á hvað við værum stödd í aflanýtingu á Íslandsmiðum. Við höfum auðvitað engum sýnilegum árangri náð í uppbyggingu fiskstofna í okkar kvótakerfi, því miður, og þess vegna ber okkur að vinna að því að endurskoða núverandi framkvæmd fiskveiðilöggjafar.